Hoppa yfir valmynd
5. október 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þriðji fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2015

Þriðji fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2015 var haldinn föstudaginn 2. október í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Á fundi ráðsins var farið yfir áhættu í fjármálakerfinu og hvernig hún hefur breyst frá síðasta fundi ráðsins í vor. Til skemmri tíma er breytingin lítil en mat ráðsins er að sé horft lengra fram á veginn hafi áhættan vaxið fyrir fjármálakerfið þar sem líkur á þjóðhagslegu ójafnvægi hafi aukist. Viðnámsþróttur bankanna til að standast áföll er talinn góður enda eiginfjárhlutföll há og lausafjárstaða góð. Hagnaður stóru bankanna á fyrra árshelmingi var umtalsverður en hann mátti að miklu leyti rekja til einskiptisliða. Uppgjör búa föllnu bankanna og gjaldeyrisútboð vegna aflandskróna geta haft einhver neikvæð áhrif á lausafjárstöðu bankanna en þau eiga að vera innan viðráðanlegra marka. Þá þarf að ljúka undirbúningi varúðarreglna vegna áhættu sem fylgir fjármagnshreyfingum til og frá landinu nú þegar hillir undir losun fjármagnshafta.

Eftirfarandi mál voru á dagskrá:

Staðfesting kerfislega mikilvægra innviða, eiginfjáraukar, fjármagnsflæði til og frá landinu og önnur mál voru á dagskrá fundarins.

Kerfisáhættunefnd lagði fyrir fjármálastöðugleikaráð að staðfesta skilgreiningu á kerfislega mikilvægum innviðum sbr. d-lið 2.mgr. 4.gr. laga nr. 66/2014 um fjármálastöðugleikaráð. Lagt var til að þrjú kerfi teldust kerfislega mikilvægir innviðir þ.e. stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands, jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar ehf. og verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. Tillagan byggist á umsvifum og þýðingu þessara þriggja kerfa í íslenskum fjármálainnviðum og alþjóðlegum leiðbeiningum sem um þau gilda, Principles for Financial Market Infrastructure (PFMI). Fjármálastöðuleikaráð staðfesti að fyrrnefnd þrjú kerfi yrðu skilgreind kerfislega mikilvægir innviðir.

Ákveðið var að halda fjórða fund fjármálastöðugleikaráðs á árinu og verður honum fundinn tími að rúmlega mánuði liðnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum