Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 2/2015.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 6. mars 2015

í máli nr. 2/2015:

Inter ehf.

gegn

Ríkiskaupum,

Landspítala og

Icepharma ehf.

Með kæru 20. febrúar 2015 kærir Inter ehf. rammasamningsútboð nr. 15686 „Framework agreement for delivery of Surgical Lights for Landspitali – University Hospital, Reykjavik Iceland“. Kröfur kæranda eru að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun um val á tilboði og leggi fyrir varnaraðila, Ríkiskaup og Landspítalann, að taka nýja ákvörðun um val á tilboði. Þá er þess krafist að varnaraðilum verði gert að greiða málskostnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að útboði þar sem leitað er tilboða í skurðstofulampa. Aðila greinir á um túlkun á skilmála útboðsins sem fram kemur í grein 3.24a í fylgiskjali 14 með útboðsgögnum og er svohljóðandi: „It SHALL be possible to mount the camera at the center of the light head“. Kærandi telur að með þessu sé gert að óundanþægu skilyrði að mögulegt sé að koma myndavél fyrir nákvæmlega í miðju ljóssins. Varnaraðilar telja aftur á móti að ekki beri að skilja textann svo bókstaflega og nægjanlegt sé að myndavél sé staðsett nálægt miðju. Með orðalaginu sé því fyrst og fremst átt við að myndavélin eigi ekki að vera á brún ljóssins eða á armi lampans. Tilkynnt var um val á tilboði Icepharma ehf. 11. febrúar 2015. Óumdeilt er að vara þess fyrirtækis býður ekki upp á að myndavél verði komið fyrir nákvæmlega í miðju ljóssins. Aftur á móti er mögulegt að staðsetja myndavél nálægt miðju ljóssins í lampanum sem Icepharma ehf. býður.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila lýtur að túlkun á orðalagi fyrrnefnds skilmála útboðsgagna. Það er mat kærunefndar að orðalagið „at the center“ í framangreindum skilmála verði að skilja þannig að mögulegt sé að staðsetja myndavél við miðju án þess að hún sé nákvæmlega í miðjunni. Telur nefndin að bjóðendur hafi þannig verið í góðri trú um að tæki með slíkan möguleika uppfylltu skilyrði útboðsins, svo sem gert var ráð fyrir í tilboði Icepharma ehf. Það er því álit nefndarinnar að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvarðana eða annarra athafna varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar varnaraðila Landspítala og Ríkiskaupa við Icepharma ehf. á grundvelli rammasamningsútboðs nr. 15629 „Framework agreement for delivery of Surgical Lights for Landspitali – University Hospital, Reykjavik Iceland“.

                                                                                    Reykjavík, 6. mars 2015.

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                    Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn