Hoppa yfir valmynd
23. október 2014 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Starfshópur vinnur að stefnumótun og skipulagi í málaflokkum Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar

Starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins er nú að hefja vinnu við að móta nýja framtíðarsýn í málaflokkum Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar. Stefnt er að því að hópurinn skili áfangaskýrslu til ráðherra eigi síðar en 1. apríl 2015.

Markmiðið með verkefninu er meðal annars að:

1.   Bæta þjónustu við almenning og fyrirtæki og auka um leið hagræði í uppbyggingu og rekstri opinberra kerfa.

2.   Fara heildrænt yfir verkefni Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar, móta tillögu um að færa frá stofnununum verkefni sem betur verður sinnt annars staðar í ríkiskerfinu og færa til þeirra verkefni sem eiga samleið með verkefnum þeirra. Þar gæti verið um að ræða verkefni frá ýmsum ráðuneytum og stofnunum.

3.   Kanna fýsileika þess að sameina Þjóðskrá Íslands og Útlendingastofnun.

4.   Svara brýnni þörf ríkis og sveitarfélaga fyrir miðlæga þjónustu (upplýsingatæknimiðstöð) í upplýsingatæknimálum og rafrænni stjórnsýslu.

5.   Móta nýja framtíðarsýn í málaflokkum Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar og ná sátt um hana.

Frumathugun á samlegð í starfsemi Landmælinga Íslands og Þjóðskrár Íslands verður unnin í sjálfstæðu verkefni samhliða þessu verkefni.

Verkefnið verður unnið í samræmi við tillögur hagræðingahóps ríkisstjórnarinnar og viðkomandi atriði úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Einnig verður verkefnið unnið í samræmi við stefnuna um upplýsingasamfélagið: Vöxtur í krafti netsins.

Í starfshópnum sitja fulltrúar innanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar auk Unnar Brár Konráðsdóttur alþingismanns sem mun stýra vinnu hópsins. Víðtækt samráð verður haft við stofnanir og hagsmunaaðila.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum