Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 26/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 14. janúar 2015

í máli nr. 26/2014:

Fastus ehf.

gegn

Ríkiskaupum og

Landspítala

Með kæru 29. desember 2014 kærir Fastus ehf. rammasamningsútboð varnaraðila nr. 15585 vegna kaupa á hjartagangráðum, hjartabjargráðum og leiðslum. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í útboðinu, en til vara að varnaraðilum verði gert að bjóða út innkaupin í heild sinni að nýju. Þess er einnig krafist til vara að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði varnaraðila um kaup á hjartagangráðum, hjartabjargráðum og leiðslum. Hinn 19. desember 2014 var upplýst að fjögur tilboð hefðu borist í útboðinu. Var tilboð Inter Medica ehf., sem bauð vörur frá Medtronic, metið fjárhagslega hagkvæmast, en tilboðið fékk 87,4 stig samkvæmt valforsendum útboðsskilmála á meðan tilboð kæranda fékk 71,9 stig. Var því tilkynnt að ákveðið hefði verið að ganga að tilboði Inter Medica ehf. um allt að 70% fyrirhugaðra viðskipta, en við aðra bjóðendur, þ.á m. kæranda, um allt að 30% í samræmi við heimild í útboðsskilmálum. 

Kröfur kæranda byggja í meginatriðum á því að boðnar vörur frá Inter Medica ehf. uppfylli ekki lágmarkskröfur útboðsskilmála og tilboð félagsins hafi því verið ógilt.

Niðurstaða

Í grein 3.11.a í viðauka 14 í útboðsskilmálum kemur fram að svokölluð vöktunarstöð á heimili sjúklinga skuli geta sent gögn sjálfvirkt og handvirkt. Kærandi heldur því fram að sú stöð sem Inter Medica ehf. bauð, og framleidd er af Medtronic, uppfylli ekki þetta skilyrði þar sem hún geti ekki sent gögn með sjálfvirkum hætti. Vísar kærandi máli sínu til stuðnings til útprentunar af heimasíðu Medtronic. Útprentun þessi ber hins vegar ekki skýrlega með sér að það tæki sem Inter Medica ehf. bauð geti ekki sent gögn sjálfvirkt. Þá verður tilboð Inter Medica ehf. ekki skilið á annan hátt en að tækið geti sent gögn með sjálfvirkum hætti, andstætt því sem kærandi heldur fram.

Að öllu framangreindu virtu er það álit nefndarinnar, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvarðana eða annarra athafna varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013. Verður því að fallast á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar vegna rammasamningsútboð varnaraðila, Landspítala, nr. 15585 vegna kaupa á hjartagangráðum, hjartabjargráðum og leiðslum.

 

                                                                                           Reykjavík, 14. janúar 2015

                                                                                           Skúli Magnússon

                                                                                           Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                           Stanley Pálsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn