Yfirlit yfir þingmál iðnaðar- og viðskiptaráðherra á síðasta þingi
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram 16 lagafrumvörp og eina þingsályktunartillögu á liðnu þingi. Alls samþykkti þingið 13 af þessum frumvörpum auk þingsályktunartillögunnar, en eitt þeirra lagafrumvarpa sem ekki náðu fram að ganga verður lagt aftur fram á næsta þingi og þá sem hluti af stærri heildarendurskoðun laga um gististaði. Þá reyndist ekki þörf á sérstakri lagastoð vegna fjárfestingarsamnings við Thorsil ehf. þar sem að heimildin rúmast innan nýsamþykktra laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi og samningurinn tekur því gildi án sérstakra laga.
Þingmenn lögðu fram 31 fyrirspurn til iðnaðar- og viðskiptaráðherra og var þeim öllum svarað.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra dreifði tveimur skýrslum í þinginu. Önnur var um mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku. Hin var um orkuskipti í samgöngum og var hún samin af Grænu Orkunni, samstarfsvettvangi um orkuskipti.