Hoppa yfir valmynd
4. maí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 4/2015.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 29. apríl 2015

í máli nr. 4/2015:

Optima ehf.

gegn

Reykjavíkurborg

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 16. apríl 2015 kærir Optima ehf. útboð varnaraðila Reykjavíkurborgar nr. 13119 auðkennt „Rammasamningur um tölvu- og netbúnað“. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hafi í janúar 2015 viðhaft rammasamningsútboð um kaup á tölvu- og netbúnaði fyrir Reykjavíkurborg og kærandi hafi fengið afhent útboðsgögn 16. janúar 2015. Í grein 1.1.13 í útboðsgögnum kom fram að eiginfjárstaða bjóðenda skyldi vera jákvæð og bjóðendur skyldu skila ársreikningi, endurskoðuðum og árituðum af löggiltum endurskoðanda án fyrirvara um rekstrarhæfi bjóðenda, því til staðfestu. Óheimilt væri að gera samning við bjóðendur sem gætu ekki sýnt fram á skilyrði um jákvæða eiginfjárstöðu. Sams konar ákvæði um skil á endurskoðuðum ársreikningi var að finna í grein 1.1.8 í útboðsgögnum. Fyrir liggur að kærandi, sem var einn bjóðenda í útboðinu, afhenti varnaraðila óendurskoðaðan ársreikning vegna ársins 2014, með þeim skýringum að eigendur félagsins störfuðu báðir hjá félaginu og hefðu því fulla yfirsýn yfir daglegan rekstur þess auk þess sem ekki hefði verið talin þörf á að leggja út í kostnaðarsama endurskoðun. Kærandi afhenti hins vegar yfirlýsingu löggilts endurskoðanda þar sem staðfest var að samkvæmt drögum að ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2014 væri eigið fé félagsins í lok árs jákvætt. Með tölvupósti varnaraðila 31. mars sl. var kæranda tilkynnt að framlagður ársreikningur hefði ekki verið endurskoðaður og uppfyllti því ekki skilmála útboðsgagna auk þess sem áðurgreind yfirlýsing endurskoðanda væri ófullnægjandi. Með tölvupósti varnaraðila 8. apríl var kæranda veittur frestur til 13. apríl til að skila inn endurskoðuðum ársreikningi. Gögn málsins bera með sér að við því hafi kærandi ekki orðið.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því þær kröfur útboðsgagna sem fram koma í greinum 1.1.8 og 1.1.13, um að bjóðendur skyldu skila inn endurskoðuðum ársreikningi, árituðum af löggiltum endurskoðanda án fyrirvara um rekstarhæfi, séu í andstöðu við ákvæði laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sem og innkaupareglur og innkaupastefnu varnaraðila.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn rétti sínum. Í máli þessu byggir kærandi á því að framangreind ákvæði útboðsgagna í greinum 1.1.8 og 1.1.13, sem kveða á um að bjóðendur skuli skila inn endurskoðuðum ársreikningi, árituðum af löggiltum endurskoðanda án fyrirvara um rekstrarhæfi, séu í andstöðu við ákvæði 49. gr. laga um opinber innkaup og nánar tilgreind ákvæði í innkaupareglum og innkaupastefnu varnaraðila. Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi þess verður að miða við að kærufrestur í hafi byrjað að líða í kjölfar þess að kærandi móttók útboðsgögn 16. janúar 2015, en þá mátti kærandi vita um efni þeirra útboðsskilmála sem hann telur nú brjóta gegn rétti sínum. Var því kærufrestur liðinn þegar kærunefnd útboðsmála móttók kæruna 16. apríl 2015. Af þessari ástæðu eru ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Optima ehf., um að útboð varnaraðila, Reykjavíkurborgar, nr. 13119 auðkennt „Rammasamningur um tölvu- og netbúnað“, verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

                                                                                    Reykjavík, 29. apríl 2015

                                                                                    Skúli Magnússon       

                                                                                    Stanley Pálsson

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum