Hoppa yfir valmynd
27. október 2014 Matvælaráðuneytið

Sigurður Ingi ræddi fiskeldi á Íslandi á alþjóðlegri fiskeldisráðstefnu í Síle

Síle GSI ræða
Síle GSI ræða

Alþjóðleg ráðstefna um sjálfbært  fiskeldi var haldin sl. föstudag í Puerto Montt Síle í tengslum við fiskeldissýninguna AquaSur. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði ráðstefnuna með erindi um viðfangsefni og tækifæri í íslensku fiskeldi. Ráðstefnan var á vegum GSI-Global Salmonal Initiative. Þar er um að ræða samtök fiskeldisfyrirtækja víðsvegar að úr heiminum sem fjalla um sameiginleg viðfangsefni fiskeldis á heimsvísu. 

Í erindi sínu gerði Sigurður Ingi grein fyrir þeirri þróun sem átt hefur sér stað í íslensku fiskeldi undanfarin misseri og lagði áherslu á mikilvægi þess að læra af mistökum fortíðar og reynslu annarra landa. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að ýta undir vöxt fiskeldis en það verði ekki gert nema með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Ráðherra gerði grein fyrir þeim reglum og aðgerðum sem eru í gildi í þessum efnum, eins og víðtækt bann við fiskeldi í sjó sem liggur að veiðiám og að unnið sé að gerð reglugerðar um búnað fiskeldisstöðva sem felur í sér strangar kröfur með það að markmiði að leitast við að koma í veg fyrir slysasleppingar. Í erindi sínu kom ráðherra einnig inn á að ljóst sé að huga þurfi frekar að nokkrum þáttum sem lúta að frekari vexti fiskeldis á Íslandi eins og uppbyggingu seiðastöðva, þjónustubáta, samgöngum við eldissvæðin og strandsvæðaskipulagi.

Ráðstefnuna sóttu aðilar frá helstu fiskeldislöndum heims, opinberir aðilar og umhverfissamtök. Í fyrirlestrum og umræðum var fjallað um tækifæri sem felast í fiskeldi og mikilvægi fiskeldis til að auka fæðuframboð í heiminum en ljóst er að eftirspurn eykst stöðugt. Mikið var fjallað um mikilvægi þess að byggja upp eldi á ábyrgan hátt, í sátt við umhverfi og félagslega þætti og leitast við að takmarka fisksjúkdóma. Einnig var nokkuð rætt um ímynd greinarinnar og mikilvægi þess að gera betur grein fyrir því hvernig fiskeldi sé nú stundað á ábyrgari hátt en áður í takt við auknar umhverfiskröfur.

Á myndinni má sjá þá sem tóku þátt í spurningum og svörum á ráðstefnunni þá;  Alf Helge Arskog forstjóra Marine Harvest, Jon Hindar forstjóra Cermaq, Victor Hugo Puchi stjórnarformann AquaChile og Grant Rosewarne forstjóra NewZealand King Salmon.

 


Síle GSI ræðan 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum