Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 56/2015 Úrskurður 28. ágúst 2015

 

Mál nr. 56/2015                     Eiginnafn:      Bjarkarr

 


Hinn 28. ágúst 2015 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 56/2015 en erindið barst nefndinni 29. júlí:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef það brýtur í bág við önnur ákvæði 5. gr. laganna, þ.e. 2. málslið 1. mgr., 2. mgr. og 3. mgr. 5. gr.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 19. janúar 2015 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.       Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.      Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.       Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.      Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 eða 1920;

e.       Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1920.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

 

Eiginnafnið Bjarkar (kk.) er á mannanafnaskrá. Það er hins vegar mjög ungt og kemur ekki fyrir í heimildum fyrr en á 20. öld. Rithátturinn Bjarkarr er eftirlíking á fornum rithætti nafna með sömu endingu en þá var gerður sá greinarmunur að nefnifall endaði á -rr en þolfallið og önnur föll í orðum af þessu tagi höfðu aðeins eitt r. Þessi aðgreining er löngu horfin úr íslensku máli og telst ekki lengur í samræmi við reglur tungumálsins að gera þennan greinarmun, hvorki í tali né riti.

Mannanafnanefnd hefur í þremur úrskurðum samþykkt karlmannsnöfn með hinum forna rithætti -rr í nefnifalli þótt rithátturinn hafi ekki áunnið sér hefð samkvæmt ofangreindum vinnulagsreglum og nöfnunum hafi áður verið hafnað af nefndinni. Þetta eru nöfnin Hnikarr í máli 101/2006, Sævarr í máli 40/2006 og Ísarr í máli 2/2007. Í þessum málum taldi nefndin að þrátt fyrir að viðkomandi nöfn uppfylltu ekki skilyrði 5. greinar laga nr. 45/1996 um mannanöfn væri rétt að taka málin til endurskoðunar á grundvelli tveggja atriða: annars vegar að öll nöfnin koma fyrir í fornu máli og hins vegar að öll nöfnin eru borin, eða hafa verið borin af nokkrum Íslendingum í fjölskyldu umsækjanda og skráð með endingunni -arr í þjóðskrá.

Mannanafnanafnanefnd getur ekki fallist á að hið sama gildi um nafnið Bjarkarr. Nafnið kemur ekki fyrir í fornum heimildum og saga þess í málinu er mjög stutt. Eftir að nafnið var tekið upp á 20. öld hefur enginn Íslendingur verið skráður með ritháttinn Bjarkarr samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá, og því hefur engin hefð skapast um þann rithátt, sbr. áðurnefndar vinnulagsreglur nefndarinnar. Nafnið Bjarkarr uppfyllir því ekki það skilyrði sem tilgreint er í 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því verður að synja beiðni þessari.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Bjarkarr (kk.) er hafnað.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn