Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðir gegn einelti verði liður í vinnuverndarstefnu

Samantekt Kristins Tómassonar
Samantekt Kristins Tómassonar

Efla þarf rannsóknir á einelti á vinnustöðum og styrkja stjórnendur til að vinna gegn einelti og takast á við eineltismál ef upp koma á vinnustað. Þetta kom meðal annars fram á vel sóttum morgunverðarfundi um þessi mál sem haldinn var í dag í tilefni af árlegum degi gegn einelti.

Þetta er í fjórða sinn sem dagur gegn einelti er haldinn hér á landi en formleg dagsetning hans er 8. nóvember.  

Vinnuverndarmál heyra undir velferðarráðuneytið sem í tilefni dagsins stóð fyrir morgunverðarfundinum sem haldinn var á Grand Hótel og hátt í 100 manns sóttu. Umfjöllunarefnið var einelti á vinnustöðum. Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, fjallaði um birtingarmyndir eineltis á íslenskum vinnustöðum síðastliðin tíu ár á grundvelli rannsóknar sem hann hefur gert á tilkynningum sem borist hafa Vinnueftirlitinu. Að því loknu fjallaði Hildur Jakobína Gísladóttir stjórnendaráðgjafi um það hvernig hlúð er að þolendum eineltis á vinnustöðum og loks ræddi Andrés Magnússon framkvæmdastjóri um leiðir til að byggja upp góðan starfsanda og koma í veg fyrir einelti.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherraDagskráin hófst með ávarpi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Ráðherra ræddi almennt um mikilvægi þess að horfast í augu við einelti sem raunverulegt og alvarlegt vandamál á vinnustöðum og að vinna gegn því með öllum skynsamlegum ráðum.

Í erindi Kristins kom fram að Vinnueftirlitinu hafa borist 176 tilkynningar um einelti á Vinnustöðum síðastliðin tíu ár. Að meðaltali eru þetta 17 mál á ári, en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd úr erindi Kristins hefur tilkynningum fjölgað umtalsvert frá árinu 2009.

Eygló segir þennan fjölda tilkynninga til Vinnueftirlitisins ekki koma á óvart: „Þetta er eflaust aðeins toppurinn á ísjakanum, því trúlega er það minni hluti eineltismála sem kemur til kasta Vinnueftirlitsins með formlegri tilkynningu.“ Eygló segir niðurstöður morgunverðarfundarins skýrar. Í fyrsta lagi skorti rannsóknir á einelti á vinnustöðum og úr því þurfi að bæta. Í öðru lagi þurfi að leggja mikla áherslu á ábyrgð stjórnenda á vinnustöðum, annars vegar til að skapa aðstæður þar sem einelti fær ekki þrifist og hins vegar að þeir séu færir um að takast á við eineltismál og sjá til þess að úr þeim sé unnið á faglegan hátt þegar á reynir. „Einelti á vinnstöðum er því miður staðreynd og við eigum að fjalla um það þannig en ekki sem feimnismál“ segir félags- og húsnæðismálaráðherra.

Mótun vinnuverndarstefnu

Á málþinginu í morgun sagði Eygló frá ákvörðun sinni um að ráðst í mótun heildstæðrar vinnuverndarstefnu þar sem aðgerðir gegn einelti verður eitt viðfangsefnanna. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, hefur tekið að sér að leiða starfið en hún er meðal annars þekkt af rannsóknum sínum á sviði félagsfræði atvinnulífs, samspili fjölskyldu og atvinnulífs, vinnuskipulagi, vinnutengdri og kynbundinni heilsu og líðan, kynjabundnum vinnumarkaði, kynjakvótum, verkalýðshreyfingunni, upplýsingatækni, rafrænu eftirliti og persónuvernd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum