Hoppa yfir valmynd
23. september 2015 Innviðaráðuneytið

Innleiðing rafrænna reikninga á Íslandi

Innleiðing rafrænna reikninga á Íslandi

23.9.2015

Frá síðustu áramótum varð aðilum sem eiga viðskipti við íslenska ríkið eða Reykjavíkurborg skylt að senda rafræna reikninga sem byggja á XML fyrir vöru sína eða þjónustu. Grunnurinn að þessari ákvörðun var þó lagður mun fyrr, eða á árinu 2009 þegar tækniforskrift um rafrænan reikning sem byggð var á NES verklaginu var gefin út af FUT (Fagstaðlaráði í upplýsingatækni).  Á þeim tíma fór hægfara þróun af stað, sem hefur verið mun hægari en vonir stóðu til, þar sem almennt er ekki deilt um hagræði þess að taka upp rafrænan reikning í stað þess að gefa út pappírsreikninga.  Hjá þeim aðilum sem lagt hafa af stað í þessa vegferð er gengið út frá því að hver rafrænn reikningur geti lækkað kostnað tengdan reikningaferlinu um 1.000.- krónur.

Á undanförnum árum hefur ICEPRO unnið að því að fá raunhæfar tölur um þróun í fjölda rafrænna reikninga sem byggja á XML.  Erfitt hefur reynst að fá tölur sem hægt er að byggja á, þó svo að legið hafi fyrir upplýsingar um stöðu mála hjá einstaka fyrirtækjum, stofnunum eða sveitafélögum, þá hefur vantað upp á að fyrir lægju tölur sem sýndu heildarþróun þessara mála. 

Þeir aðilar sem standa best að vígi til að veita upplýsingar um þróunina í innleiðingu rafrænna reikninga eru þeir aðilar eru í hlutverki skeytamiðlara og eru í raun þeir sem flytja alla rafræna reikninga sem berast á milli aðila á íslenska markaðnum í dag. Þetta eru Skeytamiðlun Advania, InExchange og Sendill, en þessir aðilar telja að markaðurinn hér sé of skammt á veg kominn í þróuninni og því geti það skaðað samkeppnisstöðu skeytamiðlaranna að gefa upp raunverulegan fjölda reikninga sem að flæði í gegnum þeirra þjónustugáttir.

ICEPRO er í góðu sambandi við þessa aðila og hefur það að markmiði að nýta það góða samband til að byggja upp markvissar mælingar á þróun mála, svo að hægt verði að gera sér grein fyrir þeim hagræna ávinningi sem er að nást með fjölgun rafrænna reikninga.  Þetta samstarf hefur leitt af sér fyrstu vísbendingar um þróun mála, en 2 skeytamiðlarar af 3 hafa gefið okkur upplýsingar um hlutfallslega þróun í fjölda sendra og mótekinna reikninga um þeirra kerfi frá árinu 2011.  Upplýsingarnar sem birtast í meðfylgjandi línuríti og sýna vísitölu aukningar í fjölda rafrænna reikninga sem eru meðhöndlaðir hjá hvorum aðila fyrir sig eru á engan hátt vísindalegar. Við hjá ICEPRO höfum ekki upplýsingar um þann fjölda reikninga sem að liggja að baki þessum hlutfallstölum, heldur lögðu þessir aðilar til grundvallar þann fjölda sem að þeir sáu um að senda og móttaka á árinu 2011 og reiknuðu hlutfallslega aukningu frá ári til árs fram til dagsins í dag.

Þannig gefur þessi mynd okkur aðeins vísbendingu um þróunina sem hefur átt sér stað á þessum árum.  Myndin sýnir okkur að stöðug aukning hefur átt sér stað á þessu tímabili, þannig hefur fjöldi reikninga hjá öðrum aðilanum 14 faldast og um 18 faldast hjá hinum.  Búast má við því að þegar öll kurl eru komin til grafar á árinu 2015, þá muni aukning ársins verða enn meiri, vegna áhrifa frá tilmælum Fjármálráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um að móttöku rafrænna reikninga frá og með síðustu áramótum.

ICEPRO hefur einsett sér að birta reglulegar upplýsingar um þróun þessara mála og gera upplýsingarnar markvissari og betri.  Þá horfum við einnig til þróun mála hjá nágrannaþjóðum okkar og stefnum að því að samræma mælingar okkar þeim mælingum sem þar munu líta dagsins ljós.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum