Hoppa yfir valmynd
1. október 2015 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra ræddi flóttamannavandann í öryggisráði SÞ

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, ávarpaði í gær öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Í máli sínu ræddi ráðherrann öryggishorfur í Miðausturlöndum og norðanverðri Afríku, og straum flóttamanna frá átakasvæðum, einkum í Sýrlandi. Gerði ráðherrann grein fyrir framlagi Íslands til flóttamannavandans og beindi orðum sínum að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og ríkri ábyrgð þess á rót vandans. Þá var haldinn, að frumkvæði utanríkisráðherra, fundur EFTA ríkja þar sem flóttamannamálin voru einkum til umfjöllunar.

Gunnar Bragi tók þátt í fundi norrænna utanríkisráðherra og ríkjahóps Karabíahafsins þar sem loftslagsmál og orkumál voru meðal annars á dagskrá. Í máli sínu gerði utanríkisráðherra grein fyrir möguleikum jarðhita og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga en Ísland hefur stutt við ríki Karabíahafsins á þeim sviðum.

Ráðherra tók einnig þátt í fundi 70 ríkja um beitingu neitunarvalds í öryggisráðinu, en Ísland styður tillögur um takmörkun neitunarvaldsins. Þá funduðu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins í sameiningu um öryggismál.

Í dag átti utanríkisráðherra svo tvíhliða fund með utanríkisráðherra Argentínu þar sem efnahagsmál og landgrunnsmál voru einkum til umræðu. Þá fundaði Gunnar Bragi með orkumálaráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna um jarðhitamál, fundaði með umhverfisráðherra Namibíu m.a. um landgræðslumál, og tók þátt í fundi í tilefni af 70 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna. Þar minnti ráðherra á grunngildi Sameinuðu þjóðanna og lagði áherslu á mannréttindi, jafnrétti fyrir alla og virðingu fyrir alþjóðalögum.

Utanríkisráðherra heldur ræðu Íslands í allsherjarþinginu á morgun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum