Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Jáeindaskanni: Rannsóknir gætu orðið allt að 2.000 á ári

Landspítali
Landspítali

Sjúklingum sem sendir eru frá Íslandi til rannsókna í jáeindaskanna Rigshospitalet í Kaupmannahöfn samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands fjölgar ár frá ári. Notagildi jáeindaskanna og þar með þörfin fyrir slíkt tæki eykst hratt í heilbrigðisþjónustunni. Heilbrigðisráðherra kynnti í ríkisstjórn í dag ýmsar staðreyndir tengdar kaupum og uppsetningu jáeindaskanna á Landspítala.

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar afhenti heilbrigðisráðherra þann 12. ágúst síðastliðinn yfirlýsingu um að fyrirtækið skuldbindi sig til að færa þjóðinni að gjöf allt að 5,5 milljónir Bandaríkjadala til þess að fjármagna kaup og uppsetningu jáeindaskanna.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnti málið á fundi ríkisstjórnar í dag. Þar kom fram að lengi hafi verið horft til þess að jáeindaskanni verði hluti af nýjum Landspítala og tækjakosti í nýju húsnæði. Á síðustu misserum hafi hins vegar komið í ljós að þörf fyrir tæki af þessu tagi er brýn og vaxandi, einkum á sviði krabbameinslækninga, jafnframt því sem ný tækni og markaðslegar forsendur hafi gert það að verkum að uppsetning og rekstur jáeindaskanna er ekki eins kostnaðarsamur en áður.

Í minnisblaði heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnarinnar kemur fram að árið 2012 voru 29 sjúklingar héðan til rannsókna í jáeindaskannanum við Rikshospitalet í Kaupmannahöfn, árið 2014 voru þeir 87 og nú er áætlað að á þessu ári verði þeir á bilinu 140–160. Heildarkostnaður við hverja rannsókn að meðtöldum kostnaði vegna ferða og uppihalds nemur 400–500 þúsund krónum. Ef áætlanir danskra heilbrigðisyfirvalda um þörf fyrir rannsóknir með jáeindaskanna þar í landi eru heimfærðar á Ísland má áætla að þörfin hér sé allt að 2.000 rannsóknir á ári. Talið er að ávinningurinn af notkun jáeindaskanna sé það mikill, meðal annars vegna betri meðferðar og færri legudaga, að beinn sparnaður sé meiri en nemur heildarkostnaði við notkun hans.

Undirbúningur að uppsetningu jáeindaskanna við Landspítala er hafinn og leggur heilbrigðisráðherra áherslu á að koma honum í notkun eins fljótt og mögulegt er. Uppsetning skannans kallar á töluverðar framkvæmdir þar sem hann þarf um 250 fermetra húsnæði sem uppfyllir strangar kröfur um geislavarnir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum