Hoppa yfir valmynd
16. október 2014 Matvælaráðuneytið

Samið um geitina við Erfðanefnd landbúnaðarins

Geitur
Geitur

Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið hefur gert samning við Erfðanefnd landbúnaðarins um að efla geitfjárrækt á Íslandi. Reiknað er með að kostnaður verði samtals 7 milljónir króna á næstu þremur árum. Gert er ráð fyrir að Erfðanefnd landbúnaðarins verði falið að ráðstafa stuðningnum í samræmi við tillögur vinnuhóps sem ráðherra skipaði í vor. Samkvæmt tillögunum er ætlunin að auka beinan stuðning til geitabænda og gera átak í sæðistöku og djúpfrystingu sæðis svo koma megi upp erfðabanka er varðveiti mikilvægustu erfðaþætti stofnsins. Þá verður, í samstarfi við Bændasamtök Íslands, búinn til stafrænn gagnagrunnur með öllum ætternisupplýsingum sem safnað hefur verið frá upphafi um íslenska geitfjárstofninn. 

Þá er einnig stefnt að því að við endurnýjun næstu búvörusamninga verði geitfjárrækt jafnsett sauðfjárrækt í opinberum stuðningi. Þannig megi tryggja ræktun og viðhald stofnsins til framtíðar. Auk þess mun það væntanlega auðvelda áhugasömum ræktendum að fjölga í hjörðum sínum og auka framboð á afurðum. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum