Ségolène Royal á Reykjanesi í boði iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Ségolène Royal, orku- og umhverfisráðherra Frakklands, áttu í dag hádegisverðarfund í Bláa lóninu. Þetta var í þriðja sinn sem ráðherrarnir hafa fundað, en þeir tveir fyrri áttu sér stað í París fyrr á þessu ári og í fyrra í tengslum við ráðstefnur Fransk-íslenska verslunarráðsins um nýsköpun, ferða- og orkumál.

Á fundi ráðherranna kom fram vilji þeirra beggja til að styðja við enn frekari samstarf íslenskra og franskra fyrirtækja á sviði jarðvarmanýtingar. Frönsk stjórnvöld hafa sýnt jarðhitanýtingu aukinn áhuga á síðustu misserum, einkum á sviði húshitunar. Ríkjaráðstefna Loftslagssamnings SÞ verður haldin í París í desember n.k. þar sem Ísland og Frakkland munu hafa frumkvæði um stofnun samstöðuhóps stuðningsríkja jarðhitans – Global Geothermal Alliance sem þar verður kynnt formlega.

Franska sendinefndin mun síðar heimsækja Reykjanesvirkjun og fyrirtækin Stolt Sea Farm sem framleiðir senegalflúru með affalli Reykjanesvirkjunar og Haustak sem nýtir gufu frá sömu virkjun til þurrkunar á ýmsum fiskafurðum.
Heimsókn Royal lýkur í kvöld með kvöldverði iðnaðar- og viðskiptaráðherra henni til heiðurs.

