Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Norræn verkefni: Ungt fólk til náms og starfa

Fánar Norðurlandanna
Fánar Norðurlandanna

Atvinnuleysi meðal ungs fólks og leiðir til að hvetja ungt fólk til náms eða vinnu hafa verið ofarlega á baugi meðal Norðurlandaþjóðanna á síðustu árum. Efnt hefur verið til fjölmargra verkefna í þessu skyni sem sum hver hafa skilað mjög góðum árangri. Nýjasta tölublað Arbetsliv i Norden er helgað þessu umfjöllunarefni.

Atvinnumál ungs fólks hafa verið fyrirferðamikið umfjöllunarefni í Norrænu samstarfi og voru meðal annars áberandi í áherslum samstarfsins undir forystu Íslands á liðnu ári. Skemmst er að minnast ráðstefnunnar sem haldin var í Svartsengi á Reykjanesi þann 25. september en þar var sjónum beint að þróun skólakerfisins og möguleikum þess til að tengjast betur almennum fyrirtækjum með það að leiðarljósi að veita ungu fólki tækifæri til starfsþjálfunar sem hluta af námi.

Í vefritinu Arbetsliv i Norden er að þessu sinni er lýst verkefnum sem efnt hefur verið til á Norðurlöndunum sem öll hafa það sama markmið að styðja ungt fólk til náms eða vinnu og skapa því raunhæf tækifæri til að fást við áhugaverð verkefni og skapa sér starfsvettvang, þótt leiðirnar að því markmiði séu ekki þær sömu. Mikil reynsla hefur skapast meðal þjóðanna og línur skýrst varðandi aðferðir og leiðir sem líklegastar eru til að skila góðum árangri.

Íslenska verkefnið sem fjallað er um í vefritinu er Atvinnutorgið í Reykjavík sem er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og borgarinnar og er ætlað ungum atvinnuleitendum með fjárhagsaðstoð sem skort hefur tækifæri til að öðlast starfsreynslu á vinnumarkaði.  Fram kemur að um 85% þeirra sem þangað hafa sótt sér þjónustu nýta sér hana ekki lengur. Rúmur helmingur hópsins hefur fengið starf eða farið í nám, um 14% hópsins er óvinnufær, hinir hafa ýmist flutt sig um set eða eru í starfsendurhæfingu af einhverju tagi. Samkvæmt könnun sem gerð var meðal þátttakenda í verkefninu sögðust 92% þeirra myndu mæla með því við vini sína.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum