Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið

Áherslur ráðherra á ársfundi Alþýðusambands Íslands

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, á ársfundi ASÍ
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, á ársfundi ASÍ

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, reifaði hugmyndir um aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að lausnum í húsnæðismálum, ræddi ábyrgð atvinnurekenda í atvinnumálum fatlaðs fólks, talaði um horfur í efnahags- og atvinnumálum o.m.fl. í ræðu á ársfundi Alþýðusambands Íslands sem nú stendur yfir.

Húsnæðismál voru ráðherra ofarlega í huga og nefndi hún kannanir sem sýna að stöðugt fjölgar þeim sveitarfélögum sem lýsa skorti á leiguíbúðum víða um land, þótt verst sé staðan á höfuðborgarsvæðinu. Eygló minnti á að verkalýðshreyfingin hefði í húsnæðiskreppu á sjöunda áratugnum tekið höndum saman við aðila vinnumarkaðarins og borgina í tengslum við kjarasamninga um stórátak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Eins mætti nefna ýmis dæmi um samninga þar sem atvinnurekendur greiða framlög í fræðslusjóði, orlofssjóði og sjúkrasjóði og síðast árið 2011 um rúmlega milljarðs króna árlegt framlag í endurhæfingarsjóði: „Því spyr ég: Hvers vegna ekki að semja um sérstakt framlag í húsnæðissjóði á vegum verkalýðsfélaganna til uppbyggingar á leiguhúsnæði fyrir félagsmenn?“ Ráðherra vísað í tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála þar sem gerðar eru tillögur sem liðka eiga fyrir starfsemi húsnæðisfélaga sem byggja eða kaupa íbúðir til útleigu án hagnaðarsjónarmiða og beindi því til verkalýðshreyfingarinnar að íhuga möguleika sína á að standa að slíkum rekstri í ljósi þekkingar sinnar og reynslu: „Ég bið ykkur hér með, beint og án milliliða, að ígrunda þessi mál vel, ekki síst félögin hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er hvað mest.“

Hagvöxtur, fjölgun ársverka og minnkandi atvinnuleysu

Ráðherra sagði ýmis jákvæð teikn á loft í íslensku efnahagslífi og nefndi þar spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um nærri þriggja prósenta hagvöxt á þessu ári og heldur meiri á því næsta. Staðan á vinnumarkaði væri góð, atvinnuþátttaka færi vaxandi og vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar hafi sýnt fjölgun ársverka um 3,4% á þessu ári sem er mesta styrking frá árinu 2007. Þá geri þjóðhagsspá Hagstofunnar ráð fyrir að áfram dragi úr atvinnuleysi sem verði komið niður í 3,5% árið 2015.

Starfsgetumat og atvinnutækifæri

Eygló ræddi um innleiðingu starfsgetumats sem er liður í endurskoðun almannatryggingakerfisins og áherslu á atvinnutengda starfsendurhæfingu. Hún lagði áherslu á ábyrgð atvinnurekenda í þessum efnum, því árangur starfsendurhæfingar til framtíðar byggðist á því að störf væru í boði fyrir fólk með skerta starfsgetu: „Er atvinnulífið reiðubúið að axla þá samfélagslegu ábyrgð sem felst í því að ráða til starfa fólk með skerta starfsgetu? Svörin hafa verið á þá leið að nóg sé af hlutastörfum. Talsmenn öryrkja segja þá hins vegar mæta hindrunum á almennum vinnumarkaði þannig að þeir fái einfaldlega ekki störf. Þetta er afleitt og ég bendi á niðurstöður samráðsvettvangs um aukna hagsæld þar sem fram kemur að meirihluti öryrkja hefur bæði starfsgetu og starfsvilja en lítill hluti þeirra finnur sér starf.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira