Hoppa yfir valmynd
9. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fjárlagafrumvarpið: Hækkun bóta um 11 milljarða króna

Bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækka um 9,4% samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Samtals leiðir þetta til 9,6 milljarða króna útgjaldaauka. Þegar einnig hefur verið tekið tillit til fjölgunar lífeyrisþega og annarra breytinga nemur hækkunin samtals 11 milljörðum króna.

Samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar skulu fjárhæðir breytast árlega í samræmi við fjárlög og taka mið af þróun launa og verðlags. Tekið hefur verið tillit til launaþróunar þessa árs og þess næsta. Að teknu tilliti til 3% hækkunar í upphafi ársins 2015 nemur hækkun bótanna árin 2014 og 2015 samtals 12,7%. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu kemur fram að ef einnig er litið til 3,5% hækkunar í ársbyrjun 2014 nemi uppsöfnuð hækkun til ársins 2016 16,6%. Því er spáð að uppsöfnuð verðbólga yfir sama tímabil verði 8,7% og samkvæmt því er ljóst að kaupmáttur bótanna eykst umtalsvert.

Áætlað er að hækkun atvinnuleysisbóta um 9,4% auki útgjöld um 1,1 milljarð króna. Heildarútgjöld til atvinnuleysistrygginga hafa lækkað ört á síðustu misserum árum eftir því sem atvinnuástandið hefur batnað.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir mikilvægt að skoða í samhengi þær áherslur sem birtast í fjárlagafrumvarpinu og varða stóraukinn húsnæðisstuðning við leigjendur, fyrirhugaða fjölgun félagslegra leiguíbúða og verulega hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta: „Þessar áherslur munu koma verulega til móts við þau heimili sem hvað verst standa fjárhagslega og er jafnframt mikilvægur liður í því að jafna stöðu fólks á húsnæðismarkaði, hvort sem það leigir eða býr í eigin íbúð“ segir ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum