Hoppa yfir valmynd
24. september 2015 Innviðaráðuneytið

Ræddi húsnæðismál á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna

Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna 2015
Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna 2015

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, var gestur sveitarfélaganna á árlegri fjármálaráðstefnu þeirra sem hófst í Reykjavík í dag. Í ávarpi sem hún flutti lagði hún megináherslu á úrbætur í húsnæðismálum sem unnið er að í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda frá í vor.

„Í maí síðastliðnum samþykkti ríkisstjórnin yfirlýsingu um ýmsar aðgerðir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þessi yfirlýsing felur í sér ýmis stór verkefni og viðfangsefni sem varða almenning í landinu og það á ekki síst við um veigamiklar aðgerðir til úrbóta í húsnæðismálum. Þessar aðgerðir eru að miklu leyti útfærðar, enda byggði húsnæðishluti yfirlýsingarinnar á viðamikilli undirbúningsvinnu sem þá hafði farið fram, ekki síst í nefnd á mínum vegum sem fjallað hafði um framtíðarskipan húsnæðismála“ sagði Eygló meðal annars í ræðu sinni.

Ráðherra sagði aðstæður á húsnæðismarkaði krefjast þess að jöfnun höndum sé ráðist í Eygló Harðardóttiraðgerðir til að að styrkja leigumarkaðinn og bæta stöðu leigjenda, en jafnframt að gera fleirum mögulegt að ráðast í íbúðakaup án þess að reisa sér hurðarás um öxl: „Framundan eru viðamiklar úrbætur í málaflokki sem stendur illa og varðar marga. Auðvitað er stór hluti landsmanna ágætlega settur í öruggu húsnæði, en þeir eru hins vegar allt of margir sem búa við háa leigu á ótryggum leigumarkaði, eða eru að glíma við fasteignakaup sem eru þeim fjárhagslega mjög erfið eða jafnvel ofviða.“

Í ræðu sinni rakti ráðherra helstu úrbætur í húsnæðismálum sem unnið er að. Í þeim felist m.a. að leggja grunn að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi með áherslu á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum og að stefnt sé að uppbyggingu 2.300 íbúða á næstu árum. Mikilvægur liður í þessu sé að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform. Ráðherra benti á að þessar áherslur kæmu fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs þar sem gert er ráð fyrir að 2,64 milljörðum króna verði varið samtals til uppbyggingar félagslegs húsnæðis og í nýtt húsnæðisbótakerfi.

Halldór HalldórssonAð loknu ávarpi Eyglóar Harðardóttur áttu hún og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga samræður sem Sigmundur Ernir Rúnarsson, fjölmiðlamaður stýrði. Af mörgum málefnum sem þar bar á góma má nefna hvernig ríki og sveitarfélög geti stuðlað að auknu framboði húsnæðis á viðráðanlegu verði en einnig fengu málefni fatlaðs fólks og yfirfærsla málaflokksins til sveitarfélaganna nokkra athygli. Halldór og Eygló voru sammála um að þjónusta við fatlað fólk væri nærþjónusta sem vel færi á að sveitarfélögin sinntu og bæði lýstu þeirri skoðun að sveitarfélögin hefðu sinnt því verkefni vel. Aftur á móti yrði að ljúka sem fyrst endurskoðun og mati á yfirfærslunni sem enn stendur yfir og komast að sameiginlegri niðurstöðu um kostnað sveitarfélaganna við verkefnið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum