Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 9/2015.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 23. september 2015

í máli nr. 9/2015:

Húnavirki ehf.

gegn

Húnaþingi vestra

og Ágústi Þorbjörnssyni

Með kæru 8. júní 2015 kærir Húnavirki ehf. ákvörðun Húnaþings vestra um val á tilboði í leið 7 í útboði „vegna skólaaksturs fyrir Grunnskóla Húnaþings vestra skólaárin 2015-2016 til og með 2018-2019“. Kröfur kæranda eru að kærunefnd útboðsmála ógildi útboðið og beini því til varnaraðila að bjóða þjónustuna út að nýju. Þá er þess krafist að veitt verði álit á skaðabótaskyldu varnaraðilans Húnaþings vestra og honum gert að greiða málskostnað. Varnaraðilum var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Greinargerðir varnaraðilans Húnaþings vestra bárust kærunefnd útboðsmála 12. júní og 22. júlí 2015. Greinargerðir Ágústar Þorbjörnssonar bárust 18. og 29. júní 2015. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerðir varnaraðila og bárust andsvör hans nefndinni 5. ágúst 2015. Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 22. júní 2015 var aflétt stöðvun samningsgerðar varnaraðilanna Húnaþings vestra og Ágústs Þorbjörnssonar.

I

Varnaraðili Húnaþing vestra auglýsti útboð á skólaakstri fyrir Grunnskóla sveitarfélagsins skólaárin 2015-2016 til og með 2018-2019. Með útboðinu var leitað tilboða í skólaakstur á tíu akstursleiðum innan sveitarfélagsins. Á fylgiskjölum, sem voru hluti útboðsgagna, var að finna leiðarlýsingu og áætlaðan fjölda barna á hverri akstursleið fyrir sig. Varnaraðili óskaði eftir aðskildum tilboðum í hverja akstursleið. Skyldu tilboðin sett fram sem verð fyrir ekinn kílómetra miðað við þann nemendafjölda sem áætlaður var á leiðinni fyrir næsta skólaár.

Í leiðarlýsingu 7 voru m.a. töflur þar sem fram kom áætlaður fjöldi nemenda á þeim skólaárum sem útboðið náði til, þ.e. næstu fjögur skólaár. Í öllum tilvikum, m.a. veturinn 2015-2016, var gert ráð fyrir ellefu nemendum á leið 7 í þessum töflum. Á öðrum stað í lýsingunni sagði aftur á móti í skrifuðum texta að gert væri ráð fyrir fimmtán börnum á leiðinni veturinn 2015-2016. Varnaraðili Ágúst Þorbjörnsson bauð lægsta verð í leið 7 miðað við 1-13 börn, 179 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra. Tilboð hans fyrir 14-16 börn var hins vegar 209 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra. Ágúst bauð tvo bíla, annan skráðan fyrir 13 farþega en hinn fyrir 16 farþega. Í tilboði kæranda var einungis eitt verð, 185 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra. Kærandi bauð að sama skapi einungis eina bifreið, skráða fyrir 13 farþega. Hinn 1. júní 2015 tók varnaraðili tilboði Ágústs Þorbjörnssonar í leið 7.

II

Kærandi reisir kæru sína að meginstefnu á því að gallar á útboðsgögnum leiði til ógildis útboðsins sem beri þar af leiðandi að endurtaka. Hvað sem þessu líður leggur kærandi áherslu á að kaupanda hafi ekki verið heimilt að taka tilboði á þeirri forsendu að akstursleiðin miðaðist við ellefu börn heldur hafi átt að miða við fimmtán börn á leiðinni. Er í þessu sambandi bent á að það standist ekki að leið sem nefnd er Helguhvammsleið sé ekki inni í útboðinu enda sé leiðarlýsing og kílómetratölur fyrir þá leið að finna í útboðslýsingu. Í andsvörum kæranda segir að á öðrum leiðum hafi verið tekið fram ef samið yrði við foreldra um að aka börnum sínum. Ekkert slíkt hafi verið tekið fram í lýsingu á leið 7 og því hafi kærandi talið að börnin á leiðinni yrðu flutt með skólaakstri. Einnig vísar kærandi til þess að hann hafi ætlað sér að ná í tvö börn frá tilteknum bæ eftir að öðrum hafði verið ekið í skólann þannig að 13 sæta bíll hans væri nægilegur, en einnig hafi hann yfir stærri bifreið að ráða.

Varnaraðilinn Húnaþing vestra fellst á að um misræmi í útboðsgögnum hafi verið að ræða. Hins vegar er vísað til þess að kærandi hafi hvorki spurst fyrir um misræmi í útboðsgögnum á fyrirspurnartíma útboðsins né síðar. Tilboð kæranda hafi ekki verið með fyrirvara um breytingar á þeim fjölda barna sem ekið yrði með. Ljóst hafi mátt vera af útboðsgögnum að einungis var um að ræða 11 börn á leið 7. Varnaraðilinn bendir einnig á að kærandi bjóði bíl fyrir þrettán manns en telji þó að rétt sé að miða við fimmtán farþega á leiðinni.

Varnaraðilinn Ágúst Þorbjörnsson tekur undir athugasemdir varnaraðilans Húnaþings vestra en tekur einnig fram að í tilboðum kæranda í aðrar leiðir hafi komið fram upplýsingar um undirverktaka, bílstjóra og bíla. Hafi kærandi ætlað sér að nota tvo bíla við akstur á leið 7 þá hefðu upplýsingar um það komið fram í tilboði kæranda í leiðina.

III

Ágreiningur aðila lýtur að túlkun á lýsingu akstursleiðar 7 í útboðsgögnum en í lýsingunni gætti misræmis um hvort gert væri ráð fyrir ellefu eða fimmtán börnum á leiðinni. Á það verður fallist að umrætt misræmi feli í sér galla á útboðsgögnum. Það getur þó einungis valdið ógildi útboðsins ef það var til þess fallið að hafa áhrif á tilboðsgerð.

Eins og áður segir bauð varnaraðilinn Ágúst Þorbjörnsson lægsta verð í leið 7 miðað við 1-13 börn. Téður varnaraðili bauð tvo bíla, annan skráðan fyrir 13 farþega en hinn fyrir 16 farþega. Í tilboði kæranda var hins vegar einungis eitt verð og bauð kærandi eina bifreið, skráða fyrir 13 farþega. Að þessu virtu verður ekki séð að framangreint misræmi í lýsingu akstursleiðar 7 hafi haft áhrif á tilboðsgerð kæranda eða niðurstöðu útboðsins. Þá verður ekki á það fallist að útboðsgögn hafi verið óskýr um hvaða leið skyldi ekin. Með vali á tilboði nefnds varnaraðila var þannig ekki brotið gegn lögum um opinber innkaup. Verður því kröfum kæranda hafnað.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Húnavirkis ehf., vegna útboðs varnaraðila, Húnaþings vestra, á skólaakstri fyrir Grunnskóla Húnaþings vestra skólaárin 2015-2016 til og með 2018-2019, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.

                                                                                       Reykjavík, 23. september 2015.

                                                                                       Skúli Magnússon

                                                                                       Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                       Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn