Hoppa yfir valmynd
30. júní 2015 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra ræðir endurnýjanlega orkugjafa og loftslagsmál á fundi SÞ

Gunnar Bragi á landgræðslufundi

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í gær þátt í sérstakri dagskrá um loftslagsmál á vegum Sameinuðu þjóðanna í New York og sat ráðherrafund í boði Ban Ki-moon um undirbúning  21. Aðildarríkjaþings Loftslagssamnings SÞ í lok árs París þar sem stefnt er að því að ganga frá hnattrænu samkomulagi í loftslagsmálum eftir 2020.

Gunnar Bragi vakti máls á þeirri ógn sem landeyðing af völdum loftslagsbreytinga er og nauðsyn landgræðslu til að vinna gegn henni. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að þróa sjálfbæra orkugjafa og nefndi í því sambandi jarðhita, sem finnst í mörgum fátækustu ríkjum heims. Ráðherra nefndi sérstaklega áform um formlega stofnun samstöðuhóps um jarðhitanýtingu á ríkjaráðstefnu Loftslagssamnings SÞ í París.  Fjölmörg ríki og stofnanir hafa lýst áhuga á þátttöku í honum, auk Íslands má nefna Bandaríkin, Frakkland og Alþjóðabankann.  Hópurinn mun beita sér fyrir því að jarðhiti verði hluti af markmiðum um að tvöfalda hlut endurnýjanlegra orkugjafa  í orkunýtingu heimsins fyrir árið 2030.

Gunnar Bragi átti fund með Monique Barbut, framkvæmdastjóra Eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna en hún sótti Ísland heim í júní 2014. Þau ræddu m.a. tillögu stofnun nýs landgræðslusjóðs og áætlanir til að draga athyglina að mikilvægi landgræðslu í samningaviðræðum um ný markmið SÞ um sjálfbæra þróun.

Ráðherra fundaði einnig með Adnan Amin, framkvæmdastjóra  IRENA, sem er alþjóðleg stofnun um endurnýjanlega orkugjafa en þeir ræddu m.a. mikilvægi nýtingar slíkra orkugjafa sem hluta að lausn á loftslagsvandanum, ræddu stofnun áðurnefnds samstöðuhóps um jarðhitanýtingu og gott samstarf Íslands og IRENA frá stofnun hennar 2011.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum