Hoppa yfir valmynd
4. september 2015 Atvinnuvegaráðuneytið

Óskað umsagna um brottfall reglugerðar um vistvæna landbúnaðarframleiðslu

Vistvæn landbúnaðarafurð
Vistvæn landbúnaðarafurð

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggur til að reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu verði felld úr gildi. Tillagan er m.a. byggð á því að ekki hefur verið reglubundið eftirlit með þeim aðilum sem hafa fengið vistvæna vottun. Frá gildistöku reglugerðarinnar hafa verið sett margvísleg lög og reglur sem gera ítarlegri kröfur til framleiðslu landbúnaðarafurða, en reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu gerir, enda komin til ára sinna. 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði starfshóp 29. september 2014 til að fara yfir reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, með síðari breytingum og meta nauðsyn reglugerðar um vistvæna landbúnaðarframleiðslu. Niðurstöður starfshópsins voru eftirfarandi:

  1. Reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu verði felld úr gildi.
  2. Hugað verði að setningu rammareglugerðar sem skilgreini hvaða kröfur vistvæn vottunarkerfi þurfi að uppfylla til að mega nota hugtakið "vistvæn framleiðsla."
  3. Stjórnvöld vinni með einstökum framleiðendahópum að útfærslum á vistvænni vottun, sé þess sérstaklega óskað.

Einstakir framleiðendahópar hafa ekki óskað eftir aðkomu stjórnvalda að útfærslu á vistvænni vottun, en komi fram ósk um slíka aðkomu, munu stjórnvöld skoða það sérstaklega. Ekki er talin ástæða til að hafa rammareglugerð um kröfur fyrir vistvæn vottunarkerfi, þar sem frá gildistöku reglugerðar nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, hafa verið sett margvísleg lög og reglur sem snúa m.a. að lífrænum landbúnaði, merkingum matvæla, aðbúnaði dýra og reglur um önnur gæðakerfi eins og gæðastýringu, skráargatið og skráningu afurðarheita. Lagt er því til að fella brott reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, með síðari breytingum

Ráðuneytið óskar eftir umsögnum um meðfylgjandi drög um brottfall reglugerðarinnar og þess er óskað að umsögn berist atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík eigi síðar en 28. september 2015.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta