Velferðarráðuneytið

Staðan á vinnumarkaði kynnt í ríkisstjórn

Fólk á torgi
Fólk á torgi

Alls voru um 4.680 skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í júlí síðastliðnum og svarar það til 2,6% atvinnuleysis. Atvinnuleysi mældist 3,2% meðal kvenna en 2,0% hjá körlum. Atvinnuástand mældist svipað í júní síðastliðnum og áætlað er að skráð atvinnuleysi í ágúst verði á bilinu 2,6–2,8%. Félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti stöðuna á innlendum vinnumarkaði fyrir ríkisstjórn í dag.

Þess má geta að Hagstofa Íslands fylgist reglubundið með stöðunni á vinnumarkaði. Aðferðafræðin er önnur en hjá Vinnumálastofnun þar sem Hagstofan leggur spurningakönnun fyrir úrtak sem valið er af handahófi úr þjóðskrá. Samkvæmt síðustu könnun Hagstofunnar sem gerð var í júní mældist atvinnuleysi 2,9%.

Skráð atvinnuleysi eftir landshlutum

Skráð atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu var 2,9% í júlí 2015 og stóð því í stað milli mánaða. Skráð atvinnuleysi á landsbyggðinni í heild var 2,0% í júlí 2015 og hafði því dregist saman um 0,1% miðað við júní 2015 sem svarar til þess að atvinnuleitendum á landsbyggðinni hafi fækkað hlutfallslega um 57 á milli þessara mánaða. Skráð atvinnuleysi á Suðurnesjum lækkaði um 0,1% milli sömu mánaða og var 3,0% í júlí 2015 sem svarar til þess að 358 atvinnuleitendur hafi að meðaltali verið skráðir þar án atvinnu á þeim tíma. Skráð atvinnuleysi lækkaði í öllum landshlutum í júlí 2015 en stóð í stað á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi.

Atvinnuleitendur skemmri tíma án atvinnu en áður

Eitt af skilyrðum laga fyrir greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði er að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit og sé þar með reiðubúinn að taka starfi sem honum býðst. Ein af megináherslum Vinnumálastofnunar í störfum sínum með atvinnuleitendum er að aðstoða þá við að fá sem fyrst störf að nýju á vinnumarkaði en samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hefur almennt styst sá tími sem einstaklingar eru skráðir án atvinnu hjá stofnuninni hverju sinni.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn