Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 25/2013

Hinn 11. september 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 25/2013:

 

 Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 441/2013

Benedikt Arnar Víðisson

gegn

Íslandsbanka hf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I.         Beiðni um endurupptöku

Með tölvubréfi dags. 16. desember 2013 óskaði Benedikt Arnar Víðisson eftir því að hæstaréttarmál nr. 441/2013, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 10. september 2013, yrði endurupptekið. Endurupptökubeiðanda var með bréfi dags. 22. janúar 2014 gefinn kostur á að rökstyðja frekar hvernig skilyrðum laga um meðferð einkamála um endurupptöku máls væri fullnægt. Hann sendi endurupptökunefnd rökstuðning sinn með tölvubréfi 28. janúar 2014.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa í máli þessu Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

 II.        Málsatvik

Með aðfararbeiðni, dags. 18. febrúar 2013, var þess krafist að aðför færi fram hjá endurupptökubeiðanda. Skuldin var til komin vegna skuldabréfs að fjárhæð 11.551.570 krónur er endurupptökubeiðandi gaf út til handa gagnaðila og var undirritað þann 11. október 2011. Endurupptökubeiðandi skrifaði undir skuldabréfið en fyrir aftan nafn sitt ritaði hann „M.F“. Aðfararbeiðnin var tekin fyrir af sýslumanninum á Hvolsvelli 10. apríl 2013 og mætti endurupptökubeiðandi sjálfur til gerðarinnar og lýsti því yfir að hann kannaðist ekki við kröfuna og varð ekki við áskorun um að greiða hana. Var því gert fjárnám hjá endurupptökubeiðanda í tryggingarbréfi nr. 7800, að fjárhæð 5.000.000 krónur og tryggingarbréfi nr. 12966 að fjárhæð 5.800.000 krónur með veði í fasteign endurupptökubeiðanda.

Endurupptökubeiðandi skaut málinu til Héraðsdóms Suðurlands og krafðist þess að aðfaragerðin yrði ógild. Byggði hann kröfu sína á því að skuldabréf það sem aðfararbeiðni varnaraðila byggði á ætti að vera ógilt vegna misneytingar af hálfu varnaraðila við samningsgerðina. Skuldabréfið hafi verið einhliða samið af gagnaðila og endurupptökubeiðanda hafi verið settir afarkostir og því hafi hann skrifað undir það. Þá hafi gagnaðili áður tæmt sparisjóðsreikning endurupptökubeiðanda og hann hafi talið sig háðan gagnaðila sem hafi hagnýtt sér þann aðstöðumun sem hafi verið með aðilum. Máli sínu til stuðnings vísaði endurupptökubeiðandi til þess að hann hefði ritað „M.F“ á eftir undirskrift sinni undir skuldabréfið, en það sé skammstöfun á orðunum „með fyrirvara“. Hafi endurupptökubeiðandi talið sig undirrita skuldabréfið með fyrirvara um lögmæti og með fyrirvara um hans besta rétt.

Til vara byggði endurupptökubeiðandi á því að víkja skyldi skuldabréfi því sem aðfararbeiðni gagnaðila byggði á til hliðar í heild þar sem það teldist ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig. Endurupptökubeiðandi vísaði þá einnig til þess að mikill aðstöðumunur hafi ríkt milli hans og gagnaðila og taka yrði tillit til neytendaverndar.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að aðfararbeiðni gagnaðila hefði uppfyllt skilyrði 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og endurrit úr gerðarbók sýslumanns hefði borið með sér að rétt hefði verið staðið að framkvæmd aðfararinnar sem endurupptökubeiðandi var sjálfur viðstaddur. Hvað varðaði þá málsástæðu endurupptökubeiðanda að hann hafi ritað „M.F“ fyrir aftan undirskrift sína á skuldabréfinu taldi dómurinn áritunina ekki vera nægilega skýra eða ótvíræða til þess að hún gæti leyst hann undan greiðsluloforði því sem hann gaf með undirritun sinni. Þá var því hafnað að tiltekin ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða aðrar ástæður sem endurupptökubeiðandi reisti kröfu sína um ógildingu fjárnámsins á, ættu við í málinu.

Endurupptökubeiðandi kærði úrskurð Héraðsdóms Suðurlands til Hæstaréttar 21. júní 2013. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

 III.      Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur að öll skilyrði a. – c. liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 séu uppfyllt. Í fyrsta lagi sé skilyrðum a-liðar ákvæðisins fullnægt þar sem í dómi Hæstaréttar hafi ekki verið tekin afstaða til allra röksemda endurupptökubeiðanda. Hafi Hæstiréttur til að mynda gert að engu þann fyrirvara sem endurupptökubeiðandi hafi réttilega gert við skuldabréf það sem síðan varð grundvöllur aðfararinnar. Endurupptökubeiðandi telur ennfremur að það kunni að vera að hann, sem ekki er þrautþjálfaður málflutningsmaður, hafi ekki lýst málsatvikum nægilega vel og því hafi fengist röng niðurstaða í málið.

Hvað varðar skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. telur endurupptökubeiðandi þau gögn sem hann lagði fram, þar með talið ágrip málsgagna í hæstaréttarmáli nr. 670/2013, áfrýjunarstefna og greinargerð í sama máli leiði í ljós að röng niðurstaða hafi fengist í málinu.

Þá telur endurupptökubeiðandi hagsmuni sína af því að fá endurupptöku stórfellda, enda hafi gagnaðili farið fram á nauðungarsölu á eign hans. Því sé skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. uppfyllt.

Í tölvubréfi sínu frá 28. janúar 2014 ítrekar endurupptökubeiðandi að hann krefjist aðallega endurupptöku á þeim forsendum að augljóst sé að Hæstiréttur hafi ekki skoðað málið til hlítar, enda hafi hann ekki svarað þeim rökum sem endurupptökubeiðandi tefldi fram í kæru sinni.

IV.      Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum. Þá segir í 2. mgr. 168. gr. að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Í 1. mgr. 169. gr. segir að endurupptökunefnd geti leyft, samkvæmt umsókn aðila, að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að unnt sé að fallast á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Endurupptökubeiðandi telur í fyrsta lagi að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 167. gr. sé fullnægt þar sem í dómi Hæstaréttar hafi ekki verið tekin afstaða til allra röksemda hans. Það kunni að vera að endurupptökubeiðandi, sem ekki sé þrautþjálfaður málflutningsmaður, hafi ekki lýst málsatvikum nægilega vel og því hafi niðurstaða málsins orðið röng.

Ekki er unnt að fallast á þessa röksemd endurupptökubeiðanda. Í dómi sínum vísar Hæstiréttur til forsendna héraðsdóms þar sem fjallað er um þær efnislegu málsástæður sem endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á. Þótt endurupptökubeiðandi kunni að vera ósammála niðurstöðu Hæstaréttar í máli hans og telja hana ranga þá kemur slíkt ekki til álita vegna umsóknar um endurupptöku hæstaréttarmáls á grundvelli 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Endurupptökubeiðanda hefur því ekki tekist að sýna fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr., um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það.

Hvað varðar skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. um framlagningu nýrra gagna er orðið geti til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, þá hefur endurupptökubeiðandi ekki lagt fram nein gögn sem hafa þýðingu í máli þessu til viðbótar við þau gögn sem hann lagði fram í dómsmálinu.

Að framansögðu er ljóst að á skortir að öllum skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt. Beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 441/2013 er því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

 ÚRSKURÐARORÐ

 Beiðni Benedikts Arnars Víðissonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 441/2013, sem dæmt var í Hæstarétti 10. september 2013, er hafnað.

 Ragna Árnadóttir formaður

 Björn L. Bergsson

 Þórdís Ingadóttir

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum