Hoppa yfir valmynd
3. desember 2014 Félagsmálaráðuneytið

Forsendur til að skilyrða fjárhagsaðstoð færðar í lög

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt frumvarpinu fá sveitarfélögin skýrari heimild til að skilyrða fjárhagsaðstoð til fólks sem telst vinnufært. Eins er stefnt að því að samræma fjárhæðir fjárhagsaðstoðar milli sveitarfélaga.

Meginmarkmið frumvarpsins er að stuðla að virkni þeirra sem ekki hafa lengur rétt til atvinnuleysisbóta og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni.

Samkvæmt frumvarpinu geta sveitarfélögin skilyrt fjárhagsaðstoð við mat á vinnufærni og virkri atvinnuleit þeirra sem eru taldir vinnufærir. Virk atvinnuleit getur t.d. falið í sér frumkvæði að starfsleit, að vera tilbúinn að ráða sig í starf sem viðkomandi getur sinnt og að sækja um og taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Uppfylli einstaklingur ekki skilyrði um virka atvinnuleit verður sveitarfélögum heimilt að skerða fjárhagsaðstoð hans en þó ekki fyrr en farið hefur fram mat á vinnufærni hans sem Vinnumálastofnun mun annast.

Óheimilt verður að skilyrða heimildargreiðslur sem koma til vegna aðstæðna barna, svo sem greiðslur fyrir tómstundir eða skólamáltíðir og þar sem reglur sveitarfélags taka framfærslu barna inn í útreikning grunnfjárhæðar.

Verði frumvarpið að lögum skapast lagagrundvöllur fyrir samstarfi Vinnumálastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaganna um þjónustu við atvinnuleitendur sem njóta fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögum.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra„Sveitarfélögin hafa lengi óskað eftir þessari heimild og ég tel að með frumvarpinu sé búið að skýra vel hvað í henni felst, hvernig má beita henni og hvert sé markmiðið,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra: „Við vitum að hætta á varanlegri örorku eykst hratt ef fólk er lengi án atvinnu og tekur ekki þátt í skipulagðri starfsemi eða virkni af einhverju tagi. Heimild sveitarfélaganna til að skilyrða fjárhagsaðstoð leggur því sveitarfélögunum og Vinnumálastofnun skyldur á herðar sem felst í einstaklingsmiðaðri þjónustu og stuðningi við það fólk sem hér er um að ræða og tryggja því aðgang að raunhæfum vinnumarkaðsúrræðum.“

Leiðbeiningar um framkvæmd fjárhagsaðstoðar

Með frumvarpinu er lagt til að félags- og húsnæðismálaráðherra gefi árlega út leiðbeinandi reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, þar sem m.a. verði kveðið á um viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar sem sveitarfélög geta nýtt sér við að setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Með þessari breytingu er ætlunin að reyna að samræma fjárhæðir fjárhagsaðstoðar milli sveitarfélaga og stuðla að því að viðmiðunarfjárhæðir verði uppfærðar reglulega.

Reynsla sveitarfélaga á liðnum árum sýnir að tæplega helmingur þeirra sem hafa fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta sæki um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum. Talið er að á þessu ári fái um eða yfir 2.000 einstaklingar sem fá tímabundna eða samfellda fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira