Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 8/2014

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 30. apríl  2015 í máli nr. 8/2014.
Fasteign: Framnesvegur [ ], Reykjavík, fnr. [ ].
Kæruefni: Gjaldskylda


Árið 2015, 30. apríl, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 8/2014 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 29. september 2014, kærðu X, kt. [ ] og Y, kt. [ ], synjun Reykjavíkurborgar á leiðréttingu fasteignagjalda fyrir árið 2014 vegna sameignar að Framnesvegi [ ], Reykjavík. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2014, var kærendum tilkynnt um móttöku kærunnar af starfsmanni yfirfasteignamatsnefndar.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 2014, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn frá Reykjavíkurborg. Með tölvubréfi, dags. 19. nóvember 2014, óskaði sveitarfélagið eftir fresti til 11. desember 2014 til umsagnar og var umbeðinn frestur veittur með tölvubréfi, dags. 20. nóvember 2014. Með bréfi, dags. 10. desember 2014, krafðist Reykjavíkurborg frávísunar málsins en gerði jafnframt kröfu um að koma að frekari sjónarmiðum ef ekki yrði á þá kröfu fallist. Með bréfi, dags. 13. janúar 2015, upplýsti yfirfasteignamatsnefnd að nefndin teldi ekki forsendur til að vísa málinu frá í heild sinni og óskaði eftir frekari umsögn sveitarfélagsins. Sú umsögn barst með bréfi, dags. 18. febrúar 2015. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2015, sendi yfirfasteignamatsnefnd umsögn Reykjavíkurborgar kærendum til kynningar og gaf þeim kost á að gera við hana athugasemdir. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2015, bárust athugasemdir kærenda við umsögn Reykjavíkurborgar og með bréfi sama dags voru þær athugasemdir sendar sveitarfélaginu til kynningar. Enn fremur óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir nánari upplýsingum og gögnum frá Reykjavíkurborg með tölvubréfi, dags. 2. mars 2015, sem bárust frá sveitarfélaginu samdægurs. Með tölvubréfi, dags. 9. mars 2015, kom Reykjavíkurborg á framfæri athugasemdum við bréf kærenda, dags. 25. febrúar 2015. Kærendum voru kynntar framkomnar upplýsingar og gögn ásamt frekari athugasemdum sveitarfélagsins með tölvubréfi, dags. 16. mars 2015. Engar frekari athugasemdir bárust.

Málið var tekið til úrskurðar þann 17. mars 2015.

Málavextir

Álögð fasteignagjöld vegna íbúðar kærenda í fjöleignarhúsinu Framnesvegi [ ] hækkuðu á árinu 2014. Ástæða umræddrar hækkunar var sú að kærendur voru krafin um fasteignagjöld vegna bílskúrs að Framnesvegi [ ], fnr. [ ], í heild sinni. Áður hafði Framnesvegur [ ] húsfélag, kt. [ ], verið krafið um fasteignagjöld fyrir hönd sameigenda að bílskúrnum. Af hálfu sveitarfélagsins var tilkynnt hinn 25. ágúst 2014 að vegna breytinga á fasteignaskrá 10. mars 2014 hafi öll gjöld verið gefin út á kærandann X og ekki væri hægt að leiðrétta það fyrr en árið 2015. Lagt var til að kærendur endurkrefðu húsfélagið um þessi ofgreiddu gjöld. Kærendur kröfðust endurgreiðslu ofgreiddra gjalda hinn 26. ágúst 2014. Með tölvubréfi, dags. 15. september 2014, hafnaði Reykjavíkurborg erindinu.

Kærendur vilja ekki una framangreindri ákvörðun Reykjavíkurborgar og hafa því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

Sjónarmið kærenda

Kærendur gera þá kröfu að þau fasteignagjöld sem kærendur hafa greitt vegna bílskúrsins að Framnesvegi [ ] verði endurgreidd ásamt vöxtum frá þeim tíma er hver greiðsla hafi verið innt af hendi til Reykjavíkurborgar, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Jafnframt er þess krafist að greiddir verði dráttarvextir af umræddum greiðslum mánuði eftir að sannanlega var krafist endurgreiðslu, þ.e. frá 26. september 2014, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Þá er þess krafist að lagt verði fyrir Reykjavíkurborg að ganga úr skugga um að umrædd mistök við álagningu fasteignagjalda vegna Framnesvegs [ ] hafi einvörðungu verið bundin við árið 2014 en ekki fyrri gjaldár.

Í erindi kærenda kemur fram að þegar þeim hafi verið tilkynnt um mistök varðandi álagningu fasteignagjalda hafi átt eftir að leggja á umrædd gjöld vegna októbermánaðar. Kærendur hafi farið þess á leit með tölvubréfi, dags. 26. ágúst 2014, að umrædd ofgreidd gjöld yrðu endurgreidd til samræmis við lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Kærendur hefðu meðal annars aldrei verið upplýstir um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að leggja á þá umrædd gjöld vegna bílskúrsins í heild, og raunar hafi ekki hvílt á þeim lagaskylda til þess að greiða þau gjöld í stað húsfélagsins, og þá í raun fyrir aðra eigendur fjöleignarhússins. Kærendur telja það ósanngjarnt að þeir skyldu þurfa að bera hallann af mistökum í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Kærendur hafi jafnframt óskað eftir því að fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar færi yfir fasteignagjöld sem lögð hefðu verið á vegna fyrri ára til þess að ganga úr skugga um að umrædd mistök væru einstakt tilvik.

Fram kemur að niðurstaða Reykjavíkurborgar byggi meðal annars á því að um sameign sé að ræða og þar af leiðandi beri allir íbúar fasteignarinnar sameiginlega ábyrgð á greiðslu þeirra gjalda sem um ræðir. Því verði kærendur einfaldlega að snúa sér til sameigenda sinna um endurgreiðslu. Í niðurstöðu sveitarfélagsins hafi verið í engu fjallað um þá ósk kærenda að gjöld vegna fyrri ára verði tekin til skoðunar. Jafnframt hafi kærendur ekki verið upplýstir um þær kæruheimildir og kærufresti sem giltu vegna umræddrar ákvörðunar. Hafi Reykjavíkurborg ekki orðið við ítrekuðum beiðnum um upplýsingar um kæruheimildir og kæruleiðir. Kærendur telji umrædda niðurstöðu því ekki í samræmi við lög.

Í ákvörðun Reykjavíkurborgar komi enn fremur fram að kærendur eigi ekki rétt til þess að fá fasteignagjöldin endurgreidd, þar sem að gjöldin hafi verið til komin vegna hlutar í sameign og sameigendur beri allir óskipta ábyrgð á þeim gjöldum sem lögð hafi verið á sameignina. Því beri kærendum að greiða umrædd gjöld og endurkrefja svo húsfélagið og/eða aðra sameigendur um það sem ofgreitt hafi verið.

Vísað er til 2. mgr. 54. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er fjalli um ábyrgð eigenda gagnvart sameiginlegum kröfuhöfum. Þar sé tiltekið að ábyrgð eigenda sé bein, en þó skuli kröfuhafi, áður en hann beini kröfu að einstökum eiganda, fyrst reyna að fá hana greidda af húsfélaginu. Fáist krafan ekki greidd innan 30 daga frá því innheimtuaðgerðir hófust, geti kröfuhafi leitað fullnustu fyrir allri kröfunni hjá eigendum, einum eða fleirum.

Í máli þessu liggi fyrir að Framnesvegur [ ] húsfélag hafi aldrei verið krafið um umrædd fasteignagjöld heldur hafi kröfunni strax verið beint að kærendum. Hafi því verið vikið frá skýrum fyrirmælum 2. mgr. 54. gr. laga nr. 26/1994. Kærendur telji því ekki stoð fyrir því að byggja á meginreglunni um ábyrgð sameigenda þar sem umrætt ákvæði sé sérákvæði gagnvart þeirri reglu og fortakslaust um það að kröfum sem þessum skuli í upphafi beint að húsfélagi. Þar sem það hafi ekki verið gert beri sveitarfélaginu að endurgreiða kærendum umþrætt fasteignagjöld og beina kröfu um fasteignagjöld að húsfélaginu, til samræmis við fyrrnefnt ákvæði.

Ennfremur telja kærendur að áður en sveitarfélagið tók ákvörðun um að leggja fasteignagjöldin á kærendur, í stað húsfélagsins, hafi því borið að tilkynna þeim að umrætt mál væri til meðferðar hjá sveitarfélaginu og gefa þeim kost á að tjá sig um það, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem það hafi ekki verið gert sé ljóst að ekki hafi verið gætt að þeim málsmeðferðarreglum sem lögin áskilja að fylgt sé við töku stjórnvaldsákvarðana. Þegar þekktri stjórnsýsluframkvæmd sé breytt beri að kynna slíkar breytingar með fyrirvara og útskýra þær með fullnægjandi hætti, sbr. til hliðsjónar 7. gr. stjórnsýslulaga.

Álagning umræddra fasteignagjalda hafi í raun verið mistök, en sveitarfélagið hafi talið eftir sem áður ekki vera forsendur fyrir því að endurskoða þá ákvörðun. Kærendur telja að sú stjórnsýsla samræmist hvorki ákvæðum VI. kafla stjórnsýslulaga né góðum stjórnsýsluháttum.

Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 10. desember 2014, gerði sveitarfélagið kröfu um frávísun málsins á þeim grundvelli að úrskurður um endurgreiðslu vegna fasteignaskatts falli utan valdsviðs yfirfasteignamatsnefndar, sbr. úrskurðir yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 5/2009 og 21/2010. Gerði sveitarfélagið jafnframt kröfu um að fá tækifæri til að koma að frekari sjónarmiðum ef ekki yrði fallist á frávísunarkröfu þess.

Með bréfi yfirfasteignamatsnefndar, dags. 13. janúar 2015, upplýsti nefndin að hún teldi það utan valdsviðs hennar að úrskurða um endurgreiðslu vegna fasteignaskatts. Samkvæmt því bæri að vísa þeirri kröfu frá nefndinni. Hins vegar mætti ráða af gögnum málsins að álitaefni væri hvort telja ætti kærendur gjaldskylda vegna fasteignaskatts af bílskúrnum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, þó slíkt hafi ekki sérstaklega verið tekið fram í kröfugerð. Með tölvubréfi til yfirfasteignamatsnefndar, dags. 8. janúar 2015, hafi lögfræðingur kærenda áréttað framangreindan ágreining. Ágreiningsefni um gjaldskyldu væri innan valdsviðs nefndarinnar og til úrlausnar í umræddu máli.

Í umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 18. febrúar 2015, er tekið fram að samkvæmt III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga sé sveitarfélögum skylt að leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar séu fasteignamati. Jafnframt segi í 2. mgr. 4. gr. laganna að eigandi greiði skattinn nema um leigujarðir, leigulóðir eða önnur samningsbundin jarðarafnot sé að ræða. Þá greiðist skatturinn af ábúanda eða notanda. Framnesvegur [ ] sé leigulóð í eigu Reykjavíkurborgar og beri lóðarleiguhöfum því að greiða fasteignaskatt af fasteignum hennar. Þá fylgi fasteignaskattinum lögveð í þeirri fasteign sem þau eru lögð á ásamt dráttarvöxtum í tvö ár frá gjalddaga.

Í þeim tilvikum sem eigendur eða notendur fasteignar séu tveir eða fleiri verði ofangreind lagaákvæði ekki skilin með öðrum hætti en að þeir beri sameiginlega óskipta ábyrgð á greiðslu gjaldanna. Því til stuðnings sé bent á að fasteignin öll standi til tryggingar greiðslum gjaldanna álagðs fasteignaskatts.

Í áraraðir hafi Reykjavíkurborg gert gjaldendum grein fyrir sameiginlegri ábyrgð með texta aftan á álagningarseðlum fasteignagjalda, en þar segi: „Séu eigendur fleiri en einn bera þeir sameiginlega ábyrgð á greiðslu gjaldanna og verða sjálfir að annast skiptingu þeirra.“

Að öllu framangreindu virtu telji Reykjavíkurborg að kærendur beri sameiginlega og óskipta gjaldskyldu fasteignaskatts sem hafi verið lagður á bílskúrinn að Framnesvegi [ ] með öðrum eigendum fasteignarinnar.

Athugasemdir kærenda við umsögn Reykjavíkurborgar

Með bréfi, dags. 25. febrúar 2015, komu kærendur frekari athugasemdum á framfæri. Í bréfinu er vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga skuli meðal annars lóðarleiguhafi greiða fasteignaskatt þegar um leigulóð sé að ræða. Í fyrirliggjandi máli sé umræddur bílskúr að Framnesvegi [ ] í eigu Framnesvegs [ ] húsfélags, sbr. upplýsingar úr fasteignaskrá. Því hafi verið rétt að beina umþrættri skattkröfu að húsfélaginu. Húsfélagið sé lögaðili sem beri réttindi og skyldur að landslögum, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um fjöleignarhús, og hafi meðal annars það hlutverk að sjá um rekstur sameignar í fjöleignarhúsum. 

Jafnframt beri að horfa til þeirrar ófrávíkjanlegu skyldu samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga um fjöleignarhús að sameiginlegum kröfuhöfum beri að beina kröfum fyrst að húsfélagi áður en gengið verði á einstaka eigendur fjöleignarhúss. Fái einhliða skilmálar Reykjavíkurborgar á baksíðu álagningarseðla fasteignagjalda ekki megnað því að raska skýrum fyrirmælum löggjafans í þessum efnum, en raunar megi telja að umræddir skilmálar eigi ekki við með hliðsjón af fyrirliggjandi ágreiningsefni. Er og tilvísun Reykjavíkurborgar til skilmálanna athyglisverð í ljósi þess að umdeild álagning samrýmist ekki áratugalangri stjórnsýsluframkvæmd sveitarfélagsins að leggja hinn umdeilda fasteignaskatt á Framnesveg [ ] húsfélag en ekki einstaka eigendur íbúða í fjöleignarhúsinu.

Athugasemdir Reykjavíkurborgar við athugasemdir kærenda

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum og gögnum frá sveitarfélaginu með tölvubréfi, dags. 2. mars 2015. Með tölvubréfi sama dag upplýsti sveitarfélagið að Framnesvegur [ ] húsfélag hefði fyrir apríl 2014 verið greiðandi umræddra gjalda og aftur að beiðni eigenda frá febrúar 2015. Á tímabilinu apríl til október 2014 hafi öll gjöldin verið gefin út á annan kærandann, en ástæðuna mætti rekja til breytinga sem framkvæmdar hefðu verið í fasteignaskrá 10. mars 2014. Stakir bílskúrar hafi hingað til verið skráðir með gjalddagareglu líkt og um íbúðarhúsnæði væri að ræða, sem leiði til þess að ef breytingar verði séu öll gjöld gefin út á þann eiganda sem fái eigendanúmer 001 í fasteignaskrá.

Hinn 9. mars 2015 kom Reykjavíkurborg síðan frekari athugasemdum á framfæri í tilefni af athugasemdum kærenda frá 25. febrúar 2015. Í þeim vísar Reykjavíkurborg til þess að Framnesvegur [ ] húsfélag sé ekki eigandi bílskúrsins líkt og kærendur haldi fram. Hins vegar hafi húsfélagið verið skráð sem umráðandi hans. Af skráningu í fasteignaskrá megi sjá að hverri íbúð að Framnesvegi [ ] fylgi 9,0909% eignarhluti í bílskúrnum. Af eigendasögu megi jafnframt sjá að húsfélagið hafi aldrei verið skráð eigandi bílskúrsins.

Niðurstaða

Í kæru er gerð krafa um endurgreiðslu fasteignaskatts vegna bílskúrs að Framnesvegi [ ], fnr. [ ], sem kærendur hafa greitt. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er kveðið á um valdsvið yfirfasteignamatsnefndar. Þar kemur fram að úrskurðum Þjóðskrár Íslands um gjaldstofn samkvæmt 3. gr. sömu laga megi skjóta til yfirfasteignamatsnefndar auk þess sem nefndin skeri úr um gjaldskyldu komi upp ágreiningur þar að lútandi. Með vísan til þessa telur nefndin það utan valdssviðs hennar að úrskurða um endurgreiðslu fasteignaskatts. Umræddri kröfu kærenda er því vísað frá nefndinni.

Eftir stendur þá ágreiningur um hvort telja beri kærendur gjaldskylda vegna fasteignaskatts af bílskúrnum að Framnesvegi [ ] í heild. Kærandinn X var krafinn um álögð fasteignagjöld á tímabilinu apríl til október 2014 en kærandinn Y greiddi þau. Þegar málið kom til yfirfasteignamatsnefndar höfðu kærendur því greitt fasteignagjöldin frá apríl til september 2014. Af gögnum málsins má ráða að fasteignagjöld bílskúrsins í heild hafi fyrir mistök sem voru kærendum alfarið óviðkomandi verið færð með fyrrgreindum hætti vegna breytinga sem áttu sér stað á eignarhaldi eins eignarhluta í fjöleignarhúsinu að Framnesvegi [ ] árið 2014. Sú breyting varð af einhverjum ástæðum til þess að kærandinn X var krafinn um greiðslu umræddra gjalda. Enginn ágreiningur er á milli málsaðila um það að fyrir apríl 2014 var Framnesvegur [ ], húsfélag, skráð greiðandi fasteignagjalda bílskúrsins. Þau gjöld voru svo færð aftur á húsfélagið frá og með febrúar 2015 samkvæmt beiðni eigenda þar um.

Bílskúr að Framnesvegi [ ], fnr. [ ], er sameign eigenda í viðkomandi fjöleignarhúsi. Hver og einn eigandi á 9,0909% í umræddri sameign nema kærendur en eignarhlutur þeirra er 4,5455% hvors um sig. Framnesvegur [ ], húsfélag, er skráð umráðandi bílskúrsins í fasteignaskrá en er líkt og að framan greinir ekki þinglýstur eigandi hans.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga skal árlega leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt fasteignaskrá, sbr. þó 4. mgr. 4. gr. og 5. gr. laganna. Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga er kveðið á um að eigandi greiði skattinn nema um leigujarðir, leigulóðir eða önnur samningsbundin jarðarafnot sé að ræða. Þá greiðist skatturinn af ábúanda eða notanda.

Reykjavíkurborg byggir á því að í þeim tilvikum sem eigendur eða notendur fasteignar séu tveir eða fleiri verði ofangreind ákvæði ekki skilin með öðrum hætti en að þeir beri sameiginlega óskipta ábyrgð á greiðslu gjaldanna. Því til stuðnings bendir borgin á að fasteignin öll standi til tryggingar greiðslum álagðs fasteignaskatts. Í samræmi við þetta hafi Reykjavíkurborg í áraraðir gert gjaldendum grein fyrir sameiginlegri ábyrgð þeirra með texta aftan á álagningarseðlum fasteignagjalda þar sem jafnframt sé tekið fram að þeir verði að annast skiptingu þeirra sjálfir.

Samkvæmt 1. lið 1. mgr. 43. gr. laga um fjöleignarhús er sameiginlegur kostnaður allur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, sem snertir sameign fjöleignarhúss, bæði innan húss og utan, sameiginlega lóð þess og sameiginlegan búnað og lagnir, sem leiðir af löglegum ákvörðunum stjórnar húsfélagsins, almenns fundar þess og þeim ráðstöfunum sem einstakur eigandi hefur heimild til að gera. Þá er kveðið á um skiptingu sameiginlegs kostnaðar í 45. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga um fjöleignarhús er hlutverk og tilgangur húsfélaga aðallega að sjá um varðveislu, viðhald, endurbætur og rekstur sameignarinnar þannig að hún fái sem best þjónað sameiginlegum þörfum eigenda og stuðla að og framfylgja því með samþykktum, reglum og ákvörðunum að hagnýting hússins, bæði séreigna og sameignar, sé ávallt með eðlilegum hætti og þannig að verðgildi eigna haldist. Þá kemur fram í 2. mgr. sama ákvæðis að valdsvið húsfélags sé bundið við sameignina og ákvarðanir sem varða hana og nauðsynlegar eru vegna hennar og sameiginlegra hagsmuna eigenda.

Í 54. gr. laga um fjöleignarhús er kveðið á um ábyrgð eigenda út á við. Í 1. mgr. 54. gr. laganna kemur fram að ábyrgð eigenda út á við gagnvart kröfuhöfum húsfélagsins á sameiginlegum skyldum og skuldbindingum sé persónuleg (með öllum eignum þeirra) og þeir ábyrgir einn fyrir alla og allir fyrir einn (in solidum). Í 2. mgr. ákvæðisins kemur svo fram að ábyrgð eigenda sé einnig bein, en þó skuli kröfuhafi, áður en hann beinir kröfu að einstökum eiganda, fyrst reyna að fá hana greidda af húsfélaginu. Fáist ekki, þrátt fyrir innheimtutilraunir, greiðsla frá því innan 30 daga frá því að þær hófust geti kröfuhafi leitað fullnustu fyrir allri kröfunni hjá eigendum, einum eða fleirum. Í 4. mgr. 54. gr. laganna kemur jafnframt fram að ef eigandi hefur efnt sameiginlega fjárskuldbindingu eignist hann endurkröfurétt á hendur húsfélaginu eða öðrum eigendum í hlutfalli við hlutdeild þeirra í viðkomandi kostnaði, allt að frádregnum hluta sínum. Þessari endurkröfu fylgi lögveð í eignarhlutum annarra með sama hætti og segi í 48. gr. laganna.

Að mati yfirfasteignamatsnefndar er álitaefni hvort Reykjavíkurborg teljist kröfuhafi húsfélagsins samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um fjöleignarhús og þá hvort húsfélagið hafi verið skuldari téðra fasteignagjalda á því tímabili sem kærandinn X var krafinn um greiðslu þeirra. Af gögnum málsins má ráða að Framnesvegur [ ] húsfélag hafi fram í mars 2014 verið greiðandi fasteignagjalda bílskúrsins samkvæmt beiðni eigenda þar um og sú tilhögun samþykkt af Reykjavíkurborg. Af því má draga þá ályktun að borgin hafi samþykkt að beina kröfum vegna álagðra fasteignagjalda að húsfélaginu en ekki einstökum eigendum bílskúrsins þó þeir beri sameiginlega ábyrgð á greiðslu þeirra. Þannig hafi Reykjavíkurborg í reynd samþykkt húsfélagið sem skuldara umræddra gjalda. Frá því fyrirkomulagi gat Reykjavíkurborg ekki horfið einhliða og bar því eðli máls samkvæmt að leiðrétta þau mistök sem urðu þegar kærandinn X var krafinn um greiðslu álagðra fasteignagjalda í stað húsfélagsins.

Með hliðsjón af framangreindu telur yfirfasteignamatsnefnd sýnt að Reykjavíkurborg teljist kröfuhafi húsfélagsins samkvæmt fyrrgreindri 1. mgr. 54. gr. laga um fjöleignarhús og hafi því á umræddu tímabili fyrst borið að beina kröfu um greiðslu álagðra fasteignagjalda að húsfélaginu í samræmi við ófrávíkjanlega skyldu 2. mgr. 54. gr. laga um fjöleignarhús þar að lútandi, þrátt fyrir sameiginlega ábyrgð sameigenda á greiðslu þeirra. Að mati yfirfasteignamatsnefndar telst húsfélagið því gjaldskylt vegna álagðra fasteignagjalda bílskúrsins hið umþrætta tímabil.

Úrskurðarorð

Framnesvegur [ ] húsfélag, kt. [ ], er gjaldskylt vegna álagðra fasteignagjalda frá apríl til október 2014 af bílskúr að Framnesvegi [ ], fnr. [ ], Reykjavík.

Kröfu um endurgreiðslu álagðra fasteignagjalda frá apríl til október 2014 er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

__________________________________

Inga Hersteinsdóttir

   ______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Hulda Árnadóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn