Velferðarráðuneytið

Móttaka flóttafólks: Ráðherra fagnar frumkvæði Akureyringa

Frá Akureyri - Mynd: Akureyrarbær
Frá Akureyri - Mynd: Akureyrarbær

Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa lýst vilja til þess að taka á móti flóttafólki á þessu ári og því næsta og greiða þannig fyrir því að skapa því ný og góð lífsskilyrði. Bærinn hefur óskað eftir viðræðum við velferðarráðuneytið um málið. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fagnar frumkvæði Akureyringa og telur sveitarfélagið þegar hafa sýnt að það sé vel í stakk búið til að sinna slíku verkefni með sóma.

Íslensk stjórnvöld lýstu fyrir skömmu yfir vilja sínum við sendiráðið í Brussel um að taka á móti 50 flóttamönnum samtals á þessu og næsta ári. Ísland yrði þannig þátttakandi í samvinnu Evrópuþjóða um móttöku kvótaflóttafólks. Yfirlýsingin var birt með fyrirvara um samþykki Alþingis fyrir fjármögnun verkefnisins. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði í tengslum við yfirlýsinguna að Íslendingum væri bæði rétt og skylt að leggja lóð á vogarskálarnar, vandi þessa fólks kæmi öllum við og þjóðir sem gætu yrðu að axla ábyrgð og gera sitt til að létta á vandanum.

Í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar segir að bærinn taki undir þessi orð félags- og húsnæðismálaráðherra. Í tilkynningunni segir enn fremur:

„Fullur vilji er hjá Akureyrarbæ að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og greiða fyrir því að flóttamönnum verði sköpuð ný tækifæri og góð lífsskilyrði. Akureyrarbær hefur nú þegar sett sig í samband við velferðarráðuneytið og óskað eftir viðræðum um að sveitarfélagið geti við fyrsta tækifæri tekið á móti flóttafólki.

Árið 2003 tók Akureyrarbær á móti 24 flóttamönnum frá fyrrum Júgóslavíu og gekk sú vinna ákaflega vel. Öll stuðningsþjónusta var til fyrirmyndar og bæjarbúar tóku vel á móti þessum nýju íbúum. Allar fjölskyldurnar sem þá komu búa enn á Akureyri.

Nýleg rannsókn sem unnin var á vegum Háskólans á Akureyri sýnir að innflytjendum á Akureyri líður mjög vel, þeir upplifa bæinn öruggan og þægilegan, finnst umhverfið fallegt og telja að öll þjónusta sé til staðar. Stuðningur við innflytjendur er góður og rekur Akureyrarbær meðal annars sérstaka upplýsinga- og ráðgjafarþjónustu fyrir íbúa af erlendum uppruna.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn