Hoppa yfir valmynd
14. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp á 15. þingi Starfsgreinasambands Íslands

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra
15. þing Starfsgreinasambands Íslands, 14.10.2015

Komið þið sæl öll sömul – og takk fyrir að gefa mér kost á að ávarpa 15. þing Starfsgreinasambands Íslands, sem er fjölmennasta landssamband verkafólks á Íslandi með samtals um 50.000 félagsmenn.

Það hefur verið róstursamt á vinnumarkaði síðustu misserin, gengið á með alvarlegum vinnudeilum og verkföllum sem enn sér ekki fyrir endann á, þótt vonandi takist sættir í þeim deilum sem nú standa yfir áður en til yfirvofandi verkfalls kemur á miðnætti, þar sem í hlut eiga samtals um fimm þúsund sjúkraliðar og félagsmenn í SFR.

Við sjáum svo sannarlega ýmis jákvæð teikn á lofti á innlendum vinnumarkaði og það skilar sér í mörgum efnum. Skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun hefur haldið áfram að dragast saman á þessu ári. Skráð atvinnuleysi hjá stofnuninni var mest í janúar til mars eða 3,6% en var komið niður í 2,4% í september. Ljóst er því að framboð starfa á vinnumarkaði er enn að aukast og samtímis sýna tölur þónokkra fjölgun erlendra starfsmanna hér á landi.

Um leið og við bjóðum þá erlendu starfsmenn sem hér vilja starfa velkomna er mikilvægt að við séum virk í að upplýsa þá um hver eru lögbundin sem og kjarasamningsbundin réttindi þeirra. Þar gegnið þið, félagsmenn góðir, lykilhlutverki og í sameiningu ætlum við að segja NEI við félagslegum undirboðum – þau líðum við ekki heldur ætlum við að skapa hér gott starfsumhverfi fyrir alla þátttakendur á íslenskum vinnumarkaði.

Þegar er hafin samvinna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins við að leita allra leiða til að tryggja að hér sé farið að gildandi kjarasamningum á vinnumarkaði sem og að farið sé eftir þeim lögum sem gilda. Í því sambandi hafa m.a. Vinnumálastofnun, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins sammælst um að taka höndum saman í því skyni að tryggja sem best eftirlit á vinnumarkaði hérlendis á grundvelli gildandi laga.

Friður á vinnumarkaði er geysilega mikilvægur fyrir stöðugleika í samfélaginu og forsenda fyrir svo mörgum mikilvægum þáttum sem varða velferð einstaklinga og vaxtarskilyrði samfélagsins. Það er ekkert skrýtið við það að í kjarasamningum sé mikið lagt upp úr krónutölum, prósentuhækkunum og samanburði við aðra launahópa, líkt og við þekkjum svo vel. Hitt má svo ekki gleymast að það eru margir aðrir þættir sem skipta máli – sem ég tel ástæðu til að huga mun betur en jafnan er gert - þegar rætt er um leiðir til að bæta kjör launafólks.

Það er stutt síðan að ég var gestur á 34. þingi Alþýðusambands Norðurlands sem haldið var á Illugastöðum í Fnjóskadal. Fyrir þann fund var sérstaklega óskað eftir því að ég gerði grein fyrir stöðu og horfum í húsnæðismálum landsmanna. Það var kærkomið fyrir mig, því húsnæðismál og úrbætur í húsnæðismálum landsmanna eru mitt hjartans mál og í mínum huga eitt stærsta viðfangsefni stjórnvalda þessi misserin.

Á þinginu á Illugastöðum var samþykkt góð og gagnmerk ályktun um húsnæðismál þar sem m.a. segir, með leyfi fundarstjóra: „Öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum er grundvöllur að velferð. Allt of margir í okkar samfélagi búa ekki við þetta öryggi. Fjöldi fólks býr við lélegan og ófullnægandi húsakost, háan húsnæðiskostnað, hefur ekki bolmagn til að kaupa húsnæði, hafa ekki aðgang að félagslegu húsnæði og geta ekki greitt háa húsaleigu á almennum markaði. Fáir raunhæfir kostir eru fyrir þennan hóp sem er að stærstum hluta ungt fólk, tekjulágar fjölskyldur, aldraðir og öryrkjar. Fjármögnun íbúðarhúsnæðis hér á landi er bæði óhagstæð og áhættusöm. Þess vegna þarf að koma á nýju húsnæðislánakerfi sem tryggir heimilum hagstæðari fjármögnun íbúðarhúsnæðis og dreifir áhættu við efnahagsáföll með réttlátari hætti milli lántakenda og lánveitenda“ - tilvitun lýkur. Í ályktuninni er þess einnig getið að verkalýðshreyfingin hafi síðastliðið vor lagt ríka áherslu á að sköpuð yrðu raunhæf úrræði í húsnæðismálum fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur og jafnframt er þar fjallað stuttlega um áform stjórnvalda í þessum efnum.

Ég tek svo sannarlega undir þau orð að öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum sé grundvöllur að velferð – og eins það að allt of margir í okkar samfélagi búi ekki við þetta öryggi.

Góðir fundarmenn.

Stuttu eftir að ég tók við ráðherraembætti rifjaði ég upp svokallað júlísamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá árinu 1965 sem fólk í sér stórátak til að leysa brýnan húsnæðisskort. Samkomulagið var liður í lausn erfiðrar vinnudeilu og var samið um byggingu 1.250 íbúða fyrir lágtekjufólk í Reykjavík. Benti ég á að í aðdraganda erfiðra kjarasamninga gætu samningar af þessum toga reynst skynsamlegir.

Það var mér því mikið ánægjuefni þegar ríkisstjórnin samþykkti í maí í vor yfirlýsingu um ýmsar mikilvægar aðgerðir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sem lið í þessu samkomulagi skuldbatt ríkisstjórnin sig til – í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Auk aðgerða á húsnæðismarkaði má nefna loforð stjórnvalda um breytingar á tekjuskatti í þvi skyni að hækka ráðstöfunartekjur launafólks, niðurfellingu tolla á fatnað og skó og ýmislegt fleira sem miklu skiptir um velferð fólks í samfélaginu, m.e. ákvörðun um mótun vinnumarkaðsstefnu, sem ég vonast til að geta kynnt á allra næstu dögum.

Það er margt mikilvægt í yfirlýsingu stjórnvalda frá í vor, en í ljósi þeirra verkefna sem ég ber ábyrgð á langar mig að fara yfir aðgerðir á sviði húsnæðismála sem unnið er að og byggja á viðamikilli undirbúningsvinnu sem fór fram í nefnd á mínum vegum um framtíðarskipan húsnæðismála, þar sem áhersla var lögð á víðtækt samstarf og samráð.

Góðir gestir.

Þótt margt hafi snúist til betri vegar í efnahagsmálum þjóðarinnar, atvinnuástand er orðið nokkuð gott, kaupmáttur fólks hefur aukist og dregið hefur úr vanskilum, þá stendur eftir sú staðreynd að hluti landsmanna er í alvarlegu húsnæðisbasli. Sem betur fer er þorri fólks ágætlega sett í öruggu húsnæði en eftir stendur hópur, einkum ungt fólk og tekjulágt sem býr við þær aðstæður að ráða ekki við húsnæðiskaup – og neyðist til að vera á leigumarkaði sem eins og við vitum stendur ekki undir nafni, því hann er bæði ótryggur og leiguverðið hátt. Þetta er vandinn í hnotskurn og úrbætur eru orðnar mjög brýnar.

Aðstæður á húsnæðismarkaði krefjast þess að jöfnum höndum sé ráðist í aðgerðir til að styrkja leigumarkaðinn og bæta stöðu leigjenda, en jafnframt að gera fleirum mögulegt að ráðast í íbúðakaup án þess að reisa sér hurðarás um öxl.

Ég ætla nú að fara yfir helstu þætti yfirlýsingarinnar varðandi húsnæðismálin til að varpa ljósi á þær breytingar sem eru framundan og hafa það meginmarkmið að tryggja húsnæðisöryggi fólks, hvar á landinu sem það býr, með raunhæfum valkostum.

Í fyrsta lagi verður lagður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi með áherslu á að fjölga hagkvæmum íbúðum á viðráðanlegu verði til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma. Áætlun stjórnvalda felur í sér byggingu um 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum. Þetta nýja félagslega leiguíbúðakerfi verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema um 30% af stofnkostnaði. Framlag sem þetta ætti að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur mun ekki nema hærra hlutfalli en um 20 – 25% af tekjum. Með þessu móti er stefnt að því að veita tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, aðgang að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er miðað við að 1,5 milljörðum króna verði varið uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis á næsta ári.

Við uppbyggingu á hagkvæmu félagslegu leiguhúsnæði er horft til þess að fela slík verkefni sveitarfélögum – eða félögum eða sjálfseignarstofnunum sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni og hafa það að langtímamarkmiði að eiga og reka leiguhúsnæði fyrir leigjendur sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Settar verða skorður til að fyrirbyggja að íbúðir verði teknar út úr félagslega leigukerfinu nema með sérstakri heimild þar sem ákvæði verði um ráðstöfun söluhagnaðar. Ég vil nota tækifærið hér og hvetja Starfsgreinasambandið til að kanna möguleika á stofnun félaga eins og hér um ræðir fyrir sína félagsmenn. Til að auka framboð leiguíbúða nefni ég einnig áform um að lækka skattlagningu á leigutekjur af íbúðum í eigu einstaklinga.

Ég veit að víða á landsbyggðinni, einkum í dreifðari byggðum, hefur fólk áhyggjur af því að aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum muni ekki koma að haldi við aðstæður þar sem markaðsvirði húsnæðis er lægra og jafnvel miklu lægra byggingakostnaðurinn. Í ljósi reynslunnar eru þessar áhyggjur skiljanlegar, en vegna reynslunnar hefur líka verið lögð vinna í að finna leiðir til að taka á þessum vanda. Þar er ég að vísa til þess fyrirkomulags sem ég lýsti áðan varðandi uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði með stofnframlögum og beinum vaxtaniðurgreiðslum af hálfu hins opinbera. Við vitum að víða á landsbyggðinni er töluverð eftirspurn eftir húsnæði og húsnæðisskortur er raunverulegt vandamál, þótt lítil sem engin eftirspurn sé eftir húsnæði til kaups á raunhæfu verði miðað við byggingarkostnað. Með uppbyggingu hagkvæms leiguhúsnæði í sérstökum félögum eins og ég hef lýst hér er fyllilega raunhæft að standa fyrir uppbyggingu og sjálfbærum rekstri húsnæðis þar sem eftirspurn er fyrir hendi. Með þessu móti getum við búið fólki húsnæðisöryggi á viðráðanlegu verði.

Beinn húsnæðisstuðningur skiptir einnig miklu máli en þar blasir við að leigjendur hafa borið skarðan hlut hingað til í samanburði við þá sem hafa keypt húsnæði sitt og fá stuðning í gegnum vaxtabótakerfið. Nú verður unnið að því að jafna húsnæðisstuðning þannig að eigendur húsnæðis og leigjendur sitji við sama borð. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þar gert ráð fyrir að verja rúmum 1,1 milljarði króna til hækkunar húsnæðisbóta. Grunnfjárhæð bótanna og frítekjumörk verða hækkuð og við útreikning bóta munu fjárhæðir taka mið af fjölda heimilismanna óháð aldri í stað fjölskyldugerðar eða fjölda barna líkt og verið hefur. Með þessu móti er tekið tillit til aukins húsnæðiskostnaðar eftir því sem fleiri eru í heimili. Markmiðið er að auka húsnæðisstuðning við leigjendur þannig að hann verði jafnari húsnæðisstuðningi hins opinbera við kaupendur íbúðarhúsnæðis innan vaxtabótakerfisins.

Lánakjör til húsnæðiskaupenda eru auðvitað stórt mál og því er mjög áhugavert að sjá nýtt útspil Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna með breyttum og hagstæðari kjörum á lífeyrissjóðslánum sem sjóðurinn veitir. Þetta er eitthvað sem kann að vera vert að skoða í þeim lífeyrissjóðum sem þið eigið aðild að.

Ég dreg það einnig fram hér, þótt málið sé ekki á mínu forræði, að áformað er að auka stuðning við fólk til fyrstu íbúðakaupa, þar sem hugmyndin er að hvetja til húsnæðissparnaðar, til dæmis þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignasparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð, án skattlagningar.

Það er alveg ljóst að ríki og sveitarfélögin í landinu verða að vinna þétt saman ef árangur á að nást til úrbóta í húsnæðismálum. Ég nefni hér þá áskorun að lækka byggingarkostnað og auka framboð af ódýru húsnæði. Ríkið getur lagt sitt af mörkum með endurskoðun byggingareglugerðar og skipulagslaga og í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í maí er lögð rík áhersla á þennan þátt húsnæðismála. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að í byggingareglugerð verði tekinn verði inn nýr flokkur mannvirkja sem verði undanþeginn ákvæðum um altæka hönnun. Það er engin spurning í mínum huga að með útsjónarsemi og svolítið breyttu hugarfari er mögulegt að auka fjölbreytni á húsnæðismarkaði með auknu framboði íbúða sem henta fyrstu kaupendum og efnaminni einstaklingum eða öðrum þeim sem eru að koma undir sig fótunum.

Varðandi lækkun byggingarkostnaðar og hlutverk sveitarfélaganna þá skiptir þar máli að þau fara með skipulagsvald innan sinna stjórnsýslumarka og hafa þar með mjög mikilvægt verkfæri í höndunum til að stýra þróun byggðar til samræmis við þarfir íbúanna. Það skiptir miklu máli hvernig staðið er að skipulagi og uppbyggingu nýrra hverfa og hvernig lóðum er ráðstafað. Þarna geta sveitarfélögin sett margvísleg skilyrði sem tryggja blandaða byggð og fjölbreytta valkosti í húsnæðismálum. Lóðaframboð, lóðaverð, fyrirkomulag lóðaúthlutana og margt fleira kemur til sem getur skipt miklu máli um uppbyggingu húsnæðis hjá sveitarfélögunum og hve vel það mætir ólíkum þörfum íbúanna.

Góðir gestir.

Ég tel mig nú hafa rakið í grófum dráttum það mikilvægasta varðandi fyrirhugaðar aðgerðir og áætlanir sem allar miða að því að tryggja fólki aukið öryggi í húsnæðismálum. Þetta er risavaxið viðfangsefni sem verður að vanda til. Í allri þeirri undirbúningsvinnu sem þegar er að baki hef ég lagt ríka áherslu á að mikið og gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin og samband þeirra og það mun ég gera áfram. Þetta er málaflokkur sem krefst þess að allir aðilar sem hlut eiga að máli séu samhentir og stefni að sama marki.

Ég þreytist ekki á að hamra á mikilvægi samráðs og samstarfs á sviði húsnæðismála. Öðu vísi náum við ekki árangri. Þess vegna höfum við, þrír ráðherrar ákveðið að efna sameiginlega til almenns fundar um húsnæðismál, síðar í þessum mánuði, þar sem allir hugsanlegir aðilar þessara mála sem hafa hagsmuna að gæta og geta lagt gott til málanna verða boðaðir. Megináherslan verður lögð á leiðir til að lækka byggingarkostnað og auka framboð af húsnæði á viðráðanlegu verði. Ráðherrarnir sem hlut eiga að máli eru, auk félags- og húsnæðismálaráðherra, ráðherra iðnaðar- og viðskipa og ráðherra umhverfis og auðlinda sem fer m.a. með skipulagsmálin.

Góðir gestir.

Það er jarðvegur til samstarfs, breytinga og úrbóta. Ég er þess fullviss að sá jarðvegur sé frjór og muni leiða til mikilsverðra breytinga og úrbóta í húsnæðismálum landsmanna á næstu misserum.

Góðar stundir.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum