Hoppa yfir valmynd
12. október 2015 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um ómönnuð loftför til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um ómönnuð loftför en lög um loftferðir heimila að settar séu sérreglur um þau. Umsagnarfrestur er til 2. nóvember næstkomandi og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected]. Um þessar mundir er víða unnið að mótun reglna og kynnti Flugöryggisstofnun Evrópu nýlega drög að reglusetningu um ómönnuð loftför.

Gert er ráð fyrir að evrópureglur um þetta efni taki gildi árið 2016 en fram hefur komið hjá Evrópusambandinu að fyrir atvinnurekstur sé mikilvægt að reglur um ómönnuð loftför eða dróna séu samræmdar milli landa rétt eins og gildir um annað flug. Ómönnuð loftför eru tiltölulega nýtt fyrirbrigði og hefur ör þróun á þessu sviði skapað bæði fjölmörg tækifæri en jafnframt áskoranir. Flugöryggisstofnun Evrópu vinnur að gerð sameiginlegra reglna sem vænta má að teknar verði upp í EES-samninginn en ljóst er að setja þarf notkun þessara loftfara ákveðna umgjörð fram að því.

Fyrirliggjandi drög byggjast að miklu leyti á reglum sem gilda í Sviss og er þeim ætlað að vera einfaldar og aðgengilegar og að reglusetning á þessu sviði taki mið af áhættu af notkun hverju sinni. Þannig eru settar takmarkanir á notkun slíkra loftfara í þéttbýli, nágrenni við íbúðarhúsnæði, yfir mannfjölda og í nágrenni við ákveðnar opinberar byggingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum