Iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði Orkuráðstefnu Norðurslóða
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ávarpaði í gær Orkuráðstefnu Norðurslóða (e. The Arctic Energy Summit) sem fram fer í Fairbanks í Alaska.
Ráðstefnan er haldin annað hvert ár, með þátttöku fulltrúa frá Íslandi, Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Kanada, Noregi, Rússlandi og Svíþjóð. Síðasta ráðstefna fór fram á Akureyri haustið 2013.
Í ræðu sinni talaði Ragnheiður Elín m.a. um mikilvægi þess að nýta auðlindir Norðurslóða á sjálfbæran hátt þannig að komandi kynslóðir geti áfram notið þeirra Norðurslóða sem við þekkjum í dag. Ráðherra ræddi um orkunýtingu Íslendinga og hvernig Íslendingar gætu miðlað af sinni reynslu í samstarfi við önnur lönd Norðurslóða, m.a. í Alaska þar sem miklir möguleikar eru á nýtingu jarðvarma. Þá ræddi ráðherra um mikilvægi þess að kortleggja sjálfbærar orkuauðlindir á Norðurslóðum og um mikilvægi þess að efla rannsóknir og nýsköpun í orkumálum til að tryggja betri auðlindanýtingu og aukið orkuöryggi.
Ráðherra átti einnig fundi með dr. Gwen Holdmann, sem er sérfræðingur í hagnýtingu jarðvarma í Alaska og með Viðskiptaráði Norðurslóða (Arctic Economic Council) þar sem Tara Sweeney gegnir formennsku.
Í dag mun ráðherra heimsækja stofnanir í Fairbanks og háskóla svæðisins þar sem fræðst verður m.a. betur um rannsóknir sem unnið er að á sviði orku- og Norðurslóðamála. Á morgun mun Ragnheiður Elín síðan eiga fundi í Anchorage, m.a. með formanni viðskiptaráðs svæðisins.