Hoppa yfir valmynd
14. maí 2015 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar NATO funda í Tyrklandi

Utanríkisráðherrar Íslands, Ungverjalands og Ítalíu.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sótti utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins sem lauk í Antalya Tyrklandi í dag. Málefni Úkraínu, Afganistan og breytt öryggisumhverfi í Evrópu voru á meðal þess sem fjallað var um á fundinum.

Ríki sem taka þátt í aðgerðum í Afganistan funduðu ásamt utanríkisráðherra landsins og fulltrúum ýmissa alþjóðastofnana. Samstaða var um að halda áfam að styðja Afgani með áherslu á borgaralega aðstoð eftir að núverandi stuðningsaðgerðum lýkur í árslok 2016.

Utanríkisráðherra tilkynnti um þátttöku Íslands í stuðningssjóði við starfsmenntun her- og lögreglukvenna í Jórdaníu í samræmi við áherslur Íslands á að efla þátttöku kvenna í öryggis- og friðarmálum.

Í NATO-Úkraínuráðinu var rætt um stöðu mála í Austur-Úkraínu og framkvæmd Minsk-samkomulagsins sem miðar að því að binda endi á átökin þar. Bandalagsríkin ítrekuðu stuðning sinn við úkraínsku þjóðina og hvöttu deiluaðila til að standa vörð um samkomulagið. „Það er helsta haldreipi okkar og það þurfa allir að leggjast á eitt við að tryggja því verði fylgt eftir,“ sagði Gunnar Bragi.

Fundað var um breytingar á öryggisumhverfi Evrópu vegna hernaðarumsvifa Rússa og uppgangs öfgamanna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.  Ráðherranir voru sammála um mikilvægi þess að efla samstarf bandalagsins við samstarfsríki, alþjóðastofnanir og svæðasamtök til að mæta þessum áskorunum og skapa stöðugleika til lengri tími m.a. með stuðningi við umbætur í öryggis- og varnarmálum til að gera ríkjum betur kleift að standa vörð um eigið öryggi.

Á utanríkisráðherrafundinum kom fram að vel gengur að þróa viðbúnaðaráætlun bandalagsins sem ætlað er að efla sameiginlegar varnir og viðbragðsgetu Atlantshafsbandalagsins og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu verði að mestu lokið á næsta ári. „Það er mikilvægt að bandalagið fylgist vel með þróun mála, þar með talið á Norður-Atlantshafinu og norðurslóðum, til að tryggja friðsamlega þróun svæðisins,“ sagði Gunnar Bragi.

Yfirlýsing NATO-Úkraínuráðsins 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum