Raforkutilskipun ranglega sögð brotin á Íslandi
Vegna fréttar í Fréttablaðinu í dag um að „íslensk stjórnvöld og opinberar stofnanir eru sökuð um lögbrot í raforkumálum samkvæmt ESA“ vill ráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri.
Kvörtun barst Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) 8. ágúst 2014 með ábendingu um að innleiðingu annarrar raforkutilskipunarinnar ESB, nr. 2003/54/EB, væri ekki lokið að öllu leyti hér á landi. Í framhaldi af því þá sendi ESA ítarlega fyrirspurn til ráðuneytisins um hvernig hafi verið staðið að innleiðingu á tilskipuninni. Ráðuneytið svaraði fyrirspurn ESA og hefur í framhaldi átt í samskiptum við ESA um málið.
Samkvæmt upplýsingum frá ESA þá stefnir stofnunin að því að ljúka athugun sinni og aðhafast ekki frekar þar sem íslensk stjórnvöld hyggjast bæta úr þremur minniháttar atriðum sem eftir standa varðandi innleiðingu tilskipunarinnar. Þau varða skýrslugerð Orkustofnunar, áætlun um góða viðskiptahætti („compliance program“) sem Landsnet skal setja fram og setningu netmála um kerfisframlag sem hefur verið í vinnslu en eftir er að birta.
Væri um verulegar brotalamir á innleiðingu annarrar raforkutilskipunar hér á landi, eins og skilja má af framangreindri frétt, þá myndi ESA reka samningsbrotamál fyrir EFTA dómstólnum. ESA hyggst hins vegar eftir vandlega athugun loka málinu og aðhafast ekki frekar. Líta ber því svo á að umrædd tilskipun hafi verið rétt innleidd hér á landi, að tilgreindum framangreindum ábendingum frá ESA sem eru í vinnslu og verður lokið á næstu vikum.