Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2015 Matvælaráðuneytið

Medico ehf. kærir ákvörðun Matvælastofnunar um synjun á innflutningi á mysupróteini.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur þann 7. janúar 2015 kveðið upp svohljóðandi:

Ú R S K U R Ð

Með stjórnsýslukæru dags. 17. október 2014 kærði Margrét Anna Einarsdóttir hdl. f.h. Medico ehf., hér eftir nefndur kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar frá 6. október 2014, um að hafna innflutningi á mysupróteini með farmbréfanúmeri ESKO01094USPWMJ001.

Kröfugerð

Kærandi krefst þess að stjórnsýslukæran fresti réttaráhrifum ákvörðunar Matvælastofnunar frá 6. október 2014. Kærandi krefst þess einnig að ákvörðun Matvælastofnunar frá 6. október 2014 verði ógild og kæranda verði heimilaður innflutningur á mysupróteini með farmbréfsnúmeri ESKO01094USPWMJ001.

Um kæruheimild gildir 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæran barst innan fjögurra vikna kærufrests sbr. 27. laga nr. 37/1993 sbr. 30. gr. d. laga nr. 93/1995 um matvæli.

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Þann 1. september 2014 flutti kærandi inn til landsins dýraafurð frá Bandaríkjunum. Sendingin innihélt meðal annars 230 kg af mysupróteini. Með bréfi dags. 8. september sl. tilkynnti Matvælastofnun kæranda að annmarkar væru á sendingunni í formi þess að dýraafurðin, varan, var ekki merkt viðurkenndri starfsstöð samkvæmt skrá Evrópusambandsins. Í bréfinu var kæranda tilkynnt að stofnunin hygðist hafna innflutningi vörunnar þar sem merkingar hennar stæðust ekki kröfur samkvæmt lögum nr. 93/1995 og reglugerðum settum með stoð í þeim. Kæranda var veittur 10 daga frestur til að tjá sig um efni bréfsins og koma að skriflegum andmælum. Kærandi skilaði inn andmælum við fyrirhugaða höfnun Matvælastofnunar þann 30. september 2014. Með bréfi dags. 6. október 2014 hafnaði Matvælastofnun kæranda um leyfi til innflutnings á vörunni. Í bréfinu var kærandi upplýstur um að ráðstafa yrði vörunni, annaðhvort með endursendingu vörunnar til ákvörðunarstaðar utan Evrópska efnahagssvæðisins eða með eyðingu vörunnar ef endursending væri óframkvæmanleg. Í bréfinu var kæranda leiðbeint um kæruheimild og kærufrest.

Með bréfi dags. 17. október 2014 kærði Margrét Anna Einarsdóttir hdl. f.h. kæranda ákvörðun Matvælas-tofnunar um að hafna innflutningi á dýraafurð á vegum kæranda á 230 kg af mysupróteini með áðurnefndu farmbréfsnúmeri. Í kæru var þess óskað að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað og þess krafist að ákvörðun Matvælastofnunar frá 6. október 2014 yrði ógild og að kæranda yrði heimilaður innflutningur á vörunni.

Með bréfi dags. 17. október 2014 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna framangreindrar kæru. Matvælastofnun var gefinn frestur til 17. nóvember 2014 til að veita umsögn í málinu. Matvælastofnun var einnig veittur frestur til 23. október 2014 til að veita umsögn um viðbótarkröfu kæranda um að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Umsögn Matvælastofnunar um viðbótarkröfu kæranda, að réttaráhrifum ákvörðunar yrði frestað, barst ráðuneytinu með tölvubréfi 24. október 2014. Í umsögn Matvælastofnunar vegna kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa kom fram að umrædd vara væri í vörslu Matvælastofnunar á landamærastöðinni hjá Eimskipum. Matvælastofnun gerði ekki athugasemd við að varan yrði geymd þar uns niðurstaða í kærumálinu myndu liggja fyrir, enda væri hefð fyrir slíku í tilvikum sem þessu. Þann 27. október 2014 féllst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa þannig að umrædd vara var ekki endursend eða henni fargað sbr. 17. gr. reglugerðar nr. 1044/2011 um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, þar til úrskurður hefur verið kveðinn upp um stjórnsýslukæruna. Þann 18. nóvember 2014 barst ráðuneytinu umsögn Matvælastofnunar um stjórnsýslukæru kæranda. Þar krafðist Matvælastofnun þess að hin kærða ákvörðun yrði staðfest. Umsögnin var kynnt kæranda með bréfi ráðuneytisins dags. 21. nóvember 2014. Kærandi sendi ráðuneytinu bréf dags. 9. desember 2014 með athugasemdum varðandi umsögn Matvælastofnunar.

Málsástæður og lagarök

Málsástæður- og lagarök kæranda

Í kæru er þess krafist að ákvörðun Matvælastofnunar frá 6. október 2014 verði ógild og að kæranda verði heimilaður innflutningur á mysupróteini sem flutt var inn til landsins 1. september 2014.

Kærandi telur að með því að mæla fyrir um efni og umfang takmörkunarinnar í reglugerð en ekki í lögum nr. 93/1995 hafi lagaheimild brostið til setningar þeirra takmarkana sem kveðið er á um í reglugerð (EB) nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu og Matvælastofnun byggir höfnun sína á. Matvælastofnun byggir höfnun innflutnings á vörunni á þeim skilyrðum sem sett hafa verið í reglugerð nr. 104/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, auk áorðinna breytinga. Til að Matvælastofnun sé unnt að byggja höfnun sína á ákvæðum framangreindrar reglugerðar verða þau að fullnægja skilyrðum 75. gr. laga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Það ákvæði fjallar um að atvinnufrelsi manna sé verndað. Til þess að skerða megi atvinnufrelsi einstaklinga þá þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt samkvæmt ákvæðinu. Í fyrsta lagi er heimilt að skerða atvinnufrelsi með lagasetningu og í öðru lagi verða almannahagsmunir að liggja til grundvallar þeirri lagasetningu. Framkvæmdavaldið hefur ekki óheft vald til að skerða þennan rétt. Kærandi vísar í dóm Hæstaréttar frá 13. apríl 2000 í máli nr. 15/2000 máli sínu til stuðnings.

Reglugerð nr. 104/2010 er sett samkvæmt heimild í 31. gr. a. laga nr. 93/1995. Samkvæmt 1. mgr. skal ráðherra setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna með reglugerðum og þar skal meðal annars kveðið nánar á um framleiðslu og markaðssetningu matvæla, hollustuhætti í matvælaiðnaði og rekjanleika matvæla og umbúða. Í 3. mgr. 31. gr. a. kemur fram að ráðherra sé heimilt að innleiða með reglugerð, reglugerð (EB) nr. 853/2004. Þrátt fyrir að heimild sé til setningar reglugerðar í lögum þá verður löggjöfin að mæla fyrir um meginreglur, þar sem fram koma takmörk og umfang þess sem skipa má á þennan hátt. Ákvæði reglugerðar (EB) nr. 853/2004 inniheldur takmarkanir sem eru til þess fallnar að setja stjórnarskrárvörðum rétti manna til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa ákveðnar skorður. Kærandi telur að ekki sé hægt að mæla fyrir um slíka takmörkun í reglugerð án skýrrar heimildar í settum lögum um efni hennar og umfang. Kærandi vísar í dóm Hæstaréttar frá 21. október 2004 í máli nr. 174/2004 máli sínu til stuðnings. Kærandi bendir því á að þar sem ekki er mælt fyrir um efni og umfang takmörkunarinnar í lögum nr. 93/1995 þá hafi lagaheimild brostið til setningar þeirra takmarkana sem kveðið er á um í reglugerð (EB) nr. 853/2004 og Matvælastofnun byggir höfnun sína á.

Kærandi bendir á tilgang laga nr. 93/1995. Samkvæmt 1. gr. laganna er hann að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu fullnægjandi. Í viðauka B við reglugerð nr. 1044/2011 segir að tilgangur eftirlits með heilnæmi sé að tryggja að varan sé hæf til þeirra nota sem fram koma á heilbrigðisvottorði. Í 9. mgr. inngangsorða reglugerðar (EB) nr. 853/2004 sem er fylgiskjal I við reglugerð nr. 104/2010 að meginmarkmiðið sé að tryggja neytendum öfluga vernd með tilliti til öryggis matvæla. Tilgangurinn sé því fyrst og fremst að hægt sé að rekja afurðir til framleiðanda, en jafnframt er það staðfesting á að starfsleyfi sé veitt á grundvelli þess að viðkomandi starfsstöð uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til vinnslunnar. Eftirlitsaðilar verða að geta séð á viðkomandi vinnslunúmeri í hvaða starfsstöð varan var framleidd. Kærandi bendir á að eftirlitsaðilar, eins og Matvælastofnun, eru nánast þeir einu sem skoða samþykkisnúmerið. Samþykkisnúmer eru nær aldrei skoðuð af neytendum.

Vörunar eru framleiddar í verksmiðju sem samþykkt hefur verið af Evrópusambandinu og hlotið samþykkisnúmer 1721415. Staðfest hefur verið með heilbrigðisvottorði, sem er útgefið af landbúnaðar-ráðuneyti Bandaríkjanna, að varan sé framleidd í framangreindri verksmiðju sem hlotið hefur samþykkisnúmer frá Evrópusambandinu og auk þess sem hún uppfyllir kröfur um heilnæmi. Markmið og tilgangur framangreindra laga og reglna er því uppfyllt og því verður ekki annað séð en að höfnun á innflutningi vörunnar sé í andstöðu við grundvallarreglu 1. mgr. 8. gr. EES-samningsins um frjáls vöruviðskipti, sem lögfestur hefur verið hér á landi með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

Kærandi bendir á að samkvæmt 13. gr. EES-samningsins er heimilt að setja vöruviðskiptum ákveðin takmörk að því tilskildu að gætt sé meðalhófs. Höfnun Matvælastofnunar á þeim vörum sem hér um ræðir brýtur í bága við grundvallarregluna um meðalhóf vegna þess að reglur þær sem Matvælastofnun leggur til grundvallar höfnun á innflutningi varanna ganga í þessu tilviki lengra en það sem nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum sem reglunum er ætlað.

Kærandi bendir á að þó það sé heimilt að setja atvinnufrelsi ákveðnar skorður til að tryggja öryggi og hollustu þá verður hins vegar að beita þeim takmörkunum sem settar hafa verið þannig að þær gangi ekki lengra en svo að tilgangi þeirra sé náð. Gæta skal meðalhófs þegar atvinnufrelsi manna eru settar skorður, þar vísar kærandi í dóm Hæstaréttar frá 5. apríl í máli nr. 220/2005.

Kærandi telur að ef markmiðið er að tryggja öryggi og hollustu varanna þá koma önnur og vægari úrræði til skoðunar. Annars vegar gæti Matvælastofnun á grundvelli framangreinds heilbrigðisvottorðs heimilað innflutning vörunnar. Hins vegar gæti Matvælastofnun gefið innflytjanda leyfi til að merkja vöruna með samþykkisnúmerinu í viðurvist embættismanna frá Tollstjóra og/eða fulltrúum Matvælastofnunar. Þannig myndi varan bera þá eiginleika sem gerar eru kröfur um í reglugerð nr. 104/2010. Með því að merkja vöruna þá er verið að setja upplýsingar á vöruna sem nú þegar liggja fyrir samkvæmt heilbrigðisvottorði. Það er búið að meta aðstæður við framleiðslu umræddrar vöru og liggja til grundvallar samþykkinu og viðurkenningu yfirvalda enda var það gert af heilbrigðisyfirvöldum í Bandaríkjunum. Önnur vægari úrræði standa því Matvælastofnun til boða sem eru til þess falin að ná þeim markmiðum sem til er ætlast. Höfnun Matvælastofnunar á innflutningi vörunnar stenst því hvorki meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar né meðalhófsreglu EES-samningsins. Kærandi bendir á að það komi hvergi fram í 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 853/2004 að framleiðandum sé einum heimilt að auðkennismerkja vöruna. Ákvörðun Matvælastofnunar er því óþarflega íþyngjandi. Inntak meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 felst að stjórnvaldi sem stefnir að lögmætu markmiði er skylt að velja það úrræði sem vægast er til að ná því markmiði sem að er stefnt.

Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar

Matvælastofnun bendir á að samkvæmt 1. gr. laga nr. 93/1995 er tilgangur laganna að tryggja svo sem kostur er gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Til að það sé tryggt hafa verið sett ítarleg ákvæði í lögum um hvaða kröfur séu gerðar til matvælaöryggis, framleiðslu, markaðssetningar, rekjanleika, umbúða, merkingar, efnainnihalds, framkvæmd eftirlits, varúðarráðstafanir, þvingunarúrræði og fleira.

Í 18. og 31. gr. a. laganna kemur fram að ráðherra setji nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þar sem kveðið er nánar á um framleiðslu og markaðssetningu matvæla, efnainnihald, umbúðir, matvælaeftirlit, rekjanleika og merkingar matvæla, innflutning dýraafurða frá þriðju ríkjum, starfsemi landamærastöðva og fleira. Ráðherra er veitt heimild í 31. gr. a. laganna til að lögfesta ákveðnar grunnreglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins sem teknar voru upp í EES-samninginn og vörðuðu öryggi matvæla, þ.e. reglugerð Evrópu-þingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, reglugerð (EB) nr. 853/2004, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 854/2002 um sértækar reglur um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu sem ætlaðar eru til manneldis og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004 um opinbert eftirlit til að staðfesta að lög um fóður og matvæli séu virt.

Matvælastofnun bendir á að samkvæmt 13. gr. a. laga nr. 93/1995 skal á öllum stigum framleiðslu og dreifingar vera fyrir hendi möguleiki á að rekja feril matvæla. Í 2. mgr. segir að stjórnendur matvæla-fyrirtækja skuli geta tilgreint alla einstaklinga og lögaðila sem hafa afhent þeim matvæli, einnig skulu þeir geta tilgreint fyrirtæki sem þeir hafa afhent vörur sínar. Í þessu skyni skulu fyrirtækin hafa yfir að ráða kerfum og verklagsreglum til að gera framangreindar upplýsingar aðgengilegar opinberum eftirlitsaðilum að beiðni þeirra. Matvælin skulu merkt og auðkennt á viðeigandi hátt til að auðveldara verði að rekja feril þeirra með aðstoð viðeigandi skjala eða upplýsinga í samræmi við framangreindar kröfur. Til fyllingar þessu ákvæði segir í 5. gr. og einnig í II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 853/2004 að afurðir sem koma úr dýraríkinu, þar með talið mysuprótein sem um er deilt í þessu máli, skuli auðkennismerktar áður en þær eru sendar úr hlutaðeigandi starfsstöð.

Matvælastofnun bendir á að tilgangur með rekjanleikakröfu í löggjöfinni er sá að til sé kerfi til að rekja feril matvæla. Upplýsingar um aðila sem koma að framleiðslu tiltekinna matvæla, dreifingaraðila, smásala og neytendur matvælanna, hafa þýðingu þegar upp koma tilvik þar sem matvæli hafa í för með sér hættu fyrir heilbrigði manna eða þegar matvælin eru talin geta valdið slíkri hættu. Í þeim tilvikum er nauðsynlegt að hægt sé að rekja feril matvælanna frá framleiðendum til neytenda. Matvælafyrirtæki eiga að geta staðfest frá hvaða fyrirtæki þau hafa fengið tiltekin matvæli og hverjum þau afhenda matvælin. Þannig er hægt að bregðast við á skemmri tíma og með markvissari hætti en ella þegar grípa þarf til innköllunar eða ef taka þarf matvæli af markaði. Notkun auðkennismerkja sem innihalda samþykkisnúmer starfsstöðvar og merking þess á matvæli sem koma frá viðkomandi starfsstöð er mikilvægur hluti af hinu lögbundna rekjanleikakerfi sem kveðið er á um í löggjöfinni. Þá er samþykkisnúmerið staðfesting á að starfsleyfi sé til staðar og að það hafi verið veitt á grundvelli þess að viðkomandi starfsstöð uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækisins samkvæmt matvælalöggjöfinni. Matvæli sem markaðssett eru á Evrópska efnahags-svæðinu skulu bera samþykkisnúmer hlutaðeigandi starfsstöðvar til að auðveldara sé að rekja feril þeirra og auðvelda eftirlitsaðilum að sinna eftirliti og inngripum þegar slíkt er nauðsynlegt. Matvæli úr dýraríkinu þar sem samþykkisnúmerið kemur ekki fram uppfylla því ekki þær kröfur sem gerðar eru varðandi rekjanleika vöru og ekki hægt að fallast á að fullur rekjanleiki sé fyrir hendi.

Samkvæmt 8. gr. b laga nr. 93/1995 bera matvælafyrirtæki ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma. Þá bera þau ábyrgð á öllum stigum framleiðslunnar og dreifingar í fyrirtækjum undir þeirra stjórn og skulu sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt.

Í 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 853/2004 er fjallað um afurðir úr dýraríkinu frá þriðju ríkjum, þ.e. löndum utan Evrópska efnahagssvæðinu. Þar segir í c-lið, 1. mgr. 6. gr. að stjórnendur matvælafyrirtækja sem flytja inn afurðir úr dýraríkinu frá þriðju ríkjum skuli sjá til þess að innflutningur eigi sér ekki stað nema að hlutað-eigandi afurð uppfylli kröfurnar í reglugerðinni, þ.m.t. kröfurnar í 5. gr. um heilbrigðis- og auðkennis-merkingar.

Matvælastofnun gat ekki með vísan til framgreinds fallist á að höfnun leyfis fyrir innflutning á mysupróteini sem flutt var til landsins með sendingunni ESKO01094USWMJ001 væri í andstöðu við grundvallarreglu 8. gr. EES-samningsins. Þvert á móti verður að telja að löggjöfin sem innleidd hefur verið hérlendis sem hluti af EES-regluverkinu skyldi íslensk stjórnvöld til að sinna innflutningseftirliti með matvælum og að koma í veg fyrir að vörur sem ekki uppfylla kröfur, sem til þeirra eru gerðar í lögum eða reglum, séu fluttar inn á Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 27. gr. laga nr. 93/1995 og reglugerð nr. 1044/2011.

Matvælastofnun bendir á að það er ekki á færi stjórnvalda að víkja til hliðar settum lagaákvæðum með vísan til þess að þau standist ekki ákvæði stjórnarskrá. Slíkt sé aðeins á færi dómstóla að gera. Þegar af þeirri ástæðu ber ráðuneytinu að hafna kröfum kæranda að hin kærða ákvörðun sé brot á 75. gr. stjórnar-skrárinnar.

Matvælastofnun bendir einnig á að ekki er um matskennda stjórnvaldsákvörðun að ræða og því er ekki hægt að halda því fram að ákvörðunin sé í andstöðu við þá meðalhófsreglu sem stjórnvöldum ber að starfa eftir. Ljóst er að umrædd vara uppfyllir ekki ófrávíkjanleg lögbundin skilyrði og rekjanleika og merkingar en þau eru forsenda þess að hægt sé að heimila innflutning á vörunni til landsins. Af þessum sökum mótmælir Matvælastofnun því að hún hafi getað tekið aðra ákvörðun en þá að hafna innflutningnum.

Í niðurstöðum umsagnar Matvælastofnunar kemur fram að það mysuprótein sem barst með sendingunni ESKO01094USWMJ001 var ekki merkt þeim lögbundnu merkingum sem kveðið er á um í 5. gr. og II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 853/2004 þar sem á hana vantar auðkennismerki framleiðanda. Ljóst er að umrædd vara uppfyllir ekki kröfur laga nr. 93/1995 og reglugerða sem settar eru með stoð í lögunum og bar Matvælastofnun lögum samkvæmt að hafna leyfi fyrir innflutningi vörunnar og kveða á um að sendingin yrði endursend eða að henni skyldi ella fargað.

Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Vörurnar sem um ræðir voru fluttar til landsins frá Bandaríkjunum þann 1. september 2014. Við nánari skoðun á vörunni kom í ljós að varan var ekki merkt viðurkenndri starfsstöð samkvæmt skrá Evrópu-sambansins. Matvælastofnun hafnaði því leyfi til innflutnings á vörunni með bréfi dags. 6. október 2014.

Samkvæmt 27. gr. b. laga nr. 93/1995 skal allur innflutningur búfjárafurða, sjávarafurða og lifandi ferskvatns- eða sjávardýra frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins fara um landamærastöðvar. Þar skal meðal annars fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingunni til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað. Í 3. gr. reglugerðar nr. 1044/2011 segir að Matvælastofnun skuli sjá til þess að engin sending frá þriðja ríki sé flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið nema að loknu heilbrigðis-eftirliti samkvæmt reglugerðinni. Í 4. gr. reglugerðarinnar kemur síðan fram að heilbrigðiseftirlit með sendingum felist í sannprófun skjala, auðkenna og heilnæmis afurða. Leiði eftirlit samkvæmt reglugerðinni í ljós að þær afurðir uppfylla ekki kröfur sem settar eru í lögum eða reglum eða að slíkt eftirlit leiði í ljós vanrækslu skal Matvælastofnun, að undangegnum andmælarétti innflytjanda, fyrirskipa endursendingu vörunnar til ákvörðunarstaðar utan EES. Sé sú endursending óframkvæmanleg eða innflytjandi samþykkir að slíkt sé framkvæmt þegar í stað, skal eyða vörunni. Þessi sjónarmið koma fram í 17. gr. reglugerðarinnar.

Matvælastofnun staðfestir að heilbrigðisvottorð með vörunni staðfesti að varan komi frá verksmiðju sem fengið hefur samþykki af hálfu Evrópusambandsins og verið úthlutað samþykkisnúmeri. Við skoðun Matvælastofnunar á vörunni kom þó í ljós að varan var ekki merkt með fyrrgreindu samþykkisnúmeri og uppfyllti ekki kröfur sem gerðar eru varðandi innflutning og markaðssetningu dýraafurða á Evrópska efnahagssvæðinu, meðal annars varðandi rekjanleika og merkingar. Varan var því ekki merkt viðurkenndri starfstöð samkvæmt skrá Evrópska efnahagssvæðisins.

Tilgangur laga nr. 93/1995 kemur fram í 1. gr. laganna, þ.e. að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Á öllum stigum framleiðslu og dreifingar skal vera möguleiki á að rekja feril matvæla eins og mysupróteins.

Mysuprótein fellur undir lögin enda fæðubótaefni og samkvæmt 4. gr. laganna er fæðubótaefni matvæli. Stjórnendur matvælafyrirtækja skulu geta tilgreint alla einstaklinga og lögaðila sem hafa afhent þeim matvæli, dýr sem gefa af sér afurðir til manneldis eða hvers kyns efni sem nota á eða vænst er að verði notuð í matvæli sbr. 2. mgr. 13. gr. a. laga nr. 93/1995. Stjórnendur þurfa að geta tilgreint fyrirtæki sem þeir hafa afhent vörur sínar. Settar eru á herðar þeirra skyldur til að ráða yfir kerfum og verklagsreglum til að gera framangreindar upplýsingar aðgengilegar opinberum eftirlitsaðilum að beiðni þeirra. Matvæli skulu vera mekt og auðkennd á viðeigandi hátt til að auðveldara verði að rekja feril þeirra með aðstoð viðeigandi skjala eða upplýsinga í samræmi við framangreindar kröfur. Það er mikilvægt að hægt sé að rekja feril matvæla. Matvælalöggjöf Evrópusambandsins gerir ráð fyrir víðtæku kerfi rekjanleika í matvælafyrirtækjum til þess að hægt sé að afturkalla vörur á markvissan og nákvæman hátt eða veita neytendum eða eftirlits-mönnum upplýsingar og komast þannig hjá óþarfa röskun þegar upp koma vandamál í tengslum við öryggi matvæla.

Reglugerð (EB) nr. 853/2004 öðlaðist gildi á Íslandi með setningu reglugerðar nr. 104/2010 með stoð í 31. gr. a. í lögum nr. 93/1995. Í 5. gr. og II. viðauka í reglugerð (EB) nr. 853/2004 kemur fram  hvernig skuli standa að merkingu afurða sem koma frá þriðju ríkjum, þar með talið Bandaríkjunum, og eiga að fara á markað í aðildarríkjunum. Á merkingu afurða skal koma fram samþykkisnúmer starfsstöðvarinnar skv. 7. tölul. B. hluta, I. þáttar, II viðauka reglugerðar (EB) nr. 853/2004. Tilgangur auðkennismerkis er annars vegar að tryggja rekjanleika vörunnar og veita upplýsingar um uppruna hennar og hins vegar að staðfesta að viðkomandi starfsstöð hafi gilt vinnslu- eða starfsleyfi sbr. 4. og 5. gr. reglugerðarinnar. Slíkt leyfi á að tryggja tiltekið heilbrigðisástand starfsstöðvarinnar þegar varan yfirgefur starfstöðina. Auðkennismerkið skal sett á vöruna áður en hún er send frá starfsstöð skv. 1. tölul. A. hluta, I. þáttar, II viðauka reglugerðarinnar. Þetta auðkennisnúmer var ekki til staðar þegar varan barst til landsins.

Krafa um auðkennismerkingar á matvælum eru ófrávíkjanleg skv. 13. gr. a. laga nr. 93/1995 sbr. 18. gr. reglugerðar EB nr. 178/2002 um rekjanleika matvæli, 4. gr. reglugerðar nr. 1044/2011 og efnisákvæði I. þáttar, II. viðauka, reglugerðar (EB) nr. 853/2004. Í ákvæðum laga og reglugerðar er ekki veitt heimild fyrir kæranda sem innflytjanda vörunnar að merkja vöruna með samþykkisnúmeri, þ.e. auðkennisnúmerinu eftir að vörurnar hafa verið fluttar til landsins. Hvort verksmiðjan hafi fengið samþykkisnúmer frá Evrópu-sambandinu eða ekki hefur því ekki þýðingu, vörunar uppfylltu ekki skilyrði áðurnefndra reglna áður en varan var send frá starfsstöð.

Tilgangur ákvæða laga um matvæli og reglugerða sem settar eru með stoð í lögunum, er að tryggja svo sem kostur er gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Til að þetta sé tryggt, hafa verið settar ítarlegar reglur eins og áður hefur verið reifað. Þá gera þessar reglur ákveðnar kröfur til matvælaöryggis, framleiðslu, markaðssetningar, rekjanleika, umbúða, merkingar og efnainnihalds. Reglurnar setja ákveðin skilyrði vegna innflutnings afurða sem koma úr dýraríkinu og þá sérstaklega til afurða sem koma frá þriðju ríkjum eins og Bandaríkjunum. Ráðuneytið telur því að ákvæði laga og reglugerða komi ekki í veg fyrir innflutning afurða sem koma úr dýraríkinu frá Bandaríkjunum ef skilyrði laga og reglugerða eru uppfyllt og fullnægjandi gögn fylgja vörunni sem flutt er inn til landsins. Ennfremur telur ráðuneytið að það sé ekki á valdi þess að skera úr um hvort lagaheimild hafi brostið til setningar þeirra takmarkana sem kveðið er á um í reglugerð (EB) nr. 853/2004 heldur sé það á forræði dómstóla að skera úr um slíkt.

Meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins mælir fyrir um að ef völ er á fleiri úrræðum er þjónað geti því markmiði sem að er stefnt með tiltekinni ákvörðun, skuli velja það úrræði sem vægast sé. Jafnframt skal gæta hófs í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið og ekki ganga lengra en nauðsyn ber til. Ákvörðun Matvæla-stofnunar frá 6. október 2014 felur í sér að heimila ekki innflutning og dreifingu vöru hérlendis. Ákvörðun Matvælastofnunar er í samræmi við ákvæði laga nr. 93/1995. Ekki verður séð af framangreindum ákvæðum laga og reglugerðum settum með stoð í þeim, að Matvælastofnun sé heimilt að grípa til annarra úrræða en tilgreind eru í ákvæðum laga um matvæli og reglugerðum settum með stoð í þeim.

Matvælastofnun braut því ekki gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Ráðuneytið sér ekki tilefni til að setja út á málsmeðferð málsins hjá Matvælastofnun enda var reglum stjórnsýsluréttar fylgt við afgreiðslu málsins.

Þegar athugun hefur leitt í ljós að vara eins og hér um ræðir uppfyllir ekki þær kröfur sem lög og reglugerðir mæla fyrir um ber að endursenda vöruna til ákvörðunarstaðar utan Evrópska efnahagssvæðisins eða farga vörunni innan 60 daga sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 1044/2011. Ef 60 daga tímamarkið er liðið skal farga vörunni sbr. 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Matvælastofnunar frá 6. október 2014 um að hafna Medico ehf. um leyfi til innflutnings á mysupróteini með sendingarnúmerinu ESKO01094USPWMJ001. Medico ehf. ber að farga vörunni sbr. 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 1044/2014 um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan EES.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Ólafur Friðriksson

        Baldur Sigmundsson

            


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum