Hoppa yfir valmynd
16. mars 2015 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Starfshópur skilar ráðherra skýrslu um landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða

Haraldur Benediktsson, Ólöf Nordal og Páll Jóhann Pálsson við afhendingu skýrslunnar.
Haraldur Benediktsson, Ólöf Nordal og Páll Jóhann Pálsson við afhendingu skýrslunnar.

Starfshópur sem innanríkisráðherra skipaði snemma árs 2014 um alþjónustu í fjarskiptum og útbreiðslu háhraða nettenginga hefur skilað Ólöfu Nordal innanríkisráherra skýrslu um landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða. Haraldur Benediktsson, formaður starfshópsins, og Páll Jóhann Pálsson, sem einnig sat í starfshópnum, skiluðu ráðherra skýrslunni í dag.

„Ísland ljóstengt – landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða“ er yfirskrift skýrslunnar og er þar að finna útfærslu á markmiðum í stefnuyfirlysingu ríkisstjórnarinnar er varða byggðamál. Settar eru fram tillögur um leiðir til átaks og eru megin tillögur starfshópsins eftirfarandi:

1.      Aðgangur að háhraða fjarskiptatengingu verði grunnþjónusta sem standa skal öllum landsmönnum til boða óháð búsetu.

2.      Alþjónustumarkmið eða markmið í anda alþjónustu verði sett sem 100 Mb/s frá árinu 2020, ásamt tilheyrandi gæðaviðmiðum.

3.      Skilgreint verði átaksverkefni á landsvísu til sex ára (2015–2020) um uppbyggingu ljósleiðaraaðgangsneta á svæðum þar sem markaðsbrestur er til staðar.

4.      Fjarskiptasjóður aðstoði þá staði með sértækum aðgerðum sem fjarskiptafyrirtækin geta ekki veitt netþjónustu.

Tillögum skýrslunnar er skipt í tvo meginþætti. Annars vegar eru tillögur að breytingum á lögum og reglum um fjarskiptamarkaðinn, hins vegar tillögur sem eru undirstöður „landsátaks“ í uppbyggingu fjarskiptakerfa sem miða að því að öll heimili og fyrirtæki eigi kost á raunverulegri háhraða nettengingu og er það megintillaga hópsins.

Formaðurinn ritar inngang skýrslunnar og undirstrikar hann þar að megin tillaga starfshópsins sé að skilgreina aðgang að háhraða nettengingu sem grunnþjónustu sem standa skuli öllum landsmönnum til boða óháð búsetu. Í lokaorðum inngangsins segir:

,,Uppbyggingin tryggir aðgengi allra landsmanna að allri nútíma og framtíðar fjarskipta­þjónustu, hvort heldur er í atvinnuskyni, til almennra samskipta, náms eða afþreyingar þeirra sem búa eða ferðast um svæðin. Slík uppbygging sem hér um ræðir getur skipt sköpum um framtíð byggða, samkeppnishæfni þeirra og möguleika til vaxtar. Nú þegar hallar verulega á þau fyrirtæki sem hafa byggt starfsemi sína í dreifðum byggðum og hafa ekki gott aðgengi að öflugum fjarskiptatengingum. Úr þessu er mikilvægt að bæta.“

Skýrsla um landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða afhent innanríkisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum