Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Umtalsverðar breytingar fyrirsjáanlegar á reglum á sviði persónuverndar

Innanríkisráðuneytið vinnur nú að greiningu á drögum að breytingum á tilskipun Evrópusambandsins um persónuvernd en á henni byggjast lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Markmið endurskoðunarinnar er að aðlaga reglur á þessu sviði þeim breytingum sem orðið hafa á upplýsingatækni og er ljóst að fyrirsjáanlegar eru umtalsverðar breytingar hérlendis á sviði regluverks um persónuvernd.

Ráðuneytið mun kynna niðurstöður greiningarinnar þegar þær liggja fyrir síðar í sumar bæði á vef ráðuneytisins og með öðrum hætti. Þeir sem nú þegar óska eftir að koma á framfæri upplýsingum og ábendingum á þessu sviði geta haft samband við Sigrúnu Jóhannesdóttur, lögfræðing í innanríkisráðuneytinu sem hefur umsjón með greiningarvinnunni, á netfangið [email protected].

Meðal fyrirhugaðra breytinga er að einfalda reglur sem þeir aðilar sem sýsla með persónuupplýsingar þurfa að uppfylla og að efla réttindi einstaklinga. Einnig er gert ráð fyrir að þeir setji sér sjálfir starfs- og siðareglur. Til þess á meðal annars að setja skýr ákvæði um rétt manna til að fá upplýsingum um sig eytt úr niðurstöðum leitarvéla og til að fá upplýsingar um sig fluttar frá einstökum samfélagsmiðlum til annarra.

Einnig verður sett á laggirnar ný evrópsk stofnun til að tryggja samræmda framkvæmd persónuverndarstofnana í ríkjum Evrópu meðal annars svo menn njóti sambærilegs réttar óháð búsetu.

Nýjar reglur verða annars vegar í reglugerð um meðferð persónuupplýsinga almennt; hins vegar í tilskipun um meðferð persónuupplýsinga í lögreglumálum og við framkvæmd viðurlaga. Hér má nálgast drög að þeim.

ESB ráðgerir að ljúka endurskoðuninni um næstu áramót og að nýjar reglur öðlist gildi tveimur árum síðar. Verði þær felldar undir EES-samninginn og/eða taldar hluti af þróun Schengen-reglna mun Ísland hafa sama frest til að innleiða þær.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira