Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2015 Dómsmálaráðuneytið

Vinnuhópur um endurskoðun kosningalaga

Endurskoðun kosningalaga stendur nú yfir en í júní 2014 skipaði forseti Alþingis vinnuhóp til að endurskoða kosningalöggjöfina. Beinist starf hópsins að því að samræma lagabreytingar við framkvæmd kosningalöggjafarinnar en ekki að heildarendurskoðun kosningalaga. Á vefsíðu Alþingis er að finna margs konar upplýsingar um verkefnið og þau álitaefni sem eru til athugunar.

Í vinnuhópnum eru: Þórir Haraldsson lögfræðingur, formaður hópsins, Hermann Sæmundsson stjórnmálafræðingur, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Margrét Hauksdóttir lögfræðingur, forstjóri Þjóðskrár Íslands, og Magnús Karel Hannesson kennari, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Með vinnuhópnum starfa Þórhallur Vilhjálmsson og Skúli Guðmundsson, lögfræðingar á skrifstofu Alþingis, Ólafur Hjörleifsson, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu, og Ástríður Jóhannesdóttir, lögfræðingur hjá Þjóðskrá Íslands.

Nánar um starf vinnuhópsins

Vegna starfs vinnuhópsins óskaði  forseti Alþingis þess að þingflokkar tilnefndu fulltrúa sína sem hópurinn gæti leitað til og upplýst um framgang vinnunnar. Þingflokkar tilnefndu eftirfarandi einstaklinga: Freyju Haraldsdóttur varaþingmann, fyrir Bjarta framtíð, Helga Hrafn Gunnarsson þingmann, fyrir Pírata, Katrínu Jakobsdóttur þingmann, fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, Katrínu Theodórsdóttur lögmann, fyrir Samfylkinguna – jafnaðarmannaflokk Íslands, Unni Brá Konráðsdóttur þingmann, fyrir Sjálfstæðisflokk og Vigdísi Hauksdóttur þingmann, fyrir Framsóknarflokk.

Til þess að starf vinnuhópsins verði sem árangursríkast hefur hann frá byrjun ásett sér að hafa samband við sem flesta sem að framkvæmd kosninga koma og einnig opnað vefsíðu svo að almennir kjósendur eigi þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við vinnuhópinn.

Í því skyni var öllum sýslumönnum (kjörstjórum) landsins sendur spurningalisti vegna kaflans í kosningalögum um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Kallað var eftir umsögn þeirra um framkvæmd þessarar atkvæðagreiðslu á síðastliðnum árum og óskað eftir tillögum þeirra að breytingum.

Þá var sérfræðingum frá ÖSE boðið til fundar við vinnuhópinn í febrúar 2015 ásamt ýmsum fulltrúum þeirra sem að framkvæmd kosninga koma, svo sem fulltrúum hlutaðeigandi ráðuneyta, landskjörstjórnar, yfirkjörstjórna og nokkurra undirkjörstjórna sveitarfélaga, sýslumanna, þingflokka og einnig framkvæmdastjórum þeirra.

Einnig er ráðgert að funda með ýmsum fulltrúum félaga fatlaðs fólks vegna ákvæða í kosningalögum um rétt þess til að nýta sér kosningarréttinn og tilhögun á kjörstöðum við þá athöfn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum