Hoppa yfir valmynd
8. september 2015 Forsætisráðuneytið

Velferð byggð á efnahagslegum styrk

Forsætisráðherra flytur stefnuræðu við upphaf 145. löggjafarþings
Forsætisráðherra flytur stefnuræðu við upphaf 145. löggjafarþings
  • Ríkisstjórnin kynnir velferðarfjárlög. 
  • 26 milljarðar, jafngildi hálfs Landspítala, hafa bæst við útgjöld til velferðarmála á kjörtímabilinu.
  • Ísland hefur vaxið efnahagslega einna hraðast Evrópuþjóða frá 2013. Kaupmáttur launa hefur vaxið um 10% á kjörtímabilinu.
  • Ráðist verður í átak með byggingu allt að 2300 félagslegra leiguíbúða og nýtt húsnæðisbótakerfi kynnt til sögunnar.
  • Lífeyrir eldri borgara og öryrkja verður hækkaður meira á næsta ári en nokkru sinni áður.
  • Framlög til vísinda, rannsóknar- og þróunarstarfs verða áfram stóraukin og rekstur helstu menningarstofnana efldur. 
  • Íslendingum ber skylda til að koma þeim sem í neyð eru staddir til hjálpar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti í kvöld stefnuræðu sína við upphaf 145. löggjafarþings. Í ræðunni kom fram að efnahagsleg staða Íslands hefur styrkst mikið að undanförnu og einkennist nú af stöðugleika með lágri verðbólgu, litlu atvinnuleysi, auknum kaupmætti, lækkun skulda og hallalausum ríkisrekstri. 

„Fá dæmi eru um að lönd hafi náð sér jafnhratt á strik efnahagslega og Ísland á síðustu tveimur árum. Það hefur gerst á sama tíma og nágrannaþjóðirnar, í viðskiptalöndum okkar, glíma áfram við miklar efnahagsþrengingar sem ekki sér fyrir endann á. Efnahagslega hefur Ísland vaxið einna hraðast Evrópuþjóða frá 2013. Kaupmáttur launa hefur vaxið um 10% frá því að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við. Þetta er einstakur árangur í alþjóðlegum samanburði“ sagði forsætisráðherra.  

Forsætisráðherra benti á að jafnvel þótt íslenska ríkið væri rekið með afgangi myndi ríkisstjórnin auka framlög til allra mikilvægustu málaflokkanna. „Í stað þess að ýta vandanum á undan okkur og leggja auknar byrðar á framtíðarkynslóðir erum við að búa í haginn fyrir framtíðina og gera okkur kleift að nýta meira fjármagn í það sem mestu máli skiptir, velferðarkerfið og sterka innviði,“ sagði forsætisráðherra. „Sem dæmi má nefna að hrein aukning framlaga til heilbrigðis- og félagsmála á kjörtímabilinu nemur 26 milljörðum króna og er þá bæði búið að undanskilja launa- og verðlagshækkanir. Þetta samsvarar því að hálfur Landspítali hafi bæst við velferðarútgjöldin á kjörtímabilinu. Allar líkur eru á því að svigrúm verði til að gera enn betur á næstu árum.“  

Forsætisráðherra benti á að stærstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi allar miðað að því að rétta stöðu heimilanna og bæta kjörin í landinu. „Fjárlagafrumvarpið er mikilvægur liður í framhaldi þeirrar vinnu. Með því er ráðist í verulegar breytingar á skattlagningu og gjaldtöku ríkisins með það að markmiði að styrkja heimilisbókhald fólks með millitekjur og lægri tekjur.“ 

Þá rifjaði forsætisráðherra upp að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál í tengslum við  kjarasamninga í lok maí síðastliðinn kemur fram að ráðist verði í átak með byggingu allt að 2300 félagslegra leiguíbúða á árunum 2016-2019. „Með nýju íbúðunum verður einkum komið til móts við fólk í lægstu tveimur tekjufimmtungum. Þannig verður tekjulágum fjölskyldum veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Einnig er unnið að nýju húsnæðisbótakerfi sem felur í sér verulega aukinn stuðning við leigjendur.“

Að lokum benti forsætisráðherra á að Íslendingar hefðu skyldu og tækifæri til að veita mikilvæga aðstoð þeim sem byggju við neyð vegna átaka í heiminum. 

„Við höfum að undanförnu fylgst náið með fréttum af atburðum sem minna okkur á hve þakklát við getum verið fyrir það líf sem okkar góða land og friðsama samfélag hefur búið okkur, svo langt frá heimsins vígaslóð. Þessar  aðstæður setja á herðar okkar skyldu til að koma þeim sem í neyð eru staddir til hjálpar á þann hátt sem við best getum,“ sagði forsætisráðherra. 

„Íslensk stjórnvöld telja feykilega mikilvægt að við og aðrar þjóðir bregðumst eins vel við þessum vanda og kostur er. Úrlausnarefnið er gríðarlega umfangsmikið. Við munum þurfa að auka framlög til málaflokksins umtalsvert og aðlaga undirbúningsvinnu þróuninni að undanförnu. Við erum eflaust öll sammála um að við eigum að leggja áherslu á að nýta möguleika okkar til að framkvæma sem best skyldu okkar og vilja til að aðstoða fólk í neyð eftir bestu getu.“

Sjá stefnuræðu forsætisráðherra í heild sinni hér á vefnum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum