Yfirlit um þingmál sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á síðasta þingi
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram 14 lagafrumvörp og eina þingsályktunartillögu á liðnu þingi. Alls samþykkti þingið 11 af þessum frumvörpum auk þingsályktunartillögunnar.
Meðal helstu þingmála sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra má nefna lög nr. 130/2014 um vernd afurðaheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Með lögum nr. 48/2015 eru rýmkaðar heimildir til innflutnings á erfðaefni búfjár og mun það efalaust reynast nautgripabændum vel. Með lögum nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir eru aðgerðir ríkisins í byggðamálum samhæfðar. Með lögum um veiðigjöld nr. 73/2015 er veiðigjald ákveðið til þriggja ára á grundvelli sömu reikniaðferðar auk þess sem tiltekið er lágmarksveiðigjald á alla stofna. Með þessu er sjávarútvegsfyrirtækjum tryggður fyrirsjáanleiki til þriggja ára hvað varðar opinber gjöld. Með jarðarlögum nr. 29/2015 er stuðlað að skipulegri nýtingu lands í samræmi við landkosti, fjölþætt hlutverk landbúnaðar og hagsmuni sveitarfélaga og íbúa þeirra.
Þingmenn lögðu fram 55 fyrirspurnir til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og var þeim öllum svarað.