Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 14/2015.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. ágúst 2015

í máli nr. 14/2015:

Brainlab Sales GmbH

gegn

Landspítala

Ríkiskaupum

og Inter Medica ehf.

Með kæru 23. júlí 2015 kærir Brainlab Sales GmbH ákvörðun Landspítala um kaup á „O-röntgenarm“, framleiddum af Medtronic, með samningskaupum án undangenginnar útboðsauglýsingar. Upphafleg kæra uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup um efni kæru og beindi nefndin því til kæranda að bæta úr annmörkum innan hæfilegs frests, sbr. 3. mgr. 94. gr. laganna. Fullnægjandi kæra barst nefndinni 28. sama mánaðar þar sem þess er krafist að ákvörðun um innkaupin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir varnaraðila að bjóða út innkaupin. Þá er þess krafist að varnaraðilum verði gert að greiða málskostnað. Af hálfu varnaraðila er þess krafist að sjálfkrafa banni við samningsgerð verði aflétt og öllum kröfum kæranda verði hafnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Af gögnum málsins verður ráðið að hinn 14. júli 2015 hafi varnaraðilar birt tilkynningu á útboðsvef Evrópusambandsins þar sem kynnt var ætlun um að semja án undanfarandi útboðsauglýsingar við Inter Medica ehf. um kaup á svokölluðum „O-röntgenarmi“ sem framleiddur er af fyrirtækinu Medtronic. Í tilkynningunni var vísað til þess að kaupandi teldi sig hafa heimild til samningskaupa án undangenginnar útboðsauglýsingar þar sem aðeins einn bjóðandi kæmi til greina af tæknilegum ástæðum. Kærandi telur að ekki séu uppfyllt skilyrði laga um opinber innkaup fyrir því að varnaraðili geti gengið til samninga við Inter Medica ehf. án undanfarandi útboðsauglýsingar, enda séu til staðar aðrar lausnir sem geti uppfyllt þarfir varnaraðila með sambærilegum eða betri hætti.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort uppfyllt séu skilyrði b-liðar 1. mgr. 33. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup til kaupa á tilteknum röntgenarmi, sem framleiddur er af fyrirtækinu Medtronic, án undangenginnar útboðsauglýsingar. Samkvæmt ákvæðinu eru samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar heimil þegar aðeins eitt fyrirtæki kemur til greina af tæknilegum eða listrænum ástæðum eða sökum þess að um lögverndaðan einkarétt er að ræða. Varnaraðilar hafa borið því við að einungis eitt fyrirtæki komi til greina af tæknilegum ástæðum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun varnaraðili Landspítali hafa notast við staðsetningarbúnað frá Medtronic við heila- og taugaaðgerðir, sem og bæklunaraðgerðir, þar sem þörf er á ítrustu nákvæmni, frá árinu 2006 og var búnaðurinn uppfærður árið 2012. Varnaraðili telur núverandi röntgenbúnað ófullnægjandi og hefur síðastliðin tvö ár leitað lausna til að bæta nákvæmni í aðgerðum. Að sögn varnaraðila hefur sú könnun leitt í ljós að eina lausnin sem stendur til boða sé umræddur röntgenarmur frá Medtronic. Hefur því til stuðnings meðal annars verið vísað til þess að sá staðsetningarbúnaður, sem vinnur með arminum og  varnaraðili notast við, vinni ekki með öðrum tækjum en þeim sem framleidd eru af fyrirtækinu. Fyrir liggur yfirlýsing frá Medtronic þar sem staðfest er að staðsetningarbúnaður fyrirtækisins sé einungis samhæfður röntgenarmi sama fyrirtækis og hefur því ekki verið mótmælt af kæranda.

Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi er það mat kærunefndar að varnaraðili hafi kannað með fullnægjandi hætti hvort fáanleg eru önnur tæki en sá O-röntgenarmur sem framleiddur er af Medtronic og geta fullnægt þörfum hans. Þá telur nefndin fyrirliggjandi gögn bera með sér að umrætt tæki sé það eina sem af tæknilegum ástæðum fullnægi þörfum varnaraðila, sbr. b-lið 1. mgr. 33. gr. laga um opinber innkaup. Samkvæmt þessu hafa að svo stöddu ekki verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geta til ógildingar ákvarðana eða annarra athafna varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar varnaraðila Landspítala og Inter Medica ehf. um kaup á O-röntgenarmi framleiddum af Medtronic.

                                                                                             Reykjavík, 13. ágúst 2015.

                                                                                             Skúli Magnússon

                                                                                             Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                             Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn