Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2015 Utanríkisráðuneytið

Nýjar áskoranir í öryggis- og varnarmálum

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti í dag erindi um nýjar áskoranir í öryggis- og varnarmálum á fundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Í erindi sínu fjallaði ráðherra meðal annars um þá breyttu stöðu sem evrópskir ráðamenn standa frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum vegna þróunarinnar í Úkraínu og uppgangi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Ríki Íslams, fjallaði um þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu sem verður tekin til umfjöllunar á Alþingi á næstu dögum, varnarsamstarfið við Bandaríkin og aukna norræna samvinnu í varnar- og öryggismálum.

Utanríkisráðherra rakti viðbrögð við ólöglegri innlimun Rússa á Krímskaga og ástandinu í Austur-Úkraínu og sagði Ísland leggja sitt af mörkum til þeirra verkefna sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafi ákveðið að ráðist í. Það verði gert með framlagi borgaralegra sérfræðinga og með því að efla framlag til sameiginlegra varna bandalagsins, fyrst og fremst með styrkingu á gistiríkjastuðningi við loftrýmisgæslu bandalagsins á Íslandi. 

Þingsályktunartillaga um þjóðaröryggisstefnu er byggð á tillögum þingmannanefndar sem kynntar voru á síðasta ári og felur í sér tíu áhersluatriði. Samkvæmt tillögunni hvílir þjóðaröryggisstefnan á þeim styrku stoðum sem hafa tryggt öryggi- og varnir Íslands nærfellt alla lýðveldissöguna, aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Utanríkisráðherra sagði þingsályktunartillöguna undirstrika að þjóðaröryggi Íslands sé samofið og óaðskiljanlegt alþjóðlegu samstarfi og að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna verði eftir sem áður hryggjarstykkið í vörnum Íslands.

Hagsmunir Íslands á norðurslóðum eru undirstrikaðir og mikilvægi alþjóðasamtarfs Íslands þar sem víðtækir öryggishagsmunir eru hafðir að leiðarljósi. Áfram verði unnið að efldum tengslum Íslands og við önnur bandalagsríki innan Atlantshafsbandalagsins, sem og sívaxandi samstarfi Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála. Þá er lagt til að sett verði á laggirnar þjóðaröryggisráð sem meti ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglulegum hætti og hafi eftirlit með framfylgd stefnunnar.

Áhersla er lögð á að tryggt sé að í landinu sé til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Þá er stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum hluti þjóðaröryggisstefnunnar og sérstaklega hugað að auknu netöryggi. Enn fremur er í tillögunni ákvæði þess efnis að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. 

Erindi utanríkisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum