Hoppa yfir valmynd
29. október 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherrar Norðurlanda ræddu Norðurskautsmál á fundi sínum í dag

Norrænu umhverfisráðherrarnir

Umhverfisráðherrar Norðurlanda funduðu í Stokkhólmi í dag í tengslum við þing Norðurlandaráðs sem nú stendur þar yfir. Mikill samhljómur var meðal ráðherranna í þemaumræðu um Norðurskautið, sem Sigurður Ingi Jóhansson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hafði forsögu um fundinum.

66. þing Norðurlandaráðs var sett í Stokkhólmi í gær og í dag funduðu umhverfisráðherrar landanna. Meðal annars voru málefni Norðurskautsins til umræðu og voru ráðherrarnir sammála um að nýta norrænt samstarf og vettvang Norðurskautsráðsins til að treysta umgjörð varðandi öryggi og verndun  viðkvæmrar náttúru Norðurskautsins, ekki síst í ljósi síaukinnar skipaumferðar um svæðið.

Ráðherrarnir ræddu einnig loftslagsmálin og með hvaða hætti Norðurlöndin geta stuðlað að því að brúa bilið milli iðnvæddra þjóða og þróunarlanda.

Þá beindu ráðherrarnir sérstaklega sjónum sínum að norræna umhverfismerkinu Svaninum sem fagnar  25 ára afmæli í dag. Svanurinn þykir eitt árangursríkasta umhverfismerki sem völ er á í heiminum í dag en merkið setur umhverfiskröfur á öllum lífsferli vörunnar – allt frá framleiðslu, notkun og þangað til varan endar í ruslinu. Þannig gefur Svansmerkið neytendum kost á að velja þær vörur sem eru öruggastar frá heilbrigðis- og umhverfissjónarhorni.

Að fundinum loknum sátu ráðherrarnir fund umhverfis- og auðlindanefndar Norðurlandaráðs þar sem þeir ræddu við þingmenn, m.a.  um efni og efnavörur og var sjónum sérstaklega beint að hormónatruflandi efnum. Loftslagsmál voru einnig til umræðu sem og möguleikar á vottun sjálfbærra áfangastaða fyrir ferðamenn.

Í kvöld verður svo hátíðarathöfn þar sem ýmis verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt, m.a. umhverfis- og náttúruverndarverðlaun ráðsins. Íslendingar eru með flestar tilnefningar til verðlaunanna í ár eða fjórar, en tilnefnd eru Sjálfseignarstofnunin Skaftholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi,  Sólheimar í Grímsnesi, Reykjavíkurborg og samstarf sveitarfélaganna Eyja- og Miklaholtshrepps, Helgafellssveitar, Grundarfjarðarbæjar, Snæfellsbæjar og Stykkishólmsbæjar á Snæfellsnesi. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum