Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2015 Matvælaráðuneytið

Veiðifélag Mývatns, kærir ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun styrks úr sjóðnum fyrir almanaksárið 2013.

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 13. mars 2014, sem barst ráðuneytinu 18. sama mánaðar, frá Lex ehf. f.h. Veiðifélags Mývatns, Garði 2, 660 Mývatni, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun styrks úr sjóðnum fyrir almanaksárið 2013.


Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.



Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun styrks úr Fiskræktarsjóði fyrir almanaksárið 2013 á þeim grundvelli að verkefnið "Gönguhegðun silungs í Mývatni"uppfylli ekki gæðakröfur sjóðsins. Þess er krafist að viðurkennt verði að umsókn kæranda um úthlutun styrks úr Fiskræktarsjóði 2013 uppfylli gæðakröfur sjóðsins.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, ódags. sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 2. febrúar 2013 og einnig í Bændablaðinu 7. febrúar 2013, auglýsti Fiskræktarsjóður eftir umsóknum um úthlutun styrkja úr sjóðnum, sbr. 8. gr. laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum. Umsóknarfrestur var til og með 1. mars 2013.


Kærandi sótti um úthlutun styrks úr sjóðnum með umsókn, dags. 28. febrúar 2013, en í umsókninni var lýsing á því verkefni sem umsóknin var byggð á. Með bréfi, dags. 26. apríl 2013, tilkynnti stjórn Fiskræktarsjóðs kæranda þá ákvörðun stjórnarinnar að hafna umsókn veiðifélagsins. Í ákvörðuninni segir m.a.: "Með umsókn yðar til Fiskræktarsjóðs dags. 28. febrúar 2013 var óskað eftir styrk úr sjóðnum vegna verkefnisins: Gönguhegðun silungs í Mývatni. Stjórn Fiskræktarsjóðs telur verkefnið utan verksviðs sjóðsins og hafnar því þessari styrkbeiðni. "


Þá kom fram í ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá því að kæranda barst framangreind tilkynning, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Með bréfi, dags. 5. júlí 2013, kærði Lex ehf. f.h. kæranda framangreinda ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi og var það byggt á því að kærandi taldi að umsókn hans félli innan verksviðs sjóðsins og því væru forsendur ákvörðunar stjórnar Fiskræktarsjóðs rangar.


Með úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 30. desember 2013, var framangreind ákvörðun stjórnar Fiskræktarstjóðs felld úr gildi með vísan til þess að ráðuneytið taldi að umsókn kæranda gæti fallið undir verksvið Fiskræktarsjóðs og því hefðu forsendur fyrir höfnun umsóknar í hinni kærðu ákvörðun stjórnar sjóðsins verið rangar. Jafnframt var lagt fyrir stjórn Fiskræktarsjóðs að taka að nýju til meðferðar umsókn kæranda um úthlutun úr sjóðnum. Þá var tekið fram að ráðuneytið hefði enga afstöðu tekið til þess hvert skuli vera mat stjórnar Fiskræktarsjóðs á umsókn kæranda.


Með bréfi, dags. 16. janúar 2014, tók stjórn Fiskræktarsjóðs nýja ákvörðun í málinu og tilkynnti kæranda að fjallað hefði verið um umsókn hans að nýju en niðurstaða sjóðsins væri sú að hafna umsókninni á þeim forsendum að hún uppfyllti ekki gæðakröfur sjóðsins.


Þá kom fram í ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá því að kæranda barst framangreind tilkynning, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Með bréfi, dags. 31. janúar 2014, til stjórnar Fiskræktarsjóðs óskaði Lex ehf. f.h. kæranda eftir tilteknum skýringum og einnig var þess óskað að framangreind ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs yrði endurupptekin með vísan til 1. tl. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Með bréfi, dags. 27. febrúar 2014, svaraði stjórn Fiskræktarsjóðs framangreindu bréfi Lex ehf. f.h. kæranda þar sem komu fram umbeðnar skýringar en hafnað var beiðni um endurupptöku eldri ákvörðunar stjórnar sjóðsins, dags. 16. janúar 2014, með vísan til þess að ekki væru lagaskilyrði fyrir endurupptöku samkvæmt 1. tl. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru o.fl.

Með stjórnsýslukæru, dags. 13. mars 2014, sem barst ráðuneytinu 17. sama mánaðar, kærði Lex ehf. f.h. Veiðifélags Mývatns framangreinda ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.


Í stjórnsýslukærunni kemur fram m.a. að kærandi sé veiðifélag í skilningi 53. tl. 3. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði og starfi á grundvelli VI. kafla laganna. Hlutverk félagsins sé m.a. að stunda fiskrækt á félagssvæðinu, eftir því sem þörf krefji, til að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra, sbr. b-lið 1. mgr. 37. gr. laganna.


Einnig er þar gerð grein fyrir umsókn kæranda, dags. 28. febrúar 2013, um styrk úr Fiskræktarsjóði, vegna verkefnisins "Gönguhegðun silungs í Mývatni" og að í umsókninni komi fram að verkefnið lúti að fiskirannsóknum og fiskrækt.


Ennfremur er þar gerð grein fyrir framangreindri málsmeðferð, úrskurði ráðuneytisns, dags. 30. desember 2013 og nýrri ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014. Kærandi hafi verið verulega ósáttur við þessa niðurstöðu málsins. Með bréfi, dags. 31. janúar 2014, hafi kærandi óskað eftir endurupptöku málsins samkvæmt 1. tl. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar um endurupptöku máls. Þar hafi þess einnig verið óskað að kæranda yrðu veittar leiðbeiningar um hvernig umsóknina hefði átt að gera með öðrum hætti, að mati stjórnar sjóðsins, til að gæðakröfum sjóðsins væri mætt, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og svo að hann gæti sent inn lagfærða umsókn. Tekið skuli fram að í því hafi engin viðurkenning falist á því að umsóknin hafi ekki uppfyllt gæðakröfur hlutlægt heldur hafi kærandi haft áhuga á að fá nánari skýringar sjóðsins í þessu efni með tilliti til þeirrar ástæðu sem sjóðurinn hafi gefið upp fyrir synjun sinni um styrk. Kærandi sé mjög ósáttur við svar sjóðsins í framangreindu bréfi, dags. 27. febrúar 2014.


Þá segir í stjórnsýslukærunni að ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, um að hafna umsókn kæranda á þeirri forsendu að umsóknin hafi ekki uppfyllt gæðakröfur sjóðsins sé í engu rökstudd. Enginn rökstuðningur hafi heldur komið fram í bréfi stjórnar sjóðsins, dags. 27. febrúar 2014. Í úthlutunarreglum Fiskræktarsjóðs sé nánast í engu vikið að því hvernig umsóknir skuli vera úr garði gerðar hvað form varðar heldur einungis fjallað um það, sbr. grein V í reglunum, hvaða atriði skuli ráða mati sjóðsins á þeim verkefnum sem sótt sé um styrk fyrir. Varðandi uppbyggingu umsóknar sé þó það eitt nefnt að í henni skuli vera verk-, kostnaðar- og fjármögnunaráætlun. Þetta síðastnefnda skilyrði, sem sé eina hlutlæga atriðið sem komi fram í texta reglnanna og gæti fallið undir gæðakröfur, hafi umsókn kæranda uppfyllt en í henni sé að finna allt í senn, verk-, kostnaðar- og fjármögnunaráætlun. Að öðru leyti hafi umsóknin uppfyllt þær kröfur sem almennt sé hægt að gera til umsókna sem þessara, en umsóknin hafi verið unnin af tilteknum líffræðingi og fagmanni á þessu sviði. Ítarlega sé í umsókninni farið yfir tegund verkefnisins, kostnað, tilgang og markmið, lýsingu, framkvæmdaáætlun og skipulag. Einnig séu tilgreindar þar sérstakar rannsóknarspurningar sem ætlunin hafi verið að leita svara við. Þá hafi fylgt með kostnaðar- og fjármögnunaráætlun, sem og verkáætlun og merkingaráætlun.


Loks segir í stjórnsýslukærunni að kærandi telji að stjórn Fiskræktarsjóðs hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu gagnvart kæranda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er um það m.a. vísað til álits umboðmanns Alþingis í máli nr. 5192/2007 og athugasemda við 7. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Með vísan til framanritaðs beri að fella úr gildi þá ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, að hafna umsókn kæranda um styrk úr sjóðnum fyrir árið 2013.


Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) verklagsreglur Fiskræktarsjóðs 2013, 2) umsókn kæranda vegna verkefnisins "Gönguhegðun silungs í Mývatni"um styrk úr Fiskræktarsjóði, dags. 28. febrúar 2013, ásamt fylgiskjölum, 3) bréf stjórnar Fiskræktarsjóðs til kæranda, dags. 26. apríl 2013, 4) stjórnsýslukæra kæranda til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 5. júlí 2013, 5) bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 30. desember 2013, 6) úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 30. desember 2013, 7) bréf stjórnar Fiskræktarsjóðs til kæranda, dags. 16. janúar 2014, 8) bréf Lex ehf. til stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 31. janúar 2014, 9) bréf stjórnar Fiskræktarsjóðs til kæranda, dags. 27. febrúar 2014, 10) yfirlit um úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árið 2006, 11) yfirlit um úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árin 2007-2013.


Með bréfi, dags. 19. mars 2014, óskaði ráðuneytið eftir umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem stjórn Fiskræktarsjóðs kynni að hafa um málið.


Með bréfi, dags. 9. apríl 2014, barst ráðuneytinu umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs um málið. Þar er m.a. vísað til umsagnar stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 1. nóvember 2013, um eldri stjórnsýslukæru Veiðifélags Mývatns, dags. 5. júlí 2013, þar sem komi fram m.a. að það hafi verið mat stjórnar Fiskræktarsjóðs að í umsókninni komi ekki fram upplýsingar um hvernig ná skuli tilgangi verkefnisins um mat á stofnstærð og stjórnun veiða. Stjórnin telji að samræmi verði að vera milli tilgangs og markmiða annars vegar og framkvæmdalýsingar hins vegar til að umsókn sé metin tæk til styrkveitinga. Það hafi verið mat stjórnar að umsækjandi hafi ekki sýnt fram á að fyrirhuguð merking 30 fiska væri rannsóknarverkefni sem falli að þeim verkefnum sem Fiskræktarsjóði beri að styrkja. Vegna framkominna sjónarmiða hafi stjórnin þó tekið fram að réttara kunni að hafa verið að hafna umsókninni á þeirri forsendu að hún uppfyllti ekki gæðakröfur sjóðsins. Ennfremur er í umsögninni vísað til bréfs stjórnar sjóðsins til lögmanns kæranda, dags. 27. febrúar 2014 en þar sé framangreint áréttað. Þá segir í umsögninni að Veiðifélagi Mývatns ætti að vera ljóst eftir lestur þessara bréfa frá stjórn Fiskræktarsjóðs annars vegar dags. 1. nóvember 2013 og hins vegar dags. 27. febrúar 2014, að afstaða stjórnar Fiskræktarsjóðs mótist af því að það sé ekki samræmi á milli tilgangs og markmiða annars vegar og framkvæmdalýsingar hins vegar í styrkumsókninni "Gönguhegðun silungs í Mývatni", dags. 28. febrúar 2013. Umsækjandi hafi ekki á seinni stigum málsins útskýrt eða reynt að útskýra hvernig merking og göngur þessara 30 silunga skili nýjum upplýsingum sem muni bæta veiðistjórnun í Mývatni. Þá sé í umsókninni ekkert sagt til um það hvernig rannsóknir sem þessar, þ.e. merking 30 silunga og skráning göngu þeirra um vatnið, verði nýttar til umbóta vegna nýtingar og verndunar silungs í Mývatni. Veiðifélag Mývatns hafi ekki leitað eftir sérstakri aðstoð eða leiðbeiningum varðandi umsókn til Fiskræktarsjóðs, dags. 28. febrúar 2013. Á heimasíðu Fiskistofu hafi verið verklagsreglur og umsóknareyðublað varðandi hugsanlega úthlutun úr sjóðnum. Ekki hafi komið fram að kærandi hafi á nokkurn hátt misskilið reglur sjóðsins eða að veiðifélagið hefði bersýnilega þörf á sérstökum leiðbeiningum hér að lútandi. Áréttað skuli vegna athugasemda sem komi fram í stjórnsýslukærunni að það falli ekki undir leiðbeiningarskyldu stjórnar Fiskræktarsjóðs að leiðbeina umsækjendum efnislega um gerð umsókna þannig að verkefni falli að úthlutunarreglum sjóðsins. Stjórn Fiskræktarsjóðs hafi í störfum sínum gætt fyrirmæla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sinnt leiðbeiningarskyldu um útfyllingu á umsóknareyðublaði sjóðsins og aðvarað umsækjendur ef þörf hafi verið að afla opinberra leyfa þannig að lög standi ekki í vegi fyrir afgreiðslu umsókna. Ekki hafi verið um að ræða neitt slíkt varðandi umsókn kæranda. Stjórn Fiskræktarsjóðs telji því að kæruatriði sem komi fram í bréfi lögmanns Veiðifélags Mývatns séu á misskilningi byggð og í engu samræmi við fyrirliggjandi gögn og afgreiðslu stjórnar sjóðsins á umsókn Veiðifélags Mývatns.


Með bréfi, dags. 15. apríl 2014, veitti ráðuneytið kæranda kost á að gera athugasemdir við framangreinda umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 9. apríl 2014.


Með bréfi, dags. 6. maí 2014, bárust ráðuneytinu tilteknar athugasemdir frá Lex ehf., Arnari Þór Stefánssyni, hrl. f.h. Veiðifélags Mývatns við umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs en bréfinu fylgdi greinargerð Laxfiska ehf. sem var faglegur ábyrgðaraðili verkefnis þess sem sótt var um styrk fyrir og var í bréfinu vísað til greinargerðarinnar.


Með tölvubréfum frá 21. október og 11. desember 2014 og 1. janúar 2015 óskaði lögmaður kæranda eftir upplýsingum um afgreiðslutíma málsins og var þeim fyrirspurnum svarað með tölvubréfum ráðuneytisins frá 21. október og 12. desember 2014 og 2. janúar 2015.



Rökstuðningur

I. Í stjórnsýslukæru í máli þessu kemur fram að kærð sé ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, um að hafna umsókn kæranda um styrk úr sjóðnum með vísan til þess að umsóknin uppfylli ekki gæðakröfur sjóðsins. Ekkert kemur hins vegar fram í stjórnsýslukærunni um að einnig sé kærð ákvörðun stjórnarinnar, dags. 27. febrúar 2014, um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku framangreindrar ákvörðunar. Við úrlausn málsins er byggt á því að stjórnsýslukæran beinist eingöngu að umræddri ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, um að hafna beiðni kæranda um úthlutun styrks úr Fiskæktarsjóði 2013.


II. Um Fiskræktarsjóð gilda ákvæði laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum. Þar segir m.a. í 1. gr. að Fiskræktarsjóður sé sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði ráðherra sem hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. Í 2. gr. kemur fram að Fiskræktarsjóður lúti fimm manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Í 3. gr. kemur fram að stjórn Fiskræktarsjóðs hafi yfirumsjón með starfsemi sjóðsins og að verkefni stjórnar séu m.a. að taka ákvarðanir um úthlutanir og útgjöld. Í 8. gr. er fjallað um úthlutanir úr Fiskræktarsjóði, m.a. kemur þar fram að stjórn Fiskræktarsjóðs skuli gefa út og láta birta lána- og úthlutunarreglur sem skulu gilda fyrir sjóðinn næsta almanaksár. Um mat á umsóknum, m.a. gæðakröfur eru ákvæði í verklagsreglum Fiskræktarsjóðs 2013, grein V þar sem segir m.a.: "[...] Við mat á umsóknum er lögð áhersla á mikilvægi og nýnæmi með tilliti til fiskræktar, bættrar veiðiaðstöðu og rannsókna í ám og vötnum og með hvaða hætti afrakstur verkefnisins geti aukið verðmæti. [...]" Um málsmeðferð við veitingu lána og styrkja úr sjóðnum gilda einnig ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og aðrar reglur stjórnsýsluréttarins.



III. Fiskræktarsjóður hefur tiltekið ráðstöfunarfé til úthlutunar fyrir almanaksárið 2013 samkvæmt lögum nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum, og ljóst er að ekki er unnt að veita styrki vegna allra umsókna sem hafa borist stjórn sjóðsins. Það er samkvæmt því mat ráðuneytisins að stjórn sjóðsins hafi ákveðið svigrúm til að velja þau verkefni sem ákveðið er að úthluta styrkjum til fyrir almanaksárið 2013.


Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að hlutverk ráðuneytisins við endurskoðun á hinni kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, í máli þessu takmarkist við úrlausn um hvort gætt hafi verið laga og stjórnvaldsreglna við ákvörðunina, þ.m.t. hvort ákvörðunin sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.


Í verklagsreglum Fiskræktarsjóðs 2013 í grein V. Mat á umsóknum er fjallað um hvaða atriði eða sjónarmið skuli lögð til grundvallar við mat á umsóknum um styrki úr sjóðnum en þar segir m.a.: "Við mat á umsóknum er lögð áhersla á mikilvægi og nýnæmi með tilliti til fiskræktar, bættrar veiðiaðstöðu og rannsókna í ám og vötnum og með hvaða hætti afrakstur verkefnisins geti aukið verðmæti. Einnig er horft til hæfni umsækjenda til að leysa verkefnið, þekkingu, reynslu, aðstöðu og raunhæfni áætlana (verk-, kostnaðar- og fjármögnunaráætlun). Þá skal horft til þess hvort verkefnin séu í þágu almennra hagsmuna."


Í umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 9. apríl 2014, sem aflað var vegna stjórnsýslukærunnar og gerð er grein fyrir í umfjöllun í kaflanum "Málsástæður í stjórnsýslukæru o.fl." er gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem stjórn Fiskræktarsjóðs hafði til hliðsjónar við mat á umsókn kæranda og er vísað um það m.a. til þess sem kemur fram í umsögn stjórnarinnar, dags. 1. nóvember 2013, vegna eldri stjórnsýslukæru kæranda, dags. 5. júlí 2013. Þar segir m.a.: "Það var mat stjórnar Fiskræktarsjóðs að í umsókninni komi ekki fram hvernig ná skuli tilgangi verkefnisins um mat á stofnstærð og stjórnun veiða eins og lýst er í kafla um tilgang og markmið. Stjórnin telur að samræmi verði að vera milli tilgangs og markmiða annars vegar og framkvæmdalýsingar hins vegar ef umsókn er metin tæk til styrkveitinga. Því var það mat stjórnar að umsækjandi hafi ekki sýnt fram á að fyrirhuguð merking 30 fiska sé rannsóknaverkefni sem falli að þeim verkefnum sem fiskræktarsjóði beri að styrkja." Einnig er þar vísað til bréfs stjórnar Fiskræktarsjóðs til lögmanns kæranda, dags. 27. febrúar 2014, þar sem framangreindur rökstuðningur var endurtekinn og hafnað beiðni kæranda um endurupptöku málsins með vísan til þess að ekki væru uppfyllt skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Þá segir í framangreindri umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 9. apríl 2014: "Veiðifélagi Mývatns ætti að vera ljóst eftir lestur þessara bréfa frá Fiskræktarsjóði annars vegar frá 1. nóvember 2013 og hins vegar frá 27. febrúar 2014 að afstaða Fiskræktarsjóðs mótast af því að það er ekki samræmi á milli tilgangs og markmiða annars vegar og framkvæmdalýsingar hins vegar í styrkumsókninni "Gönguhegðun silungs í Mývatni" frá 28. febrúar 2013. Í umsókninni er nefnt að lítil stofnstærð silungs í Mývatni undanfarin ár og tilheyrandi aflaleysi kalli á að rannsóknir sem þessar verði framkvæmdar svo hægt sé að nýta niðurstöðurnar til umbóta með hliðsjón af nýtingu og verndun silungsins. Í umsókninni er hins vegar ekkert sagt til um það hvernig rannsóknir sem þessar, þ.e. merking 30 silunga og skráning göngu þeirra um vatnið, verði nýttar til umbóta vegna nýtingar og verndunar silungs í Mývatni. Umsækjandi hefur ekki á seinni stigum málsins útskýrt eða reynt að útskýra hvernig merking og göngur þessara 30 silunga skilar nýjum upplýsingum sem munu bæta veiðistjórnun í Mývatni."


Þegar litið er til framangreindra skýringa stjórnar Fiskræktarsjóðs í bréfi, dags. 9. apríl 2014, verður ekki annað séð en að mat stjórnar sjóðsins á umsókn kæranda í hinni kærðu ákvörðun, dags. 16. janúar 2014, hafi verið byggt á almennum og hlutlægum viðmiðum á þeim reglum sem koma fram í grein V í verklagsreglum Fiskræktarsjóðs 2013. Ekkert hefur komið fram í þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram í málinu, þ.e. stjórnsýslukæru, dags. 13. mars 2014 og bréfi, dags. 6. maí 2014, um að þær upplýsingar sem þar var byggt á séu ekki réttar.


Þá verður ekki séð af gögnum málsins að stjórn Fiskræktarsjóðs hafi við meðferð málsins vanrækt leiðbeiningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, í máli þessu um að hafna umsókn kæranda, Veiðifélags Mývatns um úthlutun styrks úr Fiskræktarsjóði fyrir árið 2013.


Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 16. janúar 2014, um að hafna umsókn kæranda, Veiðifélags Mývatns, um úthlutun styrks úr Fiskræktarsjóði á árinu 2013.

 

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Jóhann Guðmundsson.

Sigríður Norðmann

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum