Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 10/2015.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 22. júní 2015

í máli nr. 10/2015:

Stólpavík ehf.

gegn

Ríkiskaupum,

Vegagerðinni og

Saltkaup ehf.

Með kæru 8. júní 2015 kærir Stólpavík ehf. útboð varnaraðila Ríkiskaupa og Vegagerðarinnar nr. 15853 auðkennt „Salt til hálkuvarna fyrir Vegagerðina“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi fyrirhugaða samningsgerð um stundarsakir. Þá er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila Ríkiskaupa og Vegagerðarinnar um að meta tilboð kæranda ógilt. Jafnframt er þess krafist að kærunefnd felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um „að ganga til samningaviðræðna“ við varnaraðila Saltkaup ehf. Þess er einnig krafist að kærunefnd láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila, auk þess sem krafist er málskostnaðar. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila Ríkiskaupa og Vegagerðarinnar um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði varnaraðila um kaup á salti til hálkuvarna, nánar tilteknum þeim hluta þess sem útvegun, birgðahald og afgreiðslu á dreifibíla á 10.000 tonnum salti til hálkuvarna á suðursvæði Vegagerðarinnar. Valforsendur útboðsins skiptust í verð og aðstöðu, en við mat á  aðstöðu var bæði horft til nálægðar birgðaskemma bjóðenda við nánar tilgreindar stofnbrautir og stærðar þeirra, en gerð var krafa um að þær rúmuðu að lágmarki 1.500 - 2.000 m3 af salti, sbr. greinar 2.3 og 3.4 í útboðsgögnum. Samkvæmt grein 2.4 voru frávikstilboð ekki leyfð. Gögn málsins bera með sér að tilboð hafi borist frá kæranda og varnaraðila Saltkaupum ehf. og að kærandi hafi átt lægsta tilboðið. Hinn 29. maí sl. var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að ganga að tilboði Salkaupa ehf. og jafnframt upplýst að tilboð kæranda hefði verið metið ógilt með vísan til 2. mgr. 72. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup þar sem upplýsingar þær sem fylgdu tilboði hans hefðu ekki verið fullnægjandi svo að unnt væri að meta hvort það uppfyllti lágmarkskröfur og þær forsendur sem settar höfðu verið fram í útboðsgögnum.   

Kröfur kæranda byggja í meginatriðum á því að útboðsgögn hafi ekki gert kröfu um að bjóðendur legðu til birgðaskemmur til geymslu undir salt, heldur einungis að þeir legðu til birgðastöðvar sem fullnægðu þeim kröfum að tryggja gæði saltsins. Þá er byggt á því að að jafnvel þó sú krafa yrði lesin úr útboðsgögnum að saltið skyldi geyma í skemmum væri slík krafa ekki málefnaleg í ljósi þess að geymsluaðferðir kæranda séu fullnægjandi fyrir þá vöru sem hann bauð, en hann hyggst geyma saltið utandyra varið með sérstöku segli.

Niðurstaða

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun varnaraðila Ríkiskaupa og Vegagerðarinnar frá 29. maí 2015 að ganga til samninga við Saltkaup ehf. í hinu kærða útboði. Verður því að miða við að komist hafi á sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013. Er því ekki tilefni til að taka til greina kröfu kæranda um að samningsgerð varnaraðila verði stöðvuð um stundarsakir samkvæmt 1. mgr. 96. gr. sömu laga.

Í grein 2.3 í útboðsgögnum kom fram að við mat á tilboðum yrði annars vegar horft til verðs, þar sem lægsta tilboð gæfi 80 stig, og hins vegar aðstöðu, þar sem fullnægjandi aðstaða gæfi 20 stig. Við mat á aðstöðu skyldi horfa til nálægðar þriggja birgðaskemma sem bjóðandi skyldi hafa yfir að ráða við þrjár nánar tilgreindar stofnbrautir, en væru birgðaskemmur þessar innan við 1 kílómeter frá viðkomandi stofnbraut fengist fullt hús stiga eða 10 stig. Þá var jafnframt horft til stærðar birgðaskemmanna þar sem gefin voru allt að 10 stig fyrir hver 200 tonn í stærð umfram lágmarksstærð birgðaskemmanna. Af grein 3.4 verður ráðið að birgðaskemmur bjóðenda skyldu rúma að lágmarki  1.500 - 2.000 m3 af salti. Þar kom jafnframt fram að húsnæði bjóðenda skyldi halda veðri og vindum og vera með góða lofræstingu, góða lýsingu og gott aðgengi fyrir tæki og hafa stórar og góðar aðkeyrsludyr fyrir saltdreifibíla. Gólf og aðkeyrsla skyldi vera malbikuð eða steypt. Öll meðhöndlun salts og pækils við áfyllingu skyldi vera innandyra. Þá kom fram að verkkaupi skyldi samþykkja húsnæðið áður en til undirritunar samnings kæmi.

Af framangreindu verður ráðið að útboðsgögn áskildu að bjóðendur hefðu yfir að ráða húsnæði til geymslu salts. Af málatilbúnaði kæranda verður ráðið að hann hugðist ekki bjóða upp á slíkt húsnæði, heldur geyma saltið utandyra, varið með sérstöku segli. Í samræmi við þetta upplýsti kærandi ekki um fyrirhugaða stærð húsnæðis á tilboðsblaði. Samkvæmt þessu fullnægði tilboð kæranda ekki þeim lágmarkskröfum sem útboðsgögn áskildu, en fyrir liggur að frávikstilboð voru óheimil. Kærandi hefur ekki, eins og mál þetta liggur fyrir nú, leitt verulegar líkur að því að þessar kröfur útboðsgagna séu ómálefnalegar, raski jafnræði bjóðenda eða brjóti með öðrum hætti gegn ákvæðum laga um opinber innkaup.

Að öllu framangreindu virtu er það álit nefndarinnar að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvarðana eða annarra athafna varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar vegna útboðs varnaraðila Ríkiskaupa og Vegagerðarinnar nr. 15853 auðkennt „Salt til hálkuvarna fyrir Vegagerðina“.

                                                                                    Reykjavík, 22. júní 2015

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn