Vegna fréttar um styrkveitingu Orkusjóðs
Vegna fréttar í Fréttablaðinu í dag um styrkveitingu Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri.
Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að efla samkeppnissjóði. Rétt eins og fyrirtæki og einstaklingar, sækja hinar ýmsu rannsókna- og þróunarstofnanir ríkisins um styrki í sjóðina.
Orkusjóður er samkeppnissjóður og samkvæmt lögum um sjóðinn (87/2003) eru engin takmörk á því hverjir mega sækja í sjóðinn, önnur en þau að Orkustofnun er það óheimilt þar sem hún annast rekstur sjóðsins. Fjölmörg dæmi eru um að stofnanir og háskólar hafi fengið styrki úr sjóðnum.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands er meðal þeirra og hlaut m.a. styrk úr sjóðnum árið 2012.
Stjórn Orkusjóðs gerir tillögu um styrkveitingar til ráðherra og byggir sú ráðgjöf á faglegu mati Orkustofnunar á einstökum verkefnum. Umrædd verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar voru á meðal þeirra verkefna sem fengu jákvæðasta umsögn.
Fyrirtækið Valorka ehf, sem vísað er til í fréttinni, hefur á undanförnum árum unnið að þróun á áhugaverðri tæknilausn á sviði sjávarorku. Til að þróa þessa tækni hefur fyrirtækið á undanförnum árum fengið styrki úr Orkusjóði að upphæð samtals 11,7 m.kr. á árunum 2011-14. Auk þess á sama tíma hefur fyrirtækið fengið ýmsa aðra opinbera styrki til þessa verkefnis. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins nema opinberir styrkir til fyrirtækisins frá árinu 2008 alls 51,7 m.kr.