Hoppa yfir valmynd
26. júní 2015 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra fundar með utanríkisráðherrum Ítalíu og Páfagarðs

Gunnar Bragi og Gentileoni

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra heimsótti í gær Ítalíu, þar sem hann átti fundi með Paolo Gentiloni utanríkisráðherra og kynnti sér starfsemi Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ, FAO og Alþjóðasjóðs um þróun landbúnaðar, IFAD. Ráðherra ræddi áherslur Íslands í þróunarsamvinnu, m.a. kynjajafnrétti og orkumál. Þá hitti ráðherra Paul Gallagher, utanríkisráðherra Páfagarðs.

Á fundi Gunnars Braga og Gentiloni skiptust þeir á skoðunum um það sem hæst ber í Evrópumálum, m.a. stöðu efnahagsmála, einkum í tengslum við Grikkland, flóttamannastraum á Miðjarðarhafi og áherslumál nýrrar framkvæmdastjórnar ESB. Gerði utanríkisráðherra starfsbróður sínum grein fyrir stefnu íslenskra stjórnvalda í Evrópumálum og ákvörðun þeirra  um að stöðva aðildarviðræður. Ísland væri ekki lengur umsóknarríki en náið samstarf við ESB í gegnum EES væri Íslendingum afar mikilvægt.

Ráðherrarnir ræddu ýmis alþjóðamál, m.a. norðurslóðamál en Ítalía er áheyrnarríki að Norðurskautsráðinu, og einnig aðgerðir í loftslagsmálum en í lok árs verður haldið 21. aðildarríkjaþing Loftslagssamnings SÞ í París þar sem stefnt er að því að ganga frá hnattrænu samkomulagi í loftslagsmálum eftir 2020. Gunnar Bragi sagði áherslur Íslands vera að hrein orka sé lykilatriði við lausn loftslagsvandans. Mæta þurfi aukinni orkuþörf í heiminum með uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa. „Við teljum okkur geta lagt okkar af mörkum í loftslagsmálum með því að miðla þekkingu og reynslu okkar í orkumálum, einkum jarðhita. Jarðhitaskóli SÞ er mikilvæg leið til þess,“ sagði Gunnar Bragi. 

Á fundinum með Paul Gallagher, sem fer með utanríkismál Páfagarðs, fagnaði Gunnar Bragi metnaðarfullum tillögum Páfagarðs í loftlagsmálum sem voru kynntar nýlega og greindi jafnframt frá áherslum Íslands. Þá lýsti ráðherra ánægju með áform um stofnun stjórnsýsludómstigs kaþólsku kirkjunnar. Sagðist hann vonast til þess að það greiddi fyrir því að réttlæti næði fram að ganga í málum þeirra Íslendinga sem hefðu leitað til Páfagarðs vegna kynferðisafbrota kirkjunnar manna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum