Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 11/2015

Hinn 31. ágúst 2015 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 11/2015:

 

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 356/2014

Ákæruvaldið

gegn

Hannibal Sigurvinssyni


og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 29. júlí 2015 fór Bjarni Hauksson hrl. þess á leit fyrir hönd Hannibals Sigurvinssonar að mál nr. 356/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 30. apríl 2015, verði endurupptekið.

Að beiðni endurupptökubeiðanda var Bjarni Hauksson hrl. skipaður talsmaður hans, sbr. 1. mgr. 213. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp 11. apríl 2014, var endurupptökubeiðandi dæmdur til að sæta fangelsi í 12 mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað og skyldi hún falla niður að tveimur árum liðnum héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá viðurkenndi dómurinn bótaskyldu endurupptökubeiðanda vegna líkamstjóns brotaþola.

Ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu í málinu 12. maí 2014 í samræmi við yfirlýsingu sem sett var fram í nafni endurupptökubeiðanda um áfrýjun.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 356/2014, sem kveðinn var upp 30. apríl 2015, var endurupptökubeiðandi dæmdur til að sæta fangelsi í 18 mánuði óskilorðsbundið en dómur héraðsdóms var að öðru leyti óraskaður.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á að verulegir gallar hafi verið á meðferð hæstaréttarmáls nr. 356/2014 þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í endurupptökubeiðni kemur fram að eftir að dómur lá fyrir í héraði 11. apríl 2014 hafi endurupptökubeiðandi verið í sambandi við skipaðan verjanda sinn í héraði, Stefán Karl Kristjánsson hdl., varðandi mögulega áfrýjun héraðsdómsins. Endurupptökubeiðandi hafi verið við störf í Noregi á þeim tíma, sem hafi sett honum ákveðnar skorður í samskiptum við verjandann. Hann hafi haft hug á því að áfrýja dómnum, en talið nauðsynlegt að fara yfir stöðuna áður en endanleg ákvörðun um það yrði tekin. Þá hafi legið fyrir að hann yrði að fá annan verjanda í Hæstarétti.

Í málsgögnum hæstaréttarmálsins sé að finna ódagsetta yfirlýsingu um áfrýjun, sem var móttekin af ríkissaksóknara 8. maí 2014. Endurupptökubeiðandi hafi ekki ritað undir hana. Í skjalinu geti að líta athugasemd frá Stefáni Karli Kristjánssyni hdl. um að yfirlýsingin sé send Hæstarétti „að beiðni Hannibals á grundvelli heimildar undirritaðs“ og að „frumrit“ verði sent ríkissaksóknara um leið og það berist skrifstofu „okkar“.

Endurupptökubeiðandi hafi sent skipuðum verjanda sínum tölvubréf 5. maí 2014 með fyrirspurn vegna fyrirhugaðrar áfrýjunar. Með tölvubréfi 7. maí 2014 til verjandans hafi endurupptökubeiðandi óskað eftir að fá send gögn til að áfrýja og haft áhyggjur af áfrýjunarfresti. Verjandinn hafi gefið þau svör sama dag að þar sem ekki væri búið að birta endurupptökubeiðanda dóm héraðsdóms gæti hann verið rólegur. Verjandinn hafi tekið fram að áfrýjunaryfirlýsing yrði send til hans daginn eftir. Þann 8. maí 2014 hafi verjandinn sent endurupptökubeiðanda tölvubréf með áfrýjunaryfirlýsingu í viðhengi og tekið fram að hann skyldi rita undir yfirlýsinguna og senda til baka „skannaða“ og í pósti. Sama dag hafi verjandinn sent ríkissaksóknara tölvubréf með fyrrnefndri áfrýjunaryfirlýsingu. Í framhaldinu hafi ríkissaksóknari gefið út áfrýjunarstefnu, dags. 12. maí 2014.

Endurupptökubeiðandi var ekki viðstaddur uppkvaðningu héraðsdóms þann 11. apríl 2014 samkvæmt þingbók héraðsdóms. Samkvæmt henni átti að fela lögreglu að birta dóminn, en endurupptökubeiðandi fullyrðir að dómurinn hafi aldrei verið birtur sér. Í málsgögnum hæstaréttarmálsins sé ekkert vottorð um birtingu að finna, en samkvæmt ákvæði 3. mgr. 185. gr. laga um meðferð sakamála sé ákæranda skylt að birta ákærða dóm þegar hann hafi ekki verið viðstaddur uppkvaðningu dóms og refsing fari fram úr sektum.

Lögmaður endurupptökubeiðanda hafi 9. júlí 2015 óskað eftir skýringum og gögnum frá verjanda endurupptökubeiðanda í héraði, sem vörðuðu áfrýjun málsins og hvernig að henni hefði verið staðið. Verjandinn kveði að gögnin sýni vilja endurupptökubeiðanda til að áfrýja málinu og hafi skýr vilji hans í þá áttina verið settur fram skriflega og í samtölum.

Endurupptökubeiðandi kveðst á hinn bóginn aldrei hafa lýst yfir skýrum eða endanlegum vilja til að áfrýja málinu við verjanda sinn í héraði og það endurspeglist best í því að hann hafi aldrei sent honum undirritaða áfrýjunaryfirlýsingu. Auk þess hafi hann ekki óskað eftir því að verjandinn myndi senda inn óundirritaða yfirlýsingu. Þá hafi hann ekki falið Kristjáni Stefánssyni hrl. að annast mál sitt fyrir Hæstarétti. Kveðst endurupptökubeiðandi ekkert hafa verið í samskiptum við umrædda lögmenn eftir að framangreind tölvubréfasamskipti áttu sér stað milli hans og verjandans. Endurupptökubeiðandi hafi síðan frétt af dómi Hæstaréttar frá þriðja manni.

Endurupptökubeiðandi byggir kröfu sína um endurupptöku málsins á tvennskonar ástæðum. Annars vegar að héraðsdómur hafi ekki verið birtur honum þrátt fyrir lagaskyldu og hins vegar að ekki hafi verið rétt staðið að áfrýjun héraðsdómsins til Hæstaréttar Íslands.

Hvað varðar fyrri málsástæðu endurupptökubeiðanda þá telur hann að ekki fái staðist að taka málið til efnismeðferðar í Hæstarétti án þess að búið hafi verið að birta honum héraðsdóminn í málinu. Ákvæði 3. mgr. 185. gr. laga um meðferð sakamála kveði á um skyldu ákæranda til að birta dóm þegar ákærði sé ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu og refsing fari fram úr sektum. Dómurinn hafi ekki réttaráhrif gagnvart endurupptökubeiðanda fyrr en hann hafi verið birtur og því hafi ekki staðist að skjóta honum til Hæstaréttar án þess að birting hefði farið fram. Þá geti ekki komið til greina að líta svo á að áfrýjunaryfirlýsing komi í stað birtingar, enda komi skýrt fram í 156. gr. laga um meðferð sakamála hvernig staðið skuli að birtingu.

Hvað varðar síðari málsástæðu endurupptökubeiðanda þá byggir hann á því að áfrýjunaryfirlýsingin sem sé grundvöllur að því að í máli hans hafi verið skotið til Hæstaréttar hafi ekki uppfyllt ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 199. gr. laga um meðferð sakamála, enda hafi hún borið með sér að vera send til bráðabirgða. Yfirlýsingin hafi að sama skapi borið með sér að stafa ekki frá ákærða sjálfum þó að form hennar hafi gert ráð fyrir því. Komi auk þess fram í yfirlýsingunni í sérstakri athugasemd frá verjanda í héraði að frumrit muni verða sent. Þá athugasemd sé ekki hægt að skilja öðruvísi en þannig að umrætt skjal hafi einungis verið sent til bráðabirgða. Skjalið hafi þannig borið með sér á tvennskonar hátt að vera ekki endanleg yfirlýsing um áfrýjun. Ekki verði séð að nokkur tilgangur hafi verið með því að senda skjalið á þessum tíma og í þessu formi, enda hafi áfrýjunarfrestur ekki verið byrjaður að líða vegna þess að dómur hafði ekki verið birtur ákærða, sbr. 1. málslið 2. mgr. 199. gr. laga um meðferð sakamála. Þá geri 3. málsliður 2. mgr. 199. gr. laga um meðferð sakamála ráð fyrir því að ríkissaksóknara beri að benda ákærða á hvernig bæta megi úr annmörkum á efni tilkynningar um áfrýjun ef um þá sé að ræða.

Skipti máli í þessu sambandi að mikilvægar ástæður séu að baki reglum um áfrýjun mála, eins og þær að tryggja að ákærði fái tækifæri til að kynna sér héraðsdóm, honum sé kynntur réttur til áfrýjunar og það sé vilji hans að áfrýja. Séu reglur þessar mikilvægur þáttur í réttlátri málsmeðferð viðkomandi einstaklings og ljóst af þeim og eðli málsins að það sé hans en ekki lögmanna að taka ákvörðun um áfrýjun.

Endurupptökubeiðandi byggi einnig á því að ekki sé hægt að líta svo á að verjandi hans í héraði hafi haft stöðuumboð til að áfrýja héraðsdómnum, enda hafi verjandinn ekki haft réttindi sem hæstaréttarlögmaður og því ekki haft heimild til að áfrýja málinu til Hæstaréttar.

Að lokum byggir endurupptökubeiðandi á því að fyrir liggi samkvæmt framangreindu að verulegir gallar hafi verið á meðferð hæstaréttarmálsins nr. 356/2014 þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, enda hafi verið brotið gegn reglum um áfrýjun og birtingu dóma. Hafi Hæstiréttur ranglega kveðið upp efnisdóm í málinu, en vegna annmarka á birtingu dóms og áfrýjun hafi dómurinn átt að vísa málinu frá. Annmarkar þessir hafi þannig haft áhrif á niðurstöðuna í málinu og af þeim sökum eigi að endurupptaka það á grundvelli d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 215. gr. sömu laga.

IV. Viðhorf gagnaðila

Í umsögn ríkissaksóknara, dagsettri 21. ágúst 2015, telur hann skilyrði d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála ekki vera uppfyllt og því beri að hafna beiðninni. Ríkissaksóknari byggir afstöðu sína á þeim gögnum sem endurupptökubeiðandi hefur lagt fyrir endurupptökunefnd. Í þeim gögnum komi skýrt fram vilji endurupptökubeiðanda til áfrýjunar hæstaréttarmálsins nr. 356/2014.

Að mati ríkissaksóknara hafi verjandinn Stefán Karl Kristjánsson hrl. verið með stöðuumboð til að setja fram áfrýjunaryfirlýsinguna á sínum tíma og skipti ekki máli í því sambandi hvort hann hafi öðlast leyfi til að flytja mál fyrir Hæstarétti. Verði enda ekki séð að lög um meðferð sakamála geri slíkan áskilnað. Þá sé ekki heldur lögbundið skilyrði fyrir gildi áfrýjunaryfirlýsingar að dómfelldi hafi undirritað hana.

Sú staðreynd að dómur héraðsdóms í máli nr. S-770/2013 hafi ekki verið birtur fyrir endurupptökubeiðanda hafi engar lögfylgjur þegar komi að áfrýjun sakamálsins enda liggi ljóst fyrir að honum hafi verið vel kunnugt um efni dómsins og viljað þess vegna áfrýja honum. Dómurinn hafi verið birtur með nafni endurupptökubeiðanda á vefsíðu héraðsdómstólanna í kjölfar uppkvaðningar auk þess sem ætla megi að verjandi endurupptökubeiðanda hafi kynnt honum efni dómsins.

V. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a-d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Skilyrði stafliða a-d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Til að fallist verði á endurupptöku nægir þannig að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt. Endurupptökubeiðandi byggir á því að d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt, að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Fyrir liggur upplýst að endurupptökubeiðandi var ekki viðstaddur þegar dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-770/2013 var kveðinn upp 11. apríl 2014. Þá var dómurinn ekki birtur fyrir honum í samræmi við ákvæði 156. gr. laga um meðferð sakamála þrátt fyrir afdráttarlaus fyrirmæli í 3. mgr. 185. gr. sömu laga þar að lútandi. Þá liggur engin yfirlýsing fyrir frá endurupptökubeiðanda um að hann hafi fallið frá skilyrði laga um birtingu.

Fyrir liggur í gögnum málsins að endurupptökubeiðanda var kunnugt um niðurstöðu héraðsdóms og að hann var ósáttur við hana og hafði hug á að áfrýja dóminum. Þá liggur fyrir tölvubréf verjanda í héraði til endurupptökubeiðanda sem ber þess merki að hafa fylgt rafrænu eintaki dómsins og felur í sér nokkra umfjöllun um dóminn og hvaða valkostum endurupptökubeiðandi stæði frammi fyrir.

Þá er líka óumdeilt að skjal það sem felur í sér áfrýjunaryfirlýsingu endurupptökubeiðanda, í hvaða tilgangi dóminum er áfrýjað og ósk um skipan verjanda, er óundirritað af hans hálfu. Er þó gert ráð fyrir slíkri undirritun. Neðst í skjalinu er sjálfstæð yfirlýsing verjanda endurupptökubeiðanda í héraði þar sem gerð er grein fyrir að yfirlýsingin sé send Hæstarétti að beiðni endurupptökubeiðanda á grundvelli heimildar hans, eins og það er orðað, og að frumrit yfirlýsingarinnar verði sent ríkissaksóknara um leið og það berist. Frumritið barst aldrei enda mun endurupptökubeiðandi ekki hafa undirritað skjalið.

Þau lagaákvæði sem hér hefur verið fjallað um, 3. mgr. 185. gr., sbr. 156. gr. og 2. mgr. 199. gr. laga um meðferð sakamála kveða afdráttarlaust á um að dómfelldi komi sjálfur að málum, við birtingu dóms og við yfirlýsingu um áfrýjun, þar með talið yfirlýsingu um hvern hann óski eftir að fá skipaðan sem verjanda eða hvort hann hafi hug á að verja sig sjálfur. Kveðið er á um það sérstaklega á hvern máta bregða má frá því að birta dóm fyrir dómfellda. Þá gera lög ekki ráð fyrir að stöðuumboð lögmanns eitt og sér dugi til að lýsa yfir áfrýjun. Hér er að mati endurupptökunefndar um slík grundvallarréttindi að ræða að það verður að vera hafið yfir allan vafa að dómfellda sé kunnugt um efni dóms svo honum sé unnt að taka upplýsta afstöðu til dómsniðurstöðu, hvort henni skuli una eða æskja áfrýjunar. Þá má enginn vafi leika á vilja dómfellda til áfrýjunar, í hvaða skyni áfrýjað er né á því hvern hann kýs til að gæta hagsmuna sinna fyrir Hæstarétti. Öll þessi atriði eru órjúfanlegur þáttur í réttlátri málsmeðferð fyrir dómi, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Fyrirliggjandi eru í málinu gögn sem gefa til kynna að endurupptökubeiðanda hafi verið kunnugt um dóm héraðsdóms og hafi haft hug á áfrýjun. Í ljósi þess hve afdráttarlaust er kveðið á um framkvæmd birtingar, tilkynningu um áfrýjun og tilnefningu verjanda ef um slíka á að vera að ræða, nægja þessar vísbendingar á hinn bóginn ekki gegn mótmælum endurupptökubeiðanda til þess að fullyrt verði að ákvæðum laga sé fullnægt í þessum efnum.

Með vísan til framangreindra ágalla er lúta bæði að birtingu og áfrýjun dóms héraðsdóms er óhjákvæmilegt að telja að skilyrði d-liðar 211. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt, að verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Sýnist í þessum efnum áhorfsmál hvort efnisdómur hefði verið lagður á málið ef komið hefði til umfjöllunar fyrir Hæstarétti að dómur héraðsdóms hafi hvorki verið birtur né yfirlýsing frá dómfellda um áfrýjun lægi fyrir.

Ber því með vísan til alls ofanritaðs að fallast á endurupptöku dóms í hæstaréttarmáli nr. 356/2014 sem kveðinn var upp í Hæstarétti Íslands 30. apríl 2015.

Í ljósi ofangreindrar niðurstöðu og þess að lögmaður endurupptökubeiðanda Bjarni Hauksson hrl. var skipaður til að gæta réttar hans, sbr. 1. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála, verður kostnaður endurupptökubeiðanda með vísan til 4. mgr. 214. gr. sömu laga felldur á ríkissjóð. Samtals 200.000 krónur vegna þóknunar lögmanns hans að meðtöldum virðisaukaskatti.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Hannibals Sigurvinssonar um endurupptöku máls nr. 356/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 30. apríl 2015, er samþykkt.

Kostnaður endurupptökubeiðanda 200.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

Björn L. Bergsson formaður

Elín Blöndal

Þórdís Ingadóttir

                                                                                                                         

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn