Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 20/2015 úrskurður 23. mars 2015

Mál nr. 20/2015                     Millinafn:       Beinteins

 

Hinn 23. mars 2015 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 20/2015 en erindið barst nefndinni 9. mars:

Sótt er um millinafnið Beinteins. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996 eru nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, ekki heimil sem millinöfn. Nafnið Beinteinn er eiginnafn karlmanns í íslensku. Beinteins er eignarfallsmynd þess nafns og er því óheimilt að fallast á það sem millinafn samkvæmt lögum nr. 45/1996.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn er heimilt að gera undantekningu frá 2. mgr. 6. gr., og gefa einstaklingi millinafn þrátt fyrir að skilyrðum þess ákvæðis sé ekki fullnægt ef eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn. Samkvæmt gögnum málsins ber langafi þess barns sem ætlunin var að gefa millinafnið Beinteins eiginnafnið Beinteinn. Þau tengsl fullnægja ekki tilvitnuðum skilyrðum 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn.

Mannanafnanefnd bendir á að samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn er eiginnafn foreldris í eignarfalli heimilt sem millinafn. Til að sú heimild yrði nýtt í þessu máli væri skilyrði að faðir barnsins bæri eiginnafnið Beinteinn.

Með vísan til framangreinds ber að hafna beiðni um millinafnið Beinteins.

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Beinteins er hafnað.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn