Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál 11/2015.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 10.júní 2015

í máli nr. 11/2015:

Beiðni Landspítala og Ríkiskaupa

um ráðgefandi álit

 

Með bréfi 28. maí 2015 óskuðu Landspítali og Ríkiskaup eftir ráðgefandi áliti kærunefndar útboðsmála samkvæmt 4. mgr. 91. gr. laga nr. 84/2007, vegna ágreinings sem upp hefur komið milli þeirra í útboði nr. 15756 um innkaup á einnota líni. Upplýst er að tilboð í útboðinu hafi verið opnuð 29. janúar 2015.

            Af bréfinu verður ráðið að ágreiningur aðila lúti að því hvort heimilt sé að beita tilteknu ákvæði útboðsskilmála í framangreindu útboði sem heimilar útilokun tiltekins bjóðanda frá þátttöku í útboðinu á grundvelli þess að hann hafi sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi. Með alvarlegri vanrækslu sé m.a. átt við að bjóðandi hafi á sl. fimm árum vanrækt samningsskyldur sínar gagnvart kaupanda þannig að vara hafi ítrekað verið afhent of seint, að ítrekað hafi verið afhent önnur vara en sú sem pöntuð var eða að kaupandi hafi tímabundið þurft að afla samningsbundinnar vöru frá öðrum birgjum þar sem bjóðandi hafi ekki getið staðið við samningsskuldbindingar sínar. Er óskað eftir ráðgefandi áliti kærunefndar útboðsmála á því hvort heimilt sé að vísa tilteknum bjóðanda í framangreindu útboði frá þátttöku í því á grundvelli framangreinds útboðsskilmála.

 Niðurstaða:

            Í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup kemur fram að kærunefnd útboðsmála sé, að beiðni ráðuneytisins eða tiltekins kaupanda, heimilt að gefa ráðgefandi álit á tilteknum innkaupum þótt engin kæra hafi borist. Af ákvæði þessu og forsögu þess verður ráðið að því er einkum ætlað að taka til þeirra tilvika þegar ráðgerð eru innkaup þar sem verulegir hagsmunir eru í húfi og mikilvægt er að tekin sé afstaða til lögmætis nánar tiltekinna atriða fyrirfram, t.d. hvort samningskaup séu heimil við nánar tilteknar aðstæður. Er ráðgefandi áliti þannig ætlað, eftir föngum, að eyða réttaróvissu og afstýra því að gerður sé ágreiningur um opinber innkaup. Samkvæmt þessu verður ákvæðinu ekki beitt til að afla álits kærunefndar útboðsmála á tilteknum atriðum í útboði sem þegar er hafið og líklegt er að sæti ágreiningi milli aðila og jafnvel kæru til nefndarinnar án tillits til niðurstöðu ráðgefandi álits. Verður því að hafna beiðni Landspítala og Ríkiskaupa um að kærunefnd veiti ráðgefandi álit á framangreindum ágreiningi.

 Ákvörðunarorð:

Beiðni Landspítala og Ríkiskaupa, um að kærunefnd útboðsmála veiti ráðgefandi álit í útboði nr. 15756 um innkaup á einnota líni, er hafnað. 

                                                                                     Reykjavík, 10. júní 2015.

                                                                                     Skúli Magnússon

                                                                                     Stanley Pálsson

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn