Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 2/2015

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 23. júní 2015 í máli nr. 2/2015.
Fasteign: Háaleitishlað [ ], fnr. [ ], Háaleitishlað [ ], fnr. [ ], Háaleitishlað [ ], fnr. [ ], Hólsvöllur [ ], fnr. [ ], Pétursvöllur 6, fnr. [ ] og Pétursvöllur [ ], fnr. [ ], Reykjanesbæ.
Kæruefni:  Gjaldflokkur fasteignar


Árið 2015, 23. júní, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 2/2015 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með erindi, dags. 18. febrúar 2015, kærði Glóey Finnsdóttir lögfræðingur fyrir hönd A, kt. [ ], álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2015 vegna Háaleitishlaðs [ ], fnr. [ ], Háaleitishlaðs [ ], fnr. [ ], Háaleitishlaðs [ ], fnr. [ ], Hólsvallar [ ], fnr. [ ], Pétursvallar [ ], fnr. [ ] og Pétursvallar [ ], fnr. [ ], Reykjanesbæ. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2015, var kæranda tilkynnt um móttöku kærunnar.

Með bréfi, dags. 17. mars 2015, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn frá Reykjanesbæ. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 28. apríl 2015. Hinn 8. maí 2015 var umrædd umsögn send kæranda og honum gefinn kostur á að gera við þær athugasemdir.  Með öðru erindi kæranda, dags. 16. apríl 2015, var álagning fasteignagjalda umræddra fasteigna kærð á ný. Sú kæra var sameinuð máli þessu og var kæranda og sveitarfélagi tilkynnt um slíkt, sbr. bréf yfirfasteignamatsnefndar frá 11. maí 2015. Engar frekari athugasemdir bárust.

Málið var tekið til úrskurðar 29. maí 2015.

Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að Háaleitishlað [ ], Háaleitishlað [ ], Háaleitishlað [ ], Hólsvöllur [ ], Pétursvöllur [ ] og Pétursvöllur [ ] verði undanþegnar álagningu fasteignagjalda samkvæmt c-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Kærandi byggir á því að framangreindar fasteignir tilheyri allar Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) og séu fyrir hönd þess í umráðum Landhelgisgæslu Íslands. Samkvæmt 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga skulu fasteignir alþjóðastofnana ásamt lóðarréttindum, eftir því sem kveðið sé á um í alþjóðasamningum sem Ísland sé aðili að og öðlast hafi stjórnskipulegt gildi hér á landi, vera undanþegin fasteignaskatti. Ísland sé aðili að NATO á grundvelli stofnsáttmála bandalagsins frá 1949.

Þá sé í lögum nr. 176/2006 um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli fjallað um opinber gjöld. Í 5. gr. þeirra laga segi að fasteignir ríkisins og mannvirki sem Bandaríkin eða Atlantshafsbandalagið hafi skilað til eignar, á svæðum sem tilgreind eru í 2. gr. og 1. mgr. 4. gr., séu undanþegin öllum opinberum gjöldum og skyldutryggingu fasteigna. Sú undanþága falli niður er þeim hefur verið ráðstafað með leigu eða sölu enda sé ekki sérstaklega mælt fyrir um undanþágu frá slíkum gjöldum í öðrum lögum. Undanþágan gildi einnig þótt gefin sé út auglýsing um svæðin samkvæmt 2. mgr. 1. gr.

Framangreind lög geri ráð fyrir því að svo lengi sem fasteignum og mannvirkjum, sem íslenska ríkið hafi tekið yfir í kjölfar brotthvarfs herafla Bandaríkjanna frá varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, hafi ekki verið komið í borgarleg not skuli þau undanskilin öllum opinberum gjöldum, þar með talin fasteignagjöldum til sveitarfélaga.

Fyrir liggi að framangreindum fasteignum hafi ekki verið ráðstafað til borgarlegra nota heldur séu þær í fullum umráðum Landhelgisgæslu Íslands fyrir hönd NATO og í hernaðarlegum notum.

Að mati kæranda sé því ljóst að framangreindar fasteignir skuli undanþegnar álagningu fasteignagjalda.

Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í umsögn Reykjanesbæjar, dags. 28. apríl 2015, er mótmælt að fasteignirnar Háaleitishlað [ ], Háaleitishlað [ ], Háaleitishlað [ ], Hólsvöllur [ ], Pétursvellir [ ] og Pétursvellir [ ], allar í Reykjanesbæ, séu undanþegnar álagningu fasteignagjalda. Jafnframt sé gerð sú krafa að fasteignamat Þjóðskrár Íslands verði staðfest vegna umræddra fasteigna.

Reykjanesbær rekur að sveitarfélagið hafi höfðað mál gegn A og íslenska ríkinu, vegna Þjóðskrár Íslands, til að ógilda úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 19/2012 og að viðurkennd yrði sú skylda Þjóðskrár Íslands til að framkvæma fasteignamat á áðurgreindum fasteignum. Sveitarfélagið rekur þau sjónarmið sem koma fram í dómnum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2520/2013 sem kveðinn var upp 10. júní 2014 hafi verið fallist á sjónarmið sveitarfélagsins.

Þá bendir Reykjanesbær á að umþrættar fasteignir séu þinglýstar sem eignir kæranda og geti aldrei talist vera „mannvirki í afnotum eða forráðum varnarliðs Bandaríkja Norður-Ameríku“. Kærandi hafi fullan og ótakmarkaðan ráðstöfunarrétt sem eigandi á öllum eignum þeim sem óskað hafi verið eftir fasteignamati samkvæmt framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, enda þinglýstur eigandi fasteignanna.

Þá mótmælir sveitarfélagið athugasemdum kæranda og sérstaklega hvað varði túlkun á 5. gr. laga nr. 176/2006 um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Sú túlkun kæranda að umþrættar fasteignir séu áfram eignir Atlantshafsbandalagsins geti ekki staðist samkvæmt niðurstöðu áðurnefnds dóms sem og til 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Í tilvitnuðu ákvæði segi að þinglýstur eigandi sé sá sem að þinglýsingabók nefni eiganda hverju sinni. Þá vísar Reykjanesbær jafnframt til 22. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna sem kveði á um að þar sé skráður eigandi fasteignar sá sem á þinglýsta eignarheimild hverju sinni. Ljóst sé að
A sé þinglýstur eigandi fasteignanna.

Kærandi sé því ekki undanþeginn fasteignamati samkvæmt 9. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1978 um fasteignaskráningu og fasteignamati. 

Niðurstaða

Kærandi óskar sem fyrr greinir eftir því að fasteignirnar Háaleitishlað [ ], Háaleitishlað [ ], Háaleitishlað [ ], Hólsvöllur [ ], Pétursvöllur [ ] og Pétursvöllur [ ], Reykjanesbæ, verði undanþegnar fasteignagjöldum fyrir árið 2015 með vísan til þeirra sjónarmiða sem fram koma í kæru hans til yfirfasteignamatsnefndar og rakin eru hér að framan. Reykjanesbær mótmælir því að umræddar fasteignir séu undanþegnar álagningu fasteignagjalda.

Þann 21. nóvember 2012 kvað yfirfasteignamatsnefnd upp úrskurð í máli nr. 19/2012 þar sem staðfest var ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að hafna því að framkvæma fasteignamat meðal annars á umræddum fasteignum. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi þann úrskurð hinn 10. júní 2014 í máli nr. E-2520/2013 og komst að þeirri niðurstöðu að Þjóðskrá Íslands skyldi framkvæma fasteignamat á þeim fasteignum sem um ræddi. Þeim dómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

Í forsendum héraðsdóms er fjallað um þann málatilbúnað kæranda að umræddar eignir séu í eigu Atlantshafsbandalagsins og því undanþegnar fasteignaskatti samkvæmt c-lið 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Þar segir:

Eignir þessar voru teknar eignarnámi af íslenska ríkinu á sínum tíma og afhentar Bandaríkjamönnum í samræmi við ákvæði varnarsamningsins. Ekki þarf að fjalla um hvers eðlis sú afhending hafi verið, en eignunum var skilað með skilasamningnum 2006. Eignirnar eru enn hluti af varnarviðbúnaði landsins í samræmi við varnarsamninginn. Þá hefur utanríkisráðuneytið skráð eignir þessar á svonefnda Mannvirkjaskrá Atlantshafsbandalagsins. Engar heimildir eru í gögnum málsins um framsal eignarréttinda í hefðbundnum skilningi yfir þessum eignum til Atlantshafsbandalagsins. Þótt í lögum sé vikið að þessum mannvirkjum sem eignum bandalagsins, felst ekki í því eignaryfirfærsla að einkarétti. Hins vegar er skylt að láta umráð þessara eigna í té þegar ákveðin skilyrði koma fram. Hefur ekki verið sýnt fram á annað en að hér sé um að ræða eignir íslenska ríkisins sem séu hluti af varnarviðbúnaði sem er Atlantshafsbandalaginu til reiðu á ófriðartímum. Eru því sérstakar takmarkanir á heimildum stefnda Isavia yfir þessum eignum. Þessar takmarkanir eru hins vegar ekki svo viðtækar að réttindi […] séu í verulegu frábrugðin þeim réttindum sem almennt felast í leigu eða afnotasamningum.

Að þessu virtu féllst Héraðsdómur Reykjavíkur ekki á það með kæranda að umræddar eignir væru undanþegnar fasteignagjöldum. Væri því ekki heimild að lögum til að veita slíka undanþágu í úrskurðum Þjóðskrár Íslands og yfirfasteignamatsnefndar. Þá segir síðar í dómnum að þar sem öllum andmælum kæranda við því að eignirnar verði metnar fasteignamati hafi verið hafnað verði að fallast á kröfu sveitarfélagsins um viðurkenningu á skyldu Þjóðskrár Íslands til að meta þær. 

Að framangreindu virtu er ljóst að úr ágreiningsefni máls þessa hefur þegar verið leyst af dómstólum og er sú niðurstaða endanleg. Stjórnvöld geta ekki endurskoðað úrlausn eða ákvörðun dómara, sbr. 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Yfirfasteignamatsnefnd er bundin af niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2520/2013 og hefur ekki vald til að hrófla við henni. Er því ákvörðun Reykjanesbæjar um álagningu fasteignagjalda vegna Háaleitishlaðs [ ], fnr. [ ], Háaleitishlaðs [ ], fnr. [ ], Háaleitishlaðs [ ], fnr. [ ], Hólsvallar [ ], fnr. [ ], Pétursvallar [ ], fnr. [ ] og Pétursvallar [ ], fnr. [ ], Reykjanesbæ, staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Reykjanesbæjar um álagningu fasteignagjalda árið 2015 vegna Háaleitishlaðs [ ], fnr. [ ], Háaleitishlaðs [ ], fnr. [ ], Háaleitishlaðs [ ], fnr. [ ], Hólsvallar [ ], fnr. [ ], Pétursvallar [ ], fnr. [ ] og Pétursvallar [ ], fnr. [ ], Reykjanesbæ, er staðfest.

 

__________________________________

Inga Hersteinsdóttir

   ______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Hulda Árnadóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn