Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Úrskurður vegna synjunar um bústofnskaupastyrk til frumbýlinga í sauðfjárrækt

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hinn 29. janúar 2015 kveðið upp svohljóðandi:

ÚRSKURÐ

Með stjórnsýslukæru dags. 4. september 2014 kærði Hallgerður Inga Gestsdóttir, kt. 210263-3819 hér eftir nefnd kærandi, ákvarðanir Bændasamtaka Íslands, dags. 3. apríl 2014 og 18. ágúst 2014, vegna synjunar um bústofnskaupastyrk til frumbýlinga í sauðfjárrækt.

Kröfugerð

Kærandi krefst þess að umsókn um bústofnskaupastyrk til frumbýlinga verði tekin upp að nýju og samþykkt verði að kærandi hljóti styrk til bústofnakaupa.

Um kæruheimild gildir 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum og venju. Kæran barst fyrir lok kærufrests skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti.

Kærandi er 100% eigandi Þ-hóls ehf. kt. 420513-0970 sem stendur fyrir búrekstri að Þorkelshóli I í Húnaþingi vestra en félagið leigir jörðina að Þorkelshóli I samkvæmt leigusamningi dags. 1. júlí 2013. Félagið er samkvæmt fyrirtækjaskrá með blandaðan búskap. Kærandi sótti um bústofnskaupastyrk samkvæmt auglýsingu um staðfestingu á verklagsreglum Bændasamtaka Íslands um úthlutun bústofnskaupastyrkja til frumbýlinga nr. 30/2014 með umsókn dags. 28. febrúar 2014, vegna kaupa á 228 gripum haustið 2013. Með tölvupósti Bændasamtaka Íslands dags. 5. mars 2014 var óskað eftir nánari upplýsingum um eignarhald félagsins Þ-hóls ehf. en eignarhald félagsins var ekki tilgreint í umsókn um styrk. Kærandi svaraði fyrirspurn Bændasamtaka Íslands með tölvupósti dags. 6. mars 2014, þar sem kom fram að kærandi væri 100% eigandi og prókúruhafi félagsins en meðstjórnandi væri Axel Guðni Benediktsson kt. 180364-5369.

Með bréfi dags. 3. apríl 2014 synjuðu Bændasamtök Íslands um styrk til nýliðunar í sauðfjárrækt vegna bústofnskaupa. Í ákvörðuninni kemur fram að ástæða synjunarinnar sé að samkvæmt reglum nr. 930/2010 beinist framlögin að einstaklingum sbr. 1. gr. og skulu bundin því að viðkomandi eigi lögheimili á því býli sem hann á eða leigir rekstur á. Samkvæmt þjóðskrá átti kærandi lögheimili að Blönduhlíð 23 í Reykjavík og uppfyllti því ekki skilyrði reglnanna. Í ákvörðuninni var kæranda leiðbeint um kæruheimild til ráðuneytisins skv. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með tölvupósti dags. 7. apríl 2014 óskaði kærandi eftir svörum um það hvort nægjanlegt væri að hún flytti lögheimili sitt að Þorkelshóli I til að fá úthlutað styrk. Bændasamtök Íslands svöruðu erindi kæranda með tölvupósti 22. apríl 2014 þar sem kærandi var upplýstur um að umsókn var hafnað þar sem sótt var um í nafni einkahlutafélags en skv. 7. gr. verklagsreglna Bændasamtaka Íslands skulu styrkir beinast að einstaklingum. Þá uppfylli eigandi félagsins ekki kröfu um lögheimili. Þá var kærandi upplýstur um að Bændasamtökin hefðu tekið ákvörðun um synjun umsóknarinnar á grundveli þeirra gagna og upplýsinga sem lágu fyrir á þeim tíma sem ákvörðunin er tekin. Þá var kærandi upplýstur um að Bændasamtök Íslands gætu ekki breytt ákvörðun sinni. Einnig var kæranda leiðbeint um að unnt væri að kæra synjun samtakanna til ráðuneytisins.

Þann 22. apríl 2014 er lögheimili kæranda breytt. Með bréfi dags. 23. apríl 2014 óskaði kærandi eftir því við ráðuneytið að umsókn um bústofnkaupastyrk yrði tekin fyrir aftur og henni veittur styrkur. Tafir urðu á meðferð málsins hjá ráðuneytinu og með bréfi dags. 7. ágúst 2014 var erindi kæranda framsent til Bændasamtaka Íslands með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Bændasamtök Íslands svöruðu beiðni kæranda með bréfi dags. 18. ágúst 2014 þar sem kom fram að endurupptöku málsins er hafnað, þar sem ákvörðun Bændasamtaka Íslands byggðist á upplýsingum sem lágu fyrir á þeim tíma, m.a. úr Þjóðskrá um lögheimili kæranda.

Með bréfi dags. 4. september 2014 barst ráðuneytinu kæra vegna ákvörðunar Bændasamtaka Íslands en í kærunni er þess óskað að mál kæranda verði tekið upp að nýju og samþykkt verði að kærandi fái úthlutað styrk.

Með bréfi dags. 11. september 2014 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Bændasamtaka Íslands um framangreinda kæru dags. 4. september 2014. Umsögn Bændasamtaka Íslands barst í tölvupósti 14. október 2014. Í umsögn Bændasamtaka Íslands kemur m.a. fram að það hafi legið fyrir að umsækjandi uppfyllti ekki skilyrði verklagsreglna nr. 30/2014 á þeim tíma sem umsókn kæranda var afgreidd af hálfu samtakanna. Með bréfi dags. 15. október 2014 var kæranda veittur frestur til að koma á framfæri athugasemdum við framangreinda umsögn Bændasamtaka Íslands. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 5. nóvember 2014. Ráðuneytið óskaði eftir frekari upplýsingum frá kæranda með bréfi dags. 7. janúar 2015. Svar við bréfi ráðuneytisins barst frá kæranda með bréfi dags. 19. janúar 2015.


Málsástæður og lagarök

Málsástæður og lagarök kæranda

Kærandi bendir á í kæru að lögheimili sitt sem eiganda Þ-Hóls ehf. hafi verið gagnrýnt og sé ástæða synjunar á umsókn um bústofnskaupastyrk 3. apríl 2014 en hafi flutt lögheimili sitt 22. apríl 2014. Kærandi bendir á að í 7. gr. verklagsreglna Bændasamtaka Íslands um úthlutun bústofnskaupastyrkja til frumbýlinga nr. 30/2014 skuli lögheimili vera á lögbýlinu þar sem sauðfé er haldið en ekki sé það skilyrði fyrir úthlutun styrkjar heldur þurfi samtökin að ákveða hvort sérstakar ástæður séu fyrir því að lögheimili umsækjanda sé skráð annars staðar. Bændasamtökin hafi ekki óskað eftir skýringum frá kæranda eða greint frá hvaða ástæður þurfi að liggja að baki því hvar kærandi sé með skráð lögheimili. Þá hafi Bændasamtök Íslands synjað um endurupptöku málsins með tilliti til framangreinds.

Kærandi beinir því einnig til stjórnvalda að óeðlilegt sé að verklagsreglur séu þannig útfærðar að umsækjendum sé ekki gefinn kostur á að lagfæra hjá sér ágalla sem Bændasamtök Íslands telja að séu á umsókn. Verklag Bændasamtaka Íslands feli í sér að umsækjendur fyrirgera rétti sínum ef þeim verður á að færa ekki lögheimili sitt á viðkomandi lögbýli eins og í tilfelli kæranda, áður en umsókn um styrk var send Bændasamtökum Íslands. Kærandi telur að í góðum stjórnsýsluháttum felist að leiðbeina umsækjendum og um leið gefa umsækjendum kost á að lagfæra einstök atriði ef það er nauðsynlegt.

Kærandi bendir á að hún sé eigandi Þ-Hóls ehf. ásamt maka sínum Axel Guðna Benediktssyni, en þau hafi fjármagnað og greitt fyrir það sauðfé sem haldið er í fjárhúsi á Þorkelshóli I í Vestur Húnavatnssýslu. Kærandi lagði fram kvittanir því til stuðnings. Kærandi bendir einnig á í kæru að ástæða fyrir stofnun Þ-Hól ehf. hafi verið til að fjármagna sauðfjárkaupin á árinu 2013. Kærandi bendir á að þar sem hún sé nýliði í sauðfjárrækt sé mikilvægt að veittur verði bústofnskaupastyrkur svo unnt sé að halda áfram fyrirhugðum búskap.

Í bréfi kæranda dags. 19. janúar 2015 er greint frá sérstökum ástæðum þess að lögheimili var ekki skráð að Þorkelshóli I áður en umsókn um bústofnakaupstyrk til frumbýlinga fór fram. Samkvæmt samkomulagi um ábúð/leigu á Þorkelshóli I, var kæranda ekki leigt íbúðarhús né hlunnindi á jörðinni. Nýtt íbúðarhús hefur ekki verið byggt á jörðinni og taldi kærandi heiðarlegra að færa ekki lögheimilið að Þorkelshóli I vegna þess að ljóst væri að það tæki tíma að undirbúa og byggja nýtt íbúðarhús á jörðinni. Kaup á bústofni hafi haft forgang hjá kæranda. Kærandi bendir einnig á að honum hafi ekki boðist að búa í íbúðarhúsinu á jörðinni en hafi haft afnot af íbúðarhúsinu. Kærandi hafi því verið búsettur að Miðhópi I sem er spöl frá Þorkelshóli I. Eftir að Bændasamtök Ísland synjuðu kæranda um styrkinn hafi kærandi brugðist við með því að færa lögheimili sitt að Þorkelshóli I í von um að það hefði áhrif á ákvörðun Bændasamtaka Íslands.

 

Málsástæður og lagarök Bændasamtaka Íslands

Í umsögn Bændasamtaka Íslands dags. 14. október 2014 er vísað til þess að ákvörðun samtakanna var tekin á grundvelli þeirra gagna sem lágu fyrir á þeim tíma. Þá hafi legið fyrir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði verklagsreglna Bændasamtaka Íslands nr. 30/2014 um úthlutun bústofnskaupastyrkjum til frumbýlinga.

Í ákvörðun Bændasamtaka Íslands dags. 3. apríl 2014 kom fram „Samkvæmt reglum nr. 930/2010 beinast framlögin að einstaklingum sbr. 1. grein og skulu bundin því að viðkomandi eigi lögheimili á því býli sem hann á eða leigir rekstur á. Samkvæmt þjóðskrá átt þú löggheimili að Blönduhlíð 23 í Reykjavík og uppfyllir því ekki þetta skilyrði reglnanna. Umsókninni er því hafnað.“ Þá segir ennfremur um ástæður synjunar í svari við beiðni um endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993: „Ákvörðun Bændasamtaka Íslands, sem tilkynnt var yður með bréfi, dags. 3. apríl, byggðist á upplýsingum sem lágu fyrir á þeim tíma, m.a. úr Þjóðskrá um lögheimili yðar. Úthlutun bústofnskaupastyrkja fer fram samkvæmt verklagsreglum Bændasamtaka Íslands um úthlutun bústofnskaupastyrkja til frumbýlinga, sem auglýstar voru í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 30/2014. Bændasamtök Íslands taka ákvörðun um úthlutun bústofnskaupastyrkja á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir við úthlutun. 24. gr. stjórnsýslulaga felur í sér að mál verði endurupptekið ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í því tilviki sem hér um ræðir er hvorki um að ræða að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi né röngum upplýsingum. Öll skilyrði þurfa að vera uppfyllt þegar fjallað er um umsóknir og ákvörðun tekin um úthlutun.“

 

Rökstuðningur

Mál þetta lýtur að verklagsreglum um úthlutun bústofnskaupastyrkja samkvæmt auglýsingu nr. 30/2014 um staðfestingu verklagsreglnanna en verklagsreglurnar eru settar með stoð í 37. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Þá lýtur málið einnig að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. gr. verklagsreglnanna skal verja árlega fjármunum til nýliðunar í stétt sauðfjárbænda, í formi styrkja til bústofnskaupa, bæði til frumbýlinga og við ættliðaskipti á bújörðum. Framlögin beinast að einstaklingum í eigin nafni eða til lögaðila sem hann á meirihluta í eða rekur. Þá kemur einnig fram að hjón og sambýlisfólk teljist sem einn einstaklingur samkvæmt reglunum. Af  gögnum málsins er ljóst að kærandi uppfyllir skilyrði þess að geta sótt um bústofnskaupastyrk, hvort sem er í eigin nafni eða í nafni félagsins Þ-hóls ehf. sem kærandi á meirihluta í.

Í 7. gr. verklagsreglnanna segir: Áður en framlag kemur til greiðslu skal umsækjandi sýna fram á að hann eigi eða leigi rekstur á lögbýli og eigi lögheimili þar. Jafnframt skal umsækjandi leggja fram gögn um að hann hafi ÍSAT númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein, virðisaukaskattsnúmer sem og gögn um að hann sé aðili að eða hafi sótt um aðild að gæðastýringu í sauðfjárrækt. Stjórn Bændasamtaka Íslands er heimilt að víkja frá skilyrði um lögheimili ef sérstakar ástæður mæla með því. 

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með skráð lögheimili á öðrum stað en á því lögbýli þar sem rekstur sauðfjárbúsins fer fram þegar hann sótti um bústofnskaupastyrk. Stjórn Bændasamtaka Íslands er heimilt skv. 7. gr. verklagsreglnanna að víkja frá skilyrði um lögheimili ef sérstakar ástæður mæla með því. Bændasamtök Íslands óskuðu ekki sérstaklega eftir því við meðferð umsóknar kæranda, hverjar væru ástæður þess að lögheimili kæranda var ekki skráð á viðkomandi lögbýli þar sem rekstur sauðfjárbúsins fer fram.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 7. janúar 2015 óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um ástæður þess að kærandi var ekki með skráð lögheimili á viðkomandi lögbýli. Kærandi veitti skýringar með bréfi dags. 19. janúar 2015 þar sem ástæður þess að lögheimili var ekki skráð að Þorkelshóli I voru vegna þess að ekki væri til staðar íbúðarhús á jörðinni sem kærandi hefði umráð yfir sbr. samkomulag um ábúð/leigu á Þorkelshóli I, dags. 1. júlí 2013.

Við meðferð umsókna samkvæmt verklagsreglum um úthlutun bústofnskaupastyrkja til frumbýlinga ber Bændasamtökum Íslands að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 10. gr. laganna segir: Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í reglunni felst að viðkomandi stjórnvaldi ber að rannsaka mál og afla gagna ef nauðsyn krefur. Stjórnvald skal svo staðreyna eftir atvikum hvort upplýsingar sem umsækjandi leggur fram séu réttar til að tryggja að ákvörðun verði tekin á réttum grundvelli. Ráðuneytið telur að Bændasamtökum Íslands hafi með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 borið að óska eftir upplýsingum um ástæður þess að kærandi var ekki með skráð lögheimili á viðkomandi lögbýli. Ráðuneytið telur að aðeins þá hafi samtökin geta lagt á það mat hvort skilyrði  7. gr. verklagsreglnanna voru uppfyllt eður ei og tekið afstöðu til þess hvort víkja bæri frá skilyrði um lögheimili. Við meðferð málsins hjá ráðuneytinu veitti kærandi upplýsingar um það hvaða sérstöku ástæður lágu að baki lögheimilisskráningunni þegar kærandi sótti um bústofnskaupastyrk til frumbýlinga. Þær upplýsingar lágu ekki fyrir í gögnum málsins. Þar af leiðandi liggur ekki fyrir í máli þessu mat Bændasamtaka Íslands á því hvort samtökin telji að sérstakar ástæður mæli með því að víkja skuli frá skilyrði um lögheimili samkvæmt 7. gr. verklagsreglna Bændasamtaka Íslands.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að fella beri ákvarðanir Bændasamtaka Íslands dags. 

3. apríl 2014 og 18. ágúst 2014 um að synja kæranda um úthlutun um bústofnskaupastyrk til frumbýlinga, úr gildi þar sem samtökin gættu ekki að 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Ráðuneytið beinir þeim tilmælum til Bændasamtaka Íslands að samtökin taki umsókn kæranda til meðferðar á ný og leggi mat á það hvort uppfyllt séu skilyrði 7. gr. verklagsreglna um úthlutun bústofnskaupastyrkja til frumbýlinga. Ráðuneytið beinir því til Bændasamtaka Íslands að meðferð málsins verði flýtt eins og kostur er.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Felldar eru úr gildi ákvarðanir Bændasamtaka Íslands dags. 3. apríl 2014 og 18. ágúst 2014 um að synja kæranda um úthlutun um bústofnskaupastyrk til frumbýlinga. Lagt er fyrir Bændasamtök Íslands að taka umsókn kæranda um bústofnskaupastyrk til frumbýlinga, til meðferðar á ný.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 

                                          Ólafur Friðriksson                                     Rebekka Hilmarsdóttir

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn