Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2015 Atvinnuvegaráðuneytið

Vernd erlendra afurðarheita á Íslandi - andmælafrestur til 31. ágúst

Vernd afurðarheita
Vernd afurðarheita
Ísland og Evrópusambandið eiga í viðræðum um gerð milliríkjasamnings um gagnkvæmnisvernd afurðarheita sem vísa til uppruna eða landssvæðis, í skilningi 1. mgr. 22. gr. TRIPS-samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og laga nr. 130/2014 um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. 

Í viðræðunum hefur Evrópusambandið óskað eftir að tiltekin heiti njóti verndar hér á landi frá gildistöku samningsins. Stjórnvöld leggja nú mat á hvort heitunum verði veitt vernd.Í 26. gr. áðurgreindra laga er kveðið á um að áður en fallist er á vernd erlendra heita samkvæmt milliríkjasamningi skuli Matvælastofnun auglýsa lista yfir þau afurðarheiti sem verndar munu njóta, ásamt upplýsingum um hvar nálgast megi afurðarlýsingu eða skjal sem jafna má til hennar. 

Matvælastofnun auglýsti þann 30. júní eftir andmælum gegn því að heiti þau sem listuð eru í ítarefni öðlist vernd á Íslandi. Andmælarétt hafa allir þeir sem hafa lögmætra hagsmuna að gæta. Andmælum skal fylgja rökstuðningur og skulu þau hafa borist Matvælastofnun fyrir 31. ágúst nk. Andmæli skulu vera skrifleg og berast Matvælastofnun, Austurvegi 64, 800 Selfossi eða á netfangið [email protected]

Andmæli verða einungis tekin til meðferðar hafi þau borist innan ofangreinds tímafrests og ef þau sýna fram á að:

  1. fyrirhuguð vernd heitis stangist á við heiti plöntuafbrigðis eða dýrakyns svo líklegt sé að það valdi hættu á ruglingi,
  2. fyrirhuguð vernd heitis stangist á við einsheiti og villi þannig um fyrir neytendum og fái þá til að álíta að afurðirnar komi frá öðru svæði. 
  3. fyrirhuguð vernd heitis villi um fyrir neytendum hvað varðar raunverulegan uppruna afurðar í ljósi orðspors vörumerkis og hversu þekkt það er ásamt þeim tíma sem vörumerki hefur verið í notkun hér á landi. 
  4. fyrirhuguð vernd heitis stofni innlendu heiti sem er að öllu leyti eða hluta samhljóða viðkomandi heiti í hættu, fyrirhuguð vernd heitis stofni samhljóða vörumerki í hættu eða stofni í hættu tilvist afurðar sem hefur verið löglega á markaði í að minnsta kosti fimm ár áður en auglýsing þessi er birt,
  5. fyrirhuguð vernd heitis stangist á við almennt heiti fyrir tiltekna afurð.

Nálgast má afurðarlýsingu að baki afurðarheitum eða skjal sem jafna má til hennar á vefsíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

Um tengsl við vörumerki og félagamerki er vísað til IV. kafla laganna. Ofangreind atriði verða metin út frá réttindum og aðstæðum á Íslandi. Vernd þessara heita á Íslandi er með fyrirvara um frágenginn gagnkvæmnisamning og fullgildingu hans.

Síðan þarf að fylgja með hlekkur á samningsdrögin sem eru í vinnslu, þ.e. drög að gagnkvæmnisamningi milli Íslands og ESB varðandi gagnkvæma vernd afurðarheita.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta